Ferill 572. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 856  —  572. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (hringrásarhagkerfi, umbúðatafla, reiknireglur, viðaukar).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörð Davíð Harðarson og Guðna Ólafsson frá Skattinum, Magnús Jóhannesson og Ólaf Kjartansson frá Úrvinnslusjóði og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Við umfjöllun nefndarinnar um 2. mál, um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023, fékk nefndin á sinn fund Trausta Ágúst Hermannsson og Guðmund B. Ingvarsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti til þess að fjalla um XVIII. kafla þess frumvarps og kynna efnisatriði þess frumvarps sem hér um ræðir.
    Umsögn barst frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, vegna gildistöku laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald, nr. 103/2021, sem öðlast gildi 1. janúar 2023. Málið tengist einnig breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál). Grunnforsenda innheimtu úrvinnslugjalds samkvæmt lögum nr. 103/2021 er að viðaukar við lög um úrvinnslugjald verði uppfærðir og tilteknar breytingar gerðar á einstökum ákvæðum laganna. Í frumvarpinu eru nauðsynlegar breytingar lagðar til á ákvæðum laga um úrvinnslugjald og viðaukum þeirra.

Umfjöllun nefndarinnar.
Samspil við aðrar breytingar á lögum um úrvinnslugjald.
    Í XVIII. kafla frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál) eru lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Um er að ræða breytingar á viðaukum við lögin, m.a. um hækkun á úrvinnslugjaldi á vörur í tilteknum tollflokkum. Í frumvarpi þessu eru lagðar til aðrar breytingar, m.a. til að tryggja samræmda hugtakanotkun, sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja virkni úrvinnslugjaldsins og framlengdrar framleiðendaábyrgðar. Samkvæmt greinargerð er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi ekki áhrif á almenning, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu umfram það sem leiðir af gildistöku laga nr. 103/2021 og frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023.
    Meiri hlutinn telur ástæðu til að benda á að í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 eru breytingar á viðaukum við lög um úrvinnslugjald sem eru í því frumvarpi sem hér um ræðir teknir upp í heild sinni. Sú staða er til komin þar sem nauðsynlegt þótti að kveðið yrði á um nauðsynlegar breytingar á gjöldum og hækkanir á þeim í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023, þótt endanleg útfærsla viðaukanna komi fram í því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Frestun á gildistöku 1. og 19. gr. frumvarpsins.
    Í 19. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á viðauka XVIII um álagningarstofn úrvinnslugjalds skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að sérstök vandkvæði væru bundin við innleiðingu ákvæðisins í tölvukerfi innflytjenda. Tíminn fram að gildistöku frumvarpsins væri ekki nægur til þess að hugbúnaðarhúsunum yrði kleift að ljúka þeirri vinnu. Að óbreyttu skapist því hætta á að tregðu gæti í innflutningi fyrstu mánuði ársins. Til þess að tryggja hugbúnaðarhúsunum og Skattinum svigrúm til nauðsynlegra aðlagana á tölvukerfum og prófana leggur meiri hlutinn til að gildistöku 19. gr. frumvarpsins verði frestað um tvo mánuði, eða til 1. mars 2023.
    Í 1. gr. frumvarpsins er að finna ný tollskrárnúmer vegna gler-, málm- og viðarumbúða. Samhliða frestun á gildistöku 19. gr. er rétt að fresta gildistöku þess ákvæðis einnig. Breytingin hefur ekki áhrif á álagningu úrvinnslugjalds vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða, sem fer samkvæmt gildandi 6. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald. Haft var samráð við ráðuneytið, Skattinn, Úrvinnslusjóð og Samtök verslunar og þjónustu við gerð breytingartillögunnar.
    Meiri hlutinn bendir á að nauðsynlegt er að gerð verði breyting á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál), þannig að gildistöku a-liðar 28. gr. þess, þar sem kveðið er á um gjaldskyldu vegna gler-, málm- og viðarumbúða, verði frestað til 1. mars 2023, til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í máli þessu.
Að síðustu eru lagðar til tvær breytingar tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif. Annars vegar er lögð til leiðrétting á inngangsmálslið 19. gr. þar sem vísað er til 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. a en rétt vísun er 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. a. Hins vegar er lögð til leiðrétting á inngangsmálslið 12. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að við lögin bætist nýr viðauki, XIA. Með frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 (2. mál) er lagt til að viðauki sama efnis verði stofnaður. Þar sem gert er ráð fyrir því að það frumvarp verði að lögum á undan frumvarpi þessu er lögð til orðalagsbreyting á inngangsmálsliðnum.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Inngangsmálsliður 12. gr. orðist svo: Viðauki XIA við lögin orðast svo.
     2.      Í stað „2. mgr.“ í fyrirsögn töflu í 19. gr. komi: 4. mgr.
     3.      Við 21. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skulu 1. og 19. gr. öðlast gildi 1. mars 2023.

    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 15. desember 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Guðbrandur Einarsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Orri Páll Jóhannsson.