Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 869  —  467. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Högna Elfari Gylfasyni um samstarf við utanríkisráðuneytið í tengslum við endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og Evrópusambandsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er samstarf milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna misræmis á útflutningstölum ESB og Íslands og þá einkum í tengslum við samningaviðræður Íslands og ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB sem nú standa yfir?

    Varðandi misræmi á útflutningstölum ESB og Íslands er rétt að geta þess að í september 2020 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða hvort misræmi væri á magni í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins (ESB) annars vegar og innflutningstölum Hagstofu Íslands hins vegar á ákveðnum landbúnaðarvörum. Starfshópurinn skilaði minnisblaði til ráðherra í október 2020 og í framhaldinu skipaði ráðherra nýjan starfshóp í janúar 2021 til að gera nánari greiningu á misræmi í útflutningstölum ESB og innflutningstölum Hagstofu Íslands. Starfshópurinn tók til starfa í febrúar 2021 og er enn starfandi. Fulltrúi frá utanríkisráðuneytinu á ekki sæti í þeim hópi og hefur utanríkisráðuneytið ekki aðkomu að þeirri vinnu. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu í febrúar 2022 eftir að Alþingi hafði farið þess á leit við stofnunina að gerð yrði úttekt á starfsemi Skattsins við tollflokkun og eftirlit með tollskýrslum og innflutningstölum að því er snertir gögn frá útflutningslandi og skráningu tollskrárnúmera.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki aðkomu að gerð fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga sem eru á forræði utanríkisráðherra en almennt eru samningaviðræður unnar í nánu samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti. Fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið eru í samráði vegna skuldbindinga fyrir iðnaðarvörur en utanríkisráðuneytið og matvælaráðuneytið eru í samráði vegna landbúnaðarvara. Í tilfelli endurskoðunar landbúnaðarsamnings Íslands og ESB, sem fjallar eingöngu um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur, á sér ekki stað sérstakt samráð milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins en tekið skal fram að gott samráð og samstarf er milli ráðuneytanna á ýmsum sviðum.