Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 872  —  411. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um útboðsskyldu.


     1.      Hversu margir þjónustusamningar eru í gildi hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum sem eru yfir viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu í virði en hafa ekki verið boðnir út samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016? Svar óskast sundurliðað eftir fyrirtækjum, stofnunum og samningum.
    Stofnanir bera sjálfar ábyrgð á innkaupum sínum og halda utan um eigin samninga. Ekki er sérstaklega kveðið á um það í lögum að ráðuneytið haldi skrá um slíka samninga sem stofnanir gera. Samkvæmt 102. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, skulu ráðuneyti og stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skipa sérstakan starfsmann (eða annan aðila) sem skal vera ábyrgðarmaður innkaupa. Honum ber að fylgjast með að innkaup viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis séu í samræmi við gildandi lög og reglur um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins. Ríkiskaup halda utan um skráningu ábyrgðarmanna og fræðslu þeirra.
    Vefsíðunni opnirreikningar.is er viðhaldið til að auka gagnsæi á greidda reikninga og auðvelda aðilum að beina fyrirspurnum á viðeigandi stofnanir. Hægt er að kæra innkaup sem hafa ekki farið í útboðsferil til kærunefndar útboðsmála.
    Ráðuneytið telur tækifæri í því að auka enn meira gagnsæi til að auka skýrleika á því hvaða innkaup hafi verið boðin út eða eigi að vera boðin út vegna eldri samninga. Því hefur verið lögð áhersla á gagnsæi í stefnumótun opinberra innkaupa.
    Í stefnu ríkisins um sjálfbær innkaup sem samþykkt var veturinn 2021 voru sett fram markmið og áherslur varðandi innkaup ríkisins. Megináherslur stefnunnar eru sjálfbær, hagkvæm, nýskapandi og gagnsæ innkaup. Á sama tíma var samþykkt aðgerðaáætlun sjálfbærra innkaupa fyrir 2021–2024. Aðgerðaáætlun í heild sinni og staða allra aðgerða er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Nokkrar af þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í varða aukinn sýnileika á gerða samninga og greidda reikninga.
    Helstu aðgerðir á þessu sviði eru:
     *      Þarfagreining á samningakerfi fyrir samninga ríkisins (2022-2023).
               *      Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur valkostagreiningu á skráningu á skuldbindandi samningum ríkisins og greiðslum samkvæmt þeim í samráði við Fjársýslu og Ríkisendurskoðun.
     *      Samningakerfi ríkisins verður innleitt fyrir A-hluta (2023-2024).
               *      Samningar skráðir samkvæmt besta valkosti. Ábyrgðaraðilar innkaupa geti fylgst með framvindu samninga og skráningu frávika.
     *      Yfirsýn og greiningar á greiðslur á samninga auknar (2023-2024).
               *      Fjárhagskerfi tengi saman beiðnir, pantanir og reikninga á gilda samninga til að auðvelda greiningar og eftirlit og til að auka skilvirkni í samþykktarmeðferð innsendra reikninga.
    Ráðuneytið undirbýr núna kerfisbundna greiningu á framkvæmd ríkisaðila á lögum um opinber innkaup og innkaupastefnu með það að markmiði að grípa inn í þar sem framkvæmd þeirra þarfnast úrbóta. Hefur í því skyni verið samið við Ríkiskaup um undirbúningsvinnu við gagnagreiningar og hefur sú vinna þegar hafist.
    Ráðuneytið býr þar af leiðandi ekki yfir miðlægri skrá vegna allra samninga að svo stöddu. Þegar innleiðingu á nýja samningakerfinu verður lokið ætti að verða hægt að veita nánari upplýsingar. Ekki er þó gert ráð fyrir að umrætt kerfi muni ná til opinberra fyrirtækja.
    Að auki er bent á að í 40. gr. laga um opinber fjármál er fjallað nánar um heimildir ríkisaðila til gerðar samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni. Þar er tiltekin hámarkstímalengd og hlutfall af árlegri fjárveitingu. Fyrir þá samninga þar sem samningar eru lengri eða fara yfir 15% af árlegri fjárveitingu þarf heimild viðkomandi ráðherra og fjármálaráðherra. Listi yfir slíka rekstrar- og þjónustusamninga er birtur árlega í fylgiriti fjárlaga, yfirliti 6. Í samþykktarferli er farið yfir reglur um útboðsskyldu í hverju tilfelli fyrir sig. Til viðbótar er í yfirliti 6 sérstakt yfirlit yfir styrktar- og samstarfssamninga.

     2.      Hefur verið skoðað að veita þjónustufyrirtækjum einhver úrræði til að koma ábendingum á framfæri til stjórnsýslunnar þegar opinber fyrirtæki og stofnanir standa ekki við útboðsskyldu sína?
    Stofnunum ber að svara fyrirspurnum þjónustufyrirtækja um greiðslur og samninga og ábyrgðarmanni innkaupa hjá hverri stofnun ber að tryggja að innkaupin séu í samræmi við lög.
    Ábendingar eiga að berast fyrst til ábyrgðaraðila viðkomandi innkaupa. Sé ekki brugðist við þeim ábendingum er mögulegt að kæra til kærunefndar útboðsmála, eða senda fyrirspurn á fjármála- og efnahagsráðuneytið.
    Eins og áður segir er vefsíðunni opinirreikningar.is ætlað að auka sýnileika á greidda reikninga samhliða því að aðgerðaáætlun innkaupastefnu er ætlað að stuðla að auknu gagnsæi. Í kjölfar niðurstöðu kærunefndar nýverið gegn embætti landlæknis og ákvörðunar embættisins um að stefna fyrirtækinu sem kærði vegna úrskurðarins hefur enn fremur verið ákveðið að ráðast í endurskoðun á ákvæðum laganna varðandi úrræði og kæruferli. Verði talið tilefni til að ráðast í breytingar verður það tilkynnt á þingmálaskrá með viðeigandi hætti.