Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 906  —  424. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd.


     1.      Hve margir fatlaðir einstaklingar hafa sótt um alþjóðlega vernd á undanförnum fimm árum? Sundurliðun óskast eftir ári umsóknar og því hvort mál hafi flokkast sem forgangsmál, Dyflinnarmál, verndarmál eða efnismeðferðarmál, sem og hvort umsókn var samþykkt eða synjað.
    Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála taka ekki saman sérstaka tölfræði um þá einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi miðað við fötlun eða veikindi þeirra. Af þeim sökum er ekki mögulegt að setja fram yfirlit um umbeðnar upplýsingar.

     2.      Í hversu mörgum tilfellum tók Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála fötlun umsækjenda ekki trúanlega? Í hversu mörgum tilvikum var ekki tekið tillit til fötlunar umsækjenda? Hvernig fór það mat fram?
    Starfsfólk Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála leggur ekki mat á það hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé með fötlun eða ekki. Slíkt mat er í höndum sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og eru niðurstöður þeirra ekki dregnar í efa. Hlutverk Útlendingastofnunar og kærunefndar er að leggja mat á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Liggi fyrir upplýsingar frá sérfræðingum í heilbrigðiskerfinu þess efnis að umsækjandi sé með fötlun eða önnur líkamleg eða andleg veikindi taka Útlendingastofnun og kærunefnd ávallt tillit til þess við mat á umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd, en slíkt mat Útlendingastofnunar og kærunefndar fer fram á einstaklingsgrundvelli í hverju og einu máli. Fullt tillit er tekið til þeirra gagna sem liggja fyrir um fötlun eða veikindi einstaklings og þjónustuþörf hans og þau lögð til grundvallar. Kannað er hvort í heimaríki eða viðtökuríki sé sú þjónusta til staðar sem einstaklingur þarfnast. Þá er horft til félagslegra aðstæðna, þ.e. hvernig aðstæður fatlaðs fólks eru í ríkinu og hver staða viðkomandi muni verða fari hann þangað aftur. Matið fer ávallt fram í samræmi við ákvæði laga um útlendinga, nr. 80/2016, flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, svo sem samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

     3.      Hve margir fatlaðir einstaklingar hafa fengið mál sitt tekið til efnismeðferðar á grundvelli „sérstakra ástæðna“ vegna fötlunar sinnar skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, á undanförnum fimm árum?
    Vísað er til svars við 1. tölul.

     4.      Hefur starfsfólk Útlendingastofnunar sem metur hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, hlotið sérstaka þjálfun eða menntun til að leggja mat á fötlun umsækjenda? Hefur það starfsfólk nauðsynlega sérstaka þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks og á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þannig að meðferð mála fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd og fatlaðs flóttafólks samræmist örugglega skyldum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum? Hefur verið haft samráð við Þroskahjálp, sérfræðilækna eða aðra þar til bæra aðila við mat á fötlun umsækjenda um alþjóðlega vernd?
    Ákvörðun um það hver telst vera í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga, lýtur að því hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við umsækjanda í gegnum umsóknarferlið, t.d. þörf á tiltekinni heilbrigðisþjónustu. Mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu er þannig að meginstefnu tengt þjónustuþörf. Við úrvinnslu umsókna um alþjóðlega vernd fer aftur á móti fram mat á einstaklingsbundnum aðstæðum viðkomandi. Ráðuneytið leggur þannig áherslu á að hér er um mismunandi möt og ákvarðanir að ræða þó að þessi hugtök skarist að einhverju leyti.
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. leggur starfsfólk Útlendingastofnunar, sem sér um vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd, ekki mat á það hvort umsækjandi sé með fötlun eða ekki. Það mat er í höndum sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Starfsfólk stofnunarinnar hefur hins vegar sérþekkingu á flóttamannarétti og á því að leggja mat á það hvort aðstæður og þjónusta í þeim ríkjum sem til skoðunar eru samræmist lögum um útlendinga, flóttamannasamningnum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, svo sem samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Útlendingastofnun hefur sent starfsfólk sitt á námskeið hjá Hælisstofnun Evrópusambandsins (e. European Union Agency for Asylum, EUAA, áður EASO) frá árinu 2009. Námskeið EUAA eru fjölbreytt og stuðla að samræmdri nálgun í Evrópu hvað varðar móttöku og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Námskeið EUAA ganga m.a. út á að þjálfa þá sem þau sækja með þeim hætti að viðkomandi geti kennt öðru starfsfólki. Nefnist það „að þjálfa þjálfarann“ (e. train the trainer). Starfsfólk stofnunarinnar hefur m.a. sótt námskeið um viðtalstækni við viðkvæma einstaklinga, börn og fullorðna, um mansal, trúverðugleikamat, veitingu verndar, beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar og kyn, og um kynhneigð og kynvitund. Í námskeiði um viðkvæma umsækjendur var kastljósi m.a. beint að einstaklingum sem eru með fötlun eða þroskaskerðingu. Þá hefur Útlendingastofnun ítrekað leitað eftir samvinnu við fagaðila þegar svo ber undir. Má þar t.d. nefna samráð við og upplýsingaleit hjá Geðhjálp, Þroskahjálp, Barnahúsi og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
    Verklag stofnunarinnar við afgreiðslu umsókna frá umsækjendum með fötlun miðast við að málsmeðferð mæti þörfum og getu umsækjenda til að tjá sig um aðstæður sínar sem er forsenda ákvörðunar í málum þeirra. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fluttist frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar 1. júlí 2022 og er það því hlutverk Vinnumálastofnunar, í samvinnu við þau sveitarfélög þar sem umsækjendur dvelja, að meta þjónustuþörf þeirra.

     5.      Í þeim tilvikum þegar umsókn fatlaðs einstaklings var hafnað undanfarin fimm ár, fór þá fram fullnægjandi rannsókn af starfsfólki Útlendingastofnunar með sérþekkingu á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á aðstæðum í viðtökuríki með tilliti til ákvæða samningsins?
    Hluti af rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar er að framkvæma ítarlegt mat í hverju máli á aðstæðum fatlaðra einstaklinga í heimaríki þeirra eða eftir atvikum viðtökuríki. Útlendingastofnun framkvæmir ítarlega rannsókn á þeim úrræðum sem í boði eru og geta talist nauðsynleg fyrir umsækjanda í heima- eða viðtökuríki. Við það mat er tekið mið af nýjustu upplýsingum sem völ er á hverju sinni og hvernig þær samræmast þjónustuþörf umsækjanda. Í þeim málum sem sæta kæru til kærunefndar útlendingamála er mat Útlendingastofnunar endurskoðað, þar á meðal hvort stofnunin hafi rannsakað einstaklingsbundnar aðstæður umsækjanda og aðstæður í heima- eða viðtökuríki með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eftir atvikum getur komið til kasta dómstóla að meta hvort málsmeðferð stjórnvalda hafi verið í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.