Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 908  —  470. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um landslagsgreiningu, flokkun landbúnaðarlands og sjálfbæra matvælaframleiðslu.


     1.      Er hafin vinna við landslagsgreiningu til framtíðar með tilliti til sjálfbærrar matvælaframleiðslu og ræktunar? Ef svo er, hver er staða þeirrar vinnu?
    Í Skipulagsstofnun hefur verið unnið að kortlagningu meginlandslagsgerða á Íslandi. Tilgangur kortlagningarinnar er að leggja til grunnupplýsingar um landslag á landsvísu sem líta ber til við skipulagsgerð og nánari framtíðarkortlagningu landslagsheilda.

     2.      Hver er stefna og framtíðarsýn stjórnvalda varðandi flokkun landbúnaðarlands, m.a. í tengslum við sjálfbæra matvælaframleiðslu?
    Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, eiga sveitarfélög að flokka landbúnaðarland með tilliti til ræktunarmöguleika þegar unnið er að gerð aðalskipulags í dreifbýli. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um flokkunina í samstarfi við Skipulagsstofnun og Landbúnaðarháskóla Íslands. Með leiðbeiningunum er stuðlað að samræmdri flokkun landbúnaðarlands á landinu öllu og ættu niðurstöður flokkunarinnar að nýtast sveitarfélögum sem forsendur fyrir skipulagsákvörðunum um landnotkun við gerð aðalskipulags.
    Stefna stjórnvalda varðandi nýtingu landbúnaðarlands birtist m.a. í fyrrgreindum jarðalögum og landsskipulagsstefnu 2015–2026. Markmið jarðalaga er m.a. að stuðla að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúruvernd, viðhaldi og þróun byggðar og um leið þjóðfélagslega gagnlegri og sjálfbærri landnýtingu. Tryggja skal svo sem kostur er að land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu sé varðveitt til slíkra nota og að fæðuöryggi sé tryggt til framtíðar. Eitt af markmiðum landsskipulagsstefnu 2015–2026 er sjálfbær nýting landbúnaðarlands og á skipulag landnotkunar þannig að stuðla að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið. Í aðgerðum og leiðum sem fylgja markmiðinu er mælt fyrir um flokkun landbúnaðarlands og að ráðstafa ekki landi sem hentar vel til ræktunar til annarra nota með óafturkræfum hætti.

     3.      Hvernig er það tryggt að landsvæði sem fýsilegt er til sjálfbærrar matvælaframleiðslu sé ekki ráðstafað til annarra nota sem þrengir að matvælaframleiðslu, svo sem skógræktar eða endurheimtar votlendis?
    Eins og áður hefur komið fram birtist stefna um ráðstöfun landbúnaðarlands m.a. í jarðalögum og landsskipulagsstefnu. Allt land er skipulagsskylt samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og eiga sveitarfélög að hafa í gildi aðalskipulag á hverjum tíma. Í aðalskipulagi er mörkuð stefna um hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðabyggð, frístundabyggð, verslun eða landbúnað. Sveitarfélög skulu taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim. Eins og kom fram á árlegri ráðstefnu Skipulagsstofnunar, skipulagsdeginum, sem haldin var 17. nóvember síðastliðinn, er þörf á frekari stefnumótun og leiðbeiningagerð um ráðstöfun landbúnaðarlands af hálfu stjórnvalda. Ráðherra hefur ákveðið að eitt af áherslumálum fyrir endurskoðun landsskipulagsstefnu 2015–2026 verði landnýting í dreifbýli þar sem lögð er áhersla á að setja fram stefnu um varðveislu lands sem hentar vel til ræktunar.