Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 875  —  168. mál.
Leiðréttur texti.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um orkuskipti farartækja opinberra stofnana og fyrirtækja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra sett fram markmið um orkuskipti farartækja í eigu eða notkun af hálfu opinberra stofnana og fyrirtækja? Ef ekki, hyggst ráðuneyti hans setja fram tímasett markmið fyrir opinberar stofnanir hvað varðar orkuskipti farartækja?

    Stjórnarráðið hefur sett sér loftslagsstefnu sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og ná kolefnishlutleysi. Loftslagsstefnan á að vera fyrirmynd fyrir aðrar ríkisstofnanir og fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda með beinum aðgerðum en á einnig að hafa áhrif á starf stofnana og breyta viðhorfi og hegðun starfsmanna. Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun þar sem m.a. eru sett markmið um að draga úr losun vegna aksturs og að bílafloti stjórnarráðsins gangi ekki fyrir jarðefnaeldsneyti. Einnig kemur fram í Orkustefnu til ársins 2050, Sjálfbær orkuframtíð, sem lögð var fram á Alþingi 2021, að opinber fyrirtæki og stofnanir skuli vinna að orkuskiptum og framfylgja markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland.
    Aðgerð A.10 í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum felur í sér að ríkisaðilar eru skyldaðir til að kaupa vistvænar bifreiðar við endurnýjun bílaflota síns með það að markmiði að allar bifreiðar ríkisins verði vistvænar nema öryggis- eða notkunarkröfur krefjist annars. Frá árinu 2020 hefur meginreglan verið sú að ríkisaðilar kaupa ekki nýja bensín- og dísilbíla. Ríkiskaup og svokölluð bílanefnd bera ábyrgð á nýju verklagi og þeim stofnunum sem stefna að því að kaupa bifreið er skylt að taka þátt í sameiginlegum útboðum þar sem útboðslýsingar tryggja að keyptar verði vistvænar og hagkvæmar bifreiðar. Þetta geta verið bifreiðar knúnar rafmagni, vetni, metani eða öðrum orkugjöfum. Aðgerðin snýst um að umbreyta flotanum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en einnig varða veginn fyrir nýskráningarbann bensín- og dísilbíla hér á landi árið 2030 og ná fram ruðningsáhrifum út í samfélagið.
    Áhersla er einnig lögð á að ríkisaðilar verði leiðandi vinnustaðir varðandi hleðslumöguleika fyrir rafbíla. Rafhleðslustöðvar eru nú t.d. við öll ráðuneyti og hleðslumöguleikum þar hefur markvisst verið fjölgað. Verkefnið Græn skref, sem ríkisaðilar taka þátt í, hvetur m.a. til uppbyggingar á hleðslustöðvum við stofnanir.
    Hvað varðar áhrif á losun er áætlað að með aðgerðinni muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um tæplega 900 tonn af co2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd. Gera má ráð fyrir að aðgerðin hafi í för með sér ruðningsáhrif, þ.e. að fleiri fylgi í kjölfarið með tilheyrandi samdrætti í losun. Aðgerð þessi er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytis.