Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 842  —  461. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um raforkuöryggi og forgangsröðun raforku til orkuskipta.


     1.      Hvenær hyggst ráðherra setja reglugerð um viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á raforkulögum á vorþingi 2021 og starfshópur sem skipaður var af ráðherra um efnið í janúar sl. hefur fjallað um?
    Þann 9. júní sl. skilaði starfshópur um raforkuöryggi tillögum sínum til ráðherra. Starfshópurinn hafði það hlutverk að útfæra viðmið um fullnægjandi raforkuöryggi og framboð á raforku og leggja til skýrara hlutverk og ábyrgð aðila á raforkumarkaði. Tillögur starfshópsins hafa það að markmiði að tryggja að almenni hluti raforkumarkaðarins búi við tryggt raforkuframboð, þ.e. sá hluti sem telst ekki til stóriðjunotkunar.
    Frá því að starfshópurinn skilaði tillögum sínum hafa sérfræðingar ráðuneytisins unnið að nánari greiningu þeirra. Sú greining hefur leitt í ljós að drjúgur hluti af tillögum starfshópsins kallar á lagabreytingar.
    Hluti tillagnanna lýtur að söfnun og miðlun upplýsinga á vegum Orkustofnunar. Markmið með slíkri söfnun og miðlun er aukin virkni heildsölu- og smásölumarkaðar og að hægt sé að leggja mat á stöðu orkuöryggis. Slíkt stuðlar jafnframt að því að ákvarðanir og aðgerðir séu byggðar á upplýstum grunni. Einnig eru þannig tryggðar frekari forsendur fyrir áframhaldandi vinnu við úrbætur á regluverki. Gagnaöflun er nauðsynleg fyrir viðmið um orkuöryggi og þau inngrip sem Orkustofnun mun geta gripið til í neyð. Með auknu gagnsæi á heildsölumarkaði og smásölumarkaði eru jafnframt auknar líkur á virkari markaði. Upplýsingarnar þurfa að vera settar þannig fram að markaðsaðilar geti tekið upplýstar ákvarðanir og brugðist við í tæka tíð. Drög að reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga liggja fyrir og hefur ráðuneytið nýverið móttekið athugasemdir frá Orkustofnun við drögin. Reglugerðin er í vinnslu og kallar ekki á lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að reglugerðardrögin fari í samráðsgátt á næstu vikum.
    Frumvarp sem felur í sér nánari útfærslu á öðrum tillögum starfshóps um raforkuöryggi er á þingmálaskrá ríkisstjórnar í mars 2023. Gildandi lög mæla ekki með nægjanlega skýrum hætti fyrir um ábyrgð og hlutverk stjórnvalda þegar kemur að fullnægjandi framboði raforku. Þá skortir í lögin ákvæði um sérstaka vernd notenda, hver verndin skuli vera og hver skuli njóta hennar. Skilgreina þarf alþjónustu í frumvarpinu og hverjir skuli njóta hennar. Tilskipun 2009/72/EB, um innri markað raforku (raforkutilskipun), skilgreinir alþjónustu sem rétt til að fá afhenta raforku af ákveðnum gæðum á sanngjörnu verði sem er gegnsætt, auðveldlega samanburðarhæft og felur ekki í sér mismunun.
    Raforkulög, nr. 65/2003, byggjast almennt á því að eftirspurn og framboð raforku ráðist af markaðslögmálum og gera ekki ráð fyrir inngripum stjórnvalda á markaðnum nema um markaðsbrest eða neyð sé að ræða. Skilgreina þarf slíkar heimildir Orkustofnunar á borð við heimildir til að bjóða út aukna framleiðslugetu eða úrræði svo draga megi úr raforkunotkun ef fyrirséð er að framboð raforku verði ekki nægjanlegt. Mikilvægt er að slíkar heimildir og beiting þeirra byggi á viðmiðum um öryggismörk og séu í þágu skilgreindra alþjónustunotenda og í samræmi við raunverulega stöðu á raforkumarkaði. Til skoðunar er hvort treysta þurfi betur heimild í lögum til að setja þarfir almennings ofar öðrum notendum ef til framboðsskorts á raforku kemur.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra stuðla að því að framleiðslu raforku verði forgangsraðað í þágu orkuskipta?
    Orkuskipti eru eitt af fimm meginleiðarljósum orkustefnu sem miða að því að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir 2040 og að uppfylla markmið um kolefnishlutleysi sama ár. Stjórnvöld styðja við orkuskipti með margvíslegum stuðningsaðgerðum, svo sem með stuðningi Orkusjóðs við verkefni sem eru til þess fallin að hraða orkuskiptum og skattalegum hvötum. Þá er í vinnslu vetnisvegvísir þar sem dregin er upp framtíðarsýn til næstu ára um rafeldsneyti. Í vegvísinum verður fjallað um frekari stuðning við uppbyggingu fyrir orkuskipti og kortlagt hvernig rafeldsneyti getur hjálpað okkur að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Stuðningur við orkuskipti á öllum sviðum stuðlar jafnframt að framleiðslu raforku til orkuskipta, þar á meðal til framleiðslu rafeldsneytis.
    Ljóst er að orkuskipti kalla á aukna framleiðslu raforku og að mikil umframeftirspurn er eftir endurnýjanlegri orku hér á landi. Vísa má til skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum frá mars sl. þar sem fram kemur að sívaxandi eftirspurn er eftir endurnýjanlegri orku og ákall er um aukið raforkuframboð í öllum landshlutum, m.a. vegna orkuskipta. Samþykki Alþingis á þingsályktun um 3. áfanga rammaáætlunar, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, er liður í því að tryggja aukna raforkuframleiðslu til orkuskipta eftir 10 ára kyrrstöðu. Afgreiðsla rammaáætlunar leiðir af sér aukið orkuöryggi og tækifæri til að vinna áfram af krafti að orkuskiptunum auk þess sem áhættudreifing felst í fjölbreyttari orkukostum en vatnsafli og jarðvarma. En nú eru tveir vindorkukostir í nýtingarflokki, þ.e. Búrfellslundur og Blöndulundur.
    Mikilvægur áfangi hefur enn fremur náðst með breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun með lögum nr. 68/2022 þess efnis að stækkanir á virkjunum sem þegar eru í rekstri verði undanþegnar málsmeðferð rammaáætlunar svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér að óröskuðu svæði verði raskað. Þannig er hægt að auka orkuöflun og orkunýtni með lágmarksraski á umhverfi þegar gefið er tækifæri á að hraða aflaukningu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Þá segir að marka skuli stefnu um nýtingu vindorku á hafi. Að störfum er starfshópur sem hefur það hlutverk að gera tillögu að lagafrumvarpi um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Einnig er að störfum starfshópur sem hefur það hlutverk að kanna möguleika á nýtingu vindorku á hafi í lögsögu Íslands.
    Til að tryggja að loftslagsmarkmið og markmið um orkuskipti náist hefur ríkisstjórnin sett af stað nýja nálgun með samtali við atvinnulífið sem mun leiða til markvissari markmiða- og aðgerðasetningar. Þannig er leitast við að frumkvæði og eignarhald aðgerða verði nær þeim atvinnugeirum sem koma að samtalinu.