Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 874  —  262. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum.


     1.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið á grundvelli reglugerðar um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, nr. 466/2021? Svar óskast sundurliðað eftir árum, eftir því hvort um frystingu fjármuna skv. 4. gr. eða landgöngubann skv. 9. gr. hafi verið að ræða og eftir lyktum mála.
    Reglugerð nr. 466/2021 er sett með stoð í lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008. Tilgangur laganna er að mæla fyrir um framkvæmd þvingunaraðgerða sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á grundvelli 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, af alþjóðastofnunum eða af ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.
    Með reglugerðinni eru ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2020/1999 frá 7. desember 2020 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum og reglugerð ráðsins (ESB) 2020/1998 frá 7. desember 2020 um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum innleiddar. Breytingar og uppfærslur lista yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða í viðaukum við reglugerðina öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins í samræmi við heimild skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 93/2008.
    Fyrstu nöfn á listum voru birt í mars 2021 og listinn var uppfærður síðar í sama mánuði. Listinn var uppfærður og bætt við hann með tveimur breytingarreglugerðum í desember 2021. Í öllum tilvikum er um að ræða frystingu fjármuna og landgöngubann.
    Með framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 2021/371 frá 2. mars 2021 voru fjórir einstaklingar settir á lista vegna mannréttindabrota í Rússlandi tengdra handtöku Alexei Navalny.
    Með framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 2021/478 frá 22. mars 2021 var ellefu einstaklingum og fjórum lögaðilum bætt á lista vegna alvarlegra mannréttindabrota í mismunandi heimshlutum, nánar tiltekið í Kína, Norður-Kóreu, Líbíu, Erítreu, Suður-Súdan og Rússlandi.
    Með framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 2021/2151 frá 6. desember 2021 var einn einstaklingur fjarlægður af lista í kjölfar andláts hans og skráning sjö einstaklinga uppfærð.
    Með framkvæmdareglugerð (ESB) 2021/2195 frá 13. desember 2021 var þremur einstaklingum og þremur lögaðilum bætt á lista vegna alvarlegra mannréttindabrota sem framin hafa verið af Wagner-hópnum í mismunandi heimshlutum.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að ganga úr skugga um að einstaklingar, lögaðilar eða önnur viðföng þvingunaraðgerða skv. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 466/2021 hafi sætt viðeigandi aðgerðum, þ.e. frystingu fjármuna annars vegar og landgöngubanni hins vegar?
    Tilkynningarskyldum aðilum sem falla undir 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, er skylt að hafa viðeigandi eftirlit, eða eftir atvikum ferla og aðferðir, til að meta hvort viðskiptamenn séu á listum yfir alþjóðlegar þvingunaraðgerðir. Fjármálaeftirlit Seðlabankans, og eftir atvikum Skatturinn, hafa eftirlit með því að tilkynningarskyldir aðilar fari eftir ákvæðum 4. og 7. gr. laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, nr. 64/2019.
    Landgöngubanni er fyrst og fremst fylgt eftir með umfangsmiklu alþjóðasamstarfi er varðar málefni landamæra og ber þar helst að nefna Schengen-samstarfið. Um landamæraeftirlit er fjallað í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og í reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði fyrir komu útlendinga sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar til Schengen m.a. þau að viðkomandi séu ekki skráð í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina þeim komu til landsins né séu þau talin ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis. Tekið skal fram að landamæravarsla fellur undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.

     3.      Hyggst ráðherra beita ákvæðum reglugerðarinnar til að bregðast við alvarlegum mannréttindabrotum á heimsvísu?
    Utanríkisráðherra leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og er þátttaka Íslands í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum á grundvelli laga nr. 93/2008 liður í því. Reglugerð um þvingunaraðgerðir gegn alvarlegum mannréttindabrotum, nr. 466/2021, er sett til að framfylgja ákvörðunum íslenskra stjórnvalda um að taka þátt í samevrópskum aðgerðum til að bregðast við alvarlegum mannréttindabrotum á heimsvísu.

     4.      Hvernig fer fram mat á því hvenær rétt sé að beita þvingunaraðgerðum vegna mannréttindabrota á heimsvísu?
    Markmið þvingunaraðgerða er að viðhalda friði og öryggi í heiminum og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákveður þvingunaraðgerðir með bindandi hætti og geta alþjóðastofnanir eða ríkjahópar einnig átt samstarf um slíkt.
    Markmið laga nr. 93/2008 er að veita stjórnvöldum á Íslandi heimild til þess að framkvæma þvingunaraðgerðir sem eru ákveðnar á alþjóðavettvangi. Íslensk stjórnvöld innleiða þvingunaraðgerðir ESB og öryggisráðsins, eða eftir atvikum annarra alþjóðastofnana, og eiga ekki beinan þátt í ákvörðun um hver skuli sæta slíkum aðgerðum. Virkt samráð á sér stað við ESB og nánustu samstarfsríki innan EES um alþjóðamál, m.a. þvingunaraðgerðir.