Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 867  —  464. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Högna Elfari Gylfasyni um vinnu starfshóps um greiningu á útflutnings- og innflutningstölum.


     1.      Hverjir eiga sæti í starfshópi sem ráðherra skipaði í febrúar 2021 til að greina misræmi milli magns í útflutningstölum úr viðskiptagagnagrunni Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í sömu tollflokkum, sbr. kafla 4.2.1 í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá febrúar sl. um tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða?
    Auður Ólína Svavarsdóttir hjá Hagstofu Íslands, Bryndís Eiríksdóttir hjá matvælaráðuneytinu, Óttar Snædal Þorsteinsson hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Steinþór Þorsteinsson hjá Skattinum.

     2.      Hve marga fundi hefur starfshópurinn haldið og hvenær fundaði hann síðast?
    Starfshópurinn hefur fundað 18 sinnum en síðasti fundur hópsins var haldinn 6.12.2022. Fjöldi funda gefur þó ekki fulla mynd af vinnu hópsins sem fer að stærstum hluta fram gegnum tölvupóstsamskipti og á miðlægu vinnusvæði hópsins.

     3.      Færir starfshópurinn fundargerðir sem verða gerðar aðgengilegar?
    Nei, starfshópurinn hefur ekki fært sameiginlegar fundargerðir.

     4.      Hefur starfshópurinn fundið haldbærar skýringar á því misræmi að árið 2021 voru flutt út frá ESB til Íslands (samkvæmt tölum Eurostat) 1.014 tonn af unnum kjötvörum (tollflokkur 1602) en inn til Íslands komu 462 tonn samkvæmt Hagstofu Íslands og á sama tíma voru flutt út frá ESB 202 tonn af mjólkur- og undanrennudufti til Íslands en samkvæmt skýrslum Hagstofu Íslands nam innflutningur 31 tonni?
    Vinna starfshópsins snýr að því að leita skýringa á misræmi milli magns í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins (Eurostat) og innflutningstölum Hagstofu Íslands, á ákveðnum tegundum landbúnaðarvara og á þeim grunni að gera tillögur að úrbótum. Dæmið sem tiltekið er í spurningunni er þar af leiðandi eitt af því hefur verið til skoðunar í vinnu hópsins en finna má fleiri dæmi um misræmi í gögnunum. Fjölmargar skýringar geta legið að baki slíku misræmi og hefur starfshópurinn haft til skoðunar íslensk tollagögn en einnig leitað samstarfs við erlend tollayfirvöld til að greina gæði erlendu gagnanna. Er sú vinna enn í gangi og verður gerð grein fyrir niðurstöðum hennar í skýrslu starfshópsins.

     5.      Hvenær mun starfshópurinn ljúka störfum?
    Stefnt er að því að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 31. janúar 2023.

     6.      Hefur ráðuneytið nú þegar ráðist í úrbætur varðandi tollframkvæmd, sbr. ábendingar í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar, og hverjar eru þær þá helstar?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið er í stöðugum og góðum samskiptum við Skattinn varðandi áherslur og eftir atvikum úrbætur í starfsemi stofnunarinnar. Skýrsla Ríkisendurskoðunar var gott innlegg í þá vinnu og var ráðuneytið bæði til umsagnar og svara við gerð skýrslunnar. Skýrslan hefur í framhaldi nýst ráðuneytinu og Skattinum í þeirri vinnu. Meðal úrbóta sem lagðar voru til í skýrslunni var að auka gæði gagna um viðskipti yfir landamæri en ráðuneytið vinnur að því í samstarfi við Skattinn að uppfæra tölvukerfi stofnunarinnar. Er það til þess fallið að bæta gæði gagna við tolleftirlit. Samhliða vinnslu skýrslu Ríkisendurskoðunar vann ráðuneytið að reglubundinni breytingu á tollskrá sem á sér stað á fimm ára fresti samkvæmt samþykkt Alþjóðatollastofnunarinnar á hinni samræmdu alþjóðlegu tollskrá. Breytingin er gerð til að laga tollskrána að breyttum aðstæðum í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og vegna breyttra áherslna við eftirlit og upplýsingaöflun. Að mati ráðuneytisins leiðir breytingin á tollskránni til þess að samræming í tollframkvæmd verði betri en ella.