Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 871  —  483. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um virðismat starfa.


     1.      Hverja af tillögum starfshóps forsætisráðherra um endurmat og virði kvennastarfa hyggst ráðherra setja í forgang við undirbúning kjarasamninga?
    Starfshópur forsætisráðherra lagði til að stofnaður yrði aðgerðahópur skipaður fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Hópnum var falið að greina vandann, koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa og þróa verkfæri sem fangi jafnvirðisnálgun jafnréttislaga og styðji við þau verkfæri sem þegar eru til staðar.
    Aðgerðahópurinn skipaði sérstakan framkvæmdahóp um þróun virðismatskerfis starfa og er honum ætlað að skila af sér tillögum í septemberlok 2023. Hópurinn hefur þegar hafið störf og eru fjórar stofnanir þátttakendur í því verkefni: Ríkislögreglustjóri, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Tryggingastofnun.
    Hér er um að ræða þróunarverkefni til að afla þekkingar og reynslu af slíku virðismati og samningaleið á vinnumarkaði sem gert er ráð fyrir að taki nokkurn tíma að útfæra og skipa í forgangsröð.

     2.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér hlutverk aðgerðahóps um endurmat og virði kvennastarfa við gerð kjarasamninga innan fjármála- og efnahagsráðuneytis?
    Eins og fyrr segir er aðgerðahópur samansettur af aðilum vinnumarkaðarins og er ekki ætlað sérstakt hlutverk við gerð kjarasamninga. Framkvæmdahópur um þróun virðismatskerfis á ekki að skila af sér fyrr en í septemberlok 2023. Því er ótímabært að ætla að niðurstöður úr þeirri vinnu gagnist við gerð kjarasamninga fjármála- og efnahagsráðuneytisins og viðsemjenda þess í næstu samningalotu. Á hinn bóginn er þetta verkefni meðal þeirra mála sem samninganefnd ríkisins er ætlað og mun taka til umræðu við heildarsamtök opinberra starfsmanna í aðdraganda kjarasamningagerðar.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur ætíð áherslu á að nálgast öll verkefni, þ.m.t. kjarasamninga ríkisstarfsmanna, með jafnrétti að leiðarljósi. Hefur ráðuneytið innleitt kynjaða áætlunar- og fjárlagagerð og nánast allar ríkisstofnanir hafa fengið jafnlaunavottun. Í framkvæmdahóp þeim sem um ræðir sitja fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra fjórir sérfræðingar ráðuneytisins í mannauðs- og jafnlaunamálum og er það til marks um þá miklu áherslu sem málið fær innan ráðuneytisins.