Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 854  —  584. mál.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um stöðu rannsókna í líf- og læknavísindum með áherslu á rannsóknir krabbameina.

Frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Daða Má Kristóferssyni, Guðbrandi Einarssyni, Sigmari Guðmundssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Helgu Völu Helgadóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Jakobi Frímanni Magnússyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu rannsókna í líf- og læknavísindum með sérstakri áherslu á rannsóknir á sviði krabbameina. Við vinnslu skýrslunnar verði leitað svara við spurningum á borð við:
          hvernig ráðgert er að sinna frumrannsóknum á krabbameinum á nýjum Landspítala í framhaldi af klínískum rannsóknum á sjúkrahúsinu,
          hvort fullnægjandi aðstaða hefur verið tryggð fyrir nýja dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á spítalanum,
          hvernig rannsóknum er sinnt utan sjúkrahúsa á opinberum rannsóknastofum og á hvaða rannsóknastofum,
          hvernig ráðherra sér fyrir sér að rannsóknum á sviði krabbameina verði sinnt í alþjóðlegu samstarfi.

Greinargerð.

    Mörg dæmi eru um að forvirkar aðgerðir og rannsóknir á sviði líf- og læknavísinda hafi með marktækum árangri dregið úr ótímabærum dauðsföllum vegna sjúkdóma. Með rannsóknum og forvarnaaðgerðum á sviði kransæðasjúkdóma hefur til að mynda tekist að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma um 80% á síðastliðnum 50 árum. Að sama skapi hefur tekist að draga úr ótímabærum dauðsföllum kvenna með skipulegri leit að frumubreytingum í legi og brjóstum. Þess er að vænta að skipuleg leit að frumubreytingum í ristli muni einnig leiða til bættra lífslíka. Skýrslubeiðendur telja að sjálfstæðar rannsóknir á sviði krabbameina séu órjúfanlegur hluti af þeirri grundvallarþjónustu sem veitt er í heilbrigðiskerfinu. Af þeim sökum er skýrslubeiðni þessi lögð fram.