Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 794  —  2. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpi þessu, hinum árlega bandormi, eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum til samræmis við stefnumótun í ríkisfjármálum og með tilliti til verðlagsþróunar. Að meginstefnu er um að ræða breytingar á sköttum og gjöldum, en einnig er fjallað um hvaða tímabundnu úrræði og tímabundnu bráðabirgðaheimildir í lögum verða framlengdar um ár.
    Þegar við ræðum ríkisfjármál er nauðsynlegt að hafa í huga efnahagsástand í þjóðfélaginu. Staðan er þegar orðin erfið á mörgum heimilum. Samkvæmt upplýsingum frá BSRB eiga 38.000 heimili erfitt með að ná endum saman, þar á meðal meira en helmingur einstæðra foreldra. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hækkuðu mánaðarleg útgöld fjögurra manna fjölskyldu um 127.000 kr. milli ára. Öryrkjar sem leita til umboðsmanns skuldara hafa að meðaltali 3.500 kr. í mínus eftir að hafa greitt fastar afborganir. Augljóslega hefur þessi staða áhrif á heimili enda hefur notendum fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar fjölgað um 55% á milli áranna 2021 og 2022. Það er í þessu samhengi sem við þurfum að ræða áform ríkisstjórnarinnar um að hækka skatta og gjöld.
    Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka krónutöluskatta um 7,7% milli ára. Hækkunin er rökstudd með vísan til verðlagsþróunar. Vert er að hafa í huga að krónutöluskattar hafa alls ekki alltaf fylgt verðlagi. Það nær ekki nokkurri átt að hækka skatta til samræmis við verðlag á tímum sem þessum. Þessar skattahækkanir leggjast á alla, óháð efnahag. Þeir bitna því hlutfallslega meira á þeim efnaminni.
    Ríkisstjórninni til varnar má reyndar segja að það er rétt að sum heimili hafa það mjög gott. Til dæmis hafa fjármagnseigendur og fyrirtæki hagnast mikið á árinu. Fjármagnstekjur í ár eru 16 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir. Stærsta tekjuaukning heimila í fyrra voru auknar fjármagnstekjur. Sú aukning skilaði sér nær einvörðungu til fólks í efstu tekjutíundinni. Einnig var hagnaður stórra fyrirtækja gríðarlega mikill og ekki útlit fyrir að hann minnki í bráð. En þessum fyrirtækjum og þessum tekjuháu einstaklingum er algjörlega hlíft í bandormi og fjárlagafrumvarpi.
    Vissulega mun þetta vel setta fólk greiða hærra verð fyrir vörur og þjónustu eins og aðrir í þjóðfélaginu, en munurinn er sá að þau finna lítið fyrir því þó að kostnaður eða afborganir af húsnæði hækki. Enda má kannski gera því skóna að þau skuldi lítið í húsnæði sínu sem hafa svona háar tekjur. Svo virðist sem þetta sé fólkið sem ríkisstjórnin tengi sig við, enda virðast margir ráðherrar halda að við í Flokki fólksins ýkjum gróflega þegar við ræðum um fátækt á Íslandi. Þær frásagnir virðast hljóma í eyrum þeirra eins og ævintýri H.C. Andersens um litlu stúlkuna með eldspýturnar, sem er sorgleg saga. Því miður er það blákaldur veruleiki allt of margra á Íslandi að eiga ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn, svo að ekki sé talað um möguleika á að veita sér eitthvert smáræði öðru hverju. Sá möguleiki er einfaldlega ekki fyrir hendi. Það er kominn tími til að efstu lög greiði örlítið meira til samfélagsins og því styður 2. minni hluti eindregið breytingartillögu minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%. Samkvæmt minnisblaði frá fjármálaráðuneyti er ljóst að sú hækkun mun nær eingöngu lenda í efstu tekjutíundinni, sem er vægast sagt vel aflögufær, og skila ríkissjóði um 5 milljörðum kr. í auknar tekjur.
    Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,376% lækkaður í 0,145%. Með öllum þessum aukastöfum er ekki víst að allir átti sig á að bankaskattur var minna en 0,4% og er núna einn sjöundi úr einu prósenti. Ríkisstjórnin sagði að lækkun bankaskatts myndi lækka kostnað neytenda. Annað hefur komið á daginn. Í vaxtahækkunarferli undanfarið ár hafa viðskiptabankar brugðist við með leifturhraða og hækkað vaxtakjör, oft umfram hækkanir Seðlabanka Íslands. Af þeirri ástæðu einni ætti svo sannarlega að hækka bankaskatt í það sem hann var fyrir lækkun, enda hafa bankar alls ekki staðið við sinn hluta þessa samkomulags.
    Í minnisblaði sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá fjármálaráðuneyti var að finna svar ráðuneytisins við þeirri spurningu hversu mjög tekjur ríkissjóðs hækkuðu ef bankaskattur yrði aftur hækkaður úr 0,145% í 0,376%. Í svarinu kom fram að væri skattprósenta 0,145% mætti gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálastofnanir, eða bankaskatti, næmu 5,9 milljörðum kr. Væri skattprósentan hækkuð úr 0,145% í 0,376% mætti gera ráð fyrir að tekjur af skattinum árið 2023, að öllu óbreyttu, næmu 15,3 milljörðum kr. Þarna munar litlum 9,4 milljörðum kr.
    Í þjónkun sinni við banka bætir ríkisstjórnin gráu ofan á svart með því að kaupa hlut í snobbhöllinni sem Landsbanki Íslands er að byggja við Austurbakka, einungis hlut en ekki alla bygginguna, á heila sex milljarða kr. Það er víst í lagi því að við eigum ekki að leggja út fyrir fasteigninni heldur ganga arðgreiðslur sem ríkið átti að fá aftur til bankans í þessu formi. Ríkið styrkir því í raun banka um 15,4 milljarða kr. á einu bretti. Þeir sleppa við að greiða 9,4 milljarða kr. til samfélagsins og síðan á að kaupa af ríkisbankanum húsnæði sem hann hefði aldrei átt að byggja fyrir 6 milljarða kr.
    Í svari við fyrirspurn frá undirritaðri í júní á yfirstandandi ári sagði fjármálaráðherra að hann myndi ekki hækka eignarskerðingarmörk vaxtabóta vegna hækkandi fasteignamats. Þetta leiðir til þess að fólk sem var svo tekjulágt að það átti rétt á vaxtabótum á hann ekki lengur því að fasteignamat eigna þeirra hefur hækkað um tugi prósenta á einu ári. Hækkun á fasteignamati eykur ekki ráðstöfunarfé heimila. Staðan er sú að þetta fólk, sem vegna lágra tekna og hárra skulda horfir upp á meira en 100.000 kr. hækkun á afborgunum af húsnæðislánum og allar þær hækkanir sem fylgja 9,4% verðbólgu, svo að ekki sé minnst á hærri fasteignaskatta og krónutöluhækkanir ríkisstjórnarinnar, án þess að tekjur þeirra hafi aukist, á ekki lengur rétt á vaxtabótum vegna þess að tala á blaði hækkaði. 2. minni hluti stendur því heils hugar með breytingartillögu um 50% hækkun á eignarskerðingarmörkum vaxtabóta.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að fé verði tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstri hjúkrunarheimila. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er það útfært með því að leggja til framlengingu á ákvæði til bráðabirgða sem hefur áður verið framlengt níu sinnum. Í lögum um málefni aldraðra segir um Framkvæmdasjóð aldraðra: „Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala, að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði og til viðhalds húsnæðis dagdvalar-, dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.“
    Það fer þvert gegn upphaflegum tilgangi framkvæmdasjóðsins að nýta fjármuni hans í rekstur hjúkrunarheimila en ekki raunverulegar framkvæmdir, uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem sannarlega er skortur á. Vegna þess leggur 2. minni hluti til að umrædd heimild verði felld brott.
    Sjaldan hefur verið erfiðara en nú að komast inn á húsnæðismarkað. Meðal þess sem stendur í vegi fyrir því eru stimpilgjöld, en af meðalíbúð nema þau jafnan mörg hundruð þúsund krónum. Þetta er ekkert annað en skattur á þá lífsnauðsyn sem íbúðarhúsnæði er. 2. minni hluti leggur því til að stimpilgjöld af íbúðarhúsnæði sem aflað er til eigin nota verði afnumin. Það er til þess fallið að auka hreyfanleika á húsnæðismarkaði. Jafnframt myndi það lækka þröskuldinn fyrir ungt fólk sem er að reyna að komast inn á húsnæðismarkað og bæta samkeppnisstöðu þeirra sem eru að reyna að koma þaki yfir höfuðið gagnvart fjárfestum sem stunda fasteignakaup í öðrum tilgangi en til eigin nota.
    Annar minni hluti er algjörlega mótfallinn hækkun áfengisgjaldsins. Þetta er eitt af mörgum málum þar sem fjármálaráðuneyti horfir aðeins á tekjuhlið mála en gleymir öllum hliðaráhrifum. Benda má á að að hækkun áfengisgjalds í Fríhöfninni í Keflavík mun færa viðskipti á erlenda flugvelli þar sem engin íslensk vörumerki eru í boði. Fríhöfnin er mjög mikilvæg fyrir innlenda framleiðendur. Isavia varar eindregið við lækkun áfengisgjalds í umsögn sinni, ekki síst eftir tvö erfið ár, og bendir á að sala í Fríhöfninni þurfi ekki að dragast saman nema um 25% til þess að allir tapi, bæði Isavia og ríkissjóður.
    Fleira mætti telja. Óháð því hvað mönnum finnst um áfengi er hér um að ræða vaxandi iðngrein á Íslandi. Fulltrúar hennar sem komu fyrir nefndina færðu góð rök fyrir máli sínu og sannfærðu minni hlutann algjörlega um að þessi aðgerð væri ekki aðeins tímaskekkja, ekki síst eftir erfiðleikana sem heimsfaraldur olli víða í þessum geira, heldur ætti hún engan rétt á sér og ylli tekjutapi ríkissjóðs ef af yrði.
    Einnig er vert að nefna bifreiðagjöld sem ríkisstjórnin ætlar að hækka um 100% á milli ára úr 15.080 kr. í 30.160 kr. Þar sem þessari hækkun er ætlað að bæta tekjutap ríkisins vegna rafmagnsbíla og þar af leiðandi lægri bensíngjalda væri réttara að beina þessum hækkunum að eigendum þeirra eða lækka bensíngjöld á móti til að jafna þessar byrðar. Þeir sem það geta hafa sennilega flestir skipt í rafmagnsbíla. Þeir sem enn eru á bensínbílum eru þeir sem hafa ekki efni á bíl sem kostar fimm millj. kr. eða meira og hafa þannig ekki getað nýtt sér niðurfellingu vörugjalda eða neinar aðrar ívilnanir. Þetta fólk hefur þvert á móti tekið á sig allan kostnað við gatnakerfið og eldsneytishækkanir á meðan eigendur rafmagnsbíla hafa verið stikkfrí. Með fullri virðingu fyrir orkuskiptum og markmiðum okkar í loftslagsmálum, þá erum við að ræða hér um fólk í lægstu tekjutíundum. Er ekki kominn tími til að þau fái einhverjum álögum létt af sér sem umbun fyrir áralanga þolinmæði?
    Það er áhyggjuefni hversu brattar hækkanir ríkisstjórnarinnar eru í þessu frumvarpi. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru, en það er eins og enginn skilningur sé á því hjá ríkisstjórninni hversu erfið staðan er á heimilum sem eru undir meðaltekjum. Það má ekki gleymast að á þeim enda tekjustigans er fólk sem nú berst fyrir heimilum sínum. Undirrituð þekkir af eigin reynslu örvæntinguna sem fylgir yfirvofandi heimilismissi og finnur virkilega til með foreldrum í fjárhagserfiðleikum, sem nú reyna að setja upp gleðigrímu fyrir börnin sín um jólin. Það er því miður ekkert fyrir þetta fólk í þessu frumvarpi. Þvert á móti munu þessar hækkanir gera þeim erfiðara fyrir. Þær fara auk þess beint í vísitöluna. Á sama tíma segist ríkisstjórnin vera að berjast gegn verðbólgunni. Veruleikafirringin er algjör.
    Annar minni hluti mun styðja breytingartillögur stjórnarandstöðunnar sem miða að því að vernda almenning gegn áhrifum verðbólgunnar og leggur auk þess til breytingartillögur á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. desember 2022.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.