Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 909  —  426. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um félagslega stöðu barnungra mæðra.

     1.      Er regluverk um félagslegt stuðningskerfi mæðra yngri en 18 ára sambærilegt við það sem er í nágrannalöndum okkar? Ef ekki, kemur til álita af hálfu ráðherra að færa stuðningskerfið hér á landi því til samræmis?
    Samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga m.a. að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna og mæta þörfum þeirra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur. Með félagsþjónustu í lögunum er m.a. átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf í tengslum við málefni barna og ungmenna.
    Mæður yngri en 18 ára eiga rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns þær verða sjálfráða, sbr. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Að sama skapi á barn móður, sem er yngri en 18 ára, rétt á forsjá foreldra sinna.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig stuðningskerfin eru í nágrannalöndum okkar.

     2.      Fá mæður yngri en 18 ára einungis fæðingarstyrk? Eiga þær rétt á frekari fjárhagsstuðningi frá sveitarfélagi sínu? Hefur ríkið aðkomu að þessum fjárhagsstuðningi?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði er heimilt að greiða mæðrum yngri en 18 ára fæðingarstyrk en einnig er heimilt að greiða þeim fæðingarorlof ef þær uppfylla skilyrði fyrir slíkum greiðslum. Foreldrar fá annaðhvort fæðingarorlofsgreiðslur eða fæðingarstyrk úr Fæðingarorlofssjóði en það fer eftir stöðu þeirra á vinnumarkaði.
          Hafi umsækjandi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli samfellt síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns stofnast réttur til fæðingarorlofsgreiðslna.
          Fæðingarstyrkur er greiddur til foreldra í fullu námi, foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.
    Hvert sveitarfélag fyrir sig setur sér reglur um fjárhagsaðstoð. Í reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð kemur fram í 10. gr. að unglingar yngri en 18 ára eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð í eigin nafni. Þó kemur fram í leiðbeiningum með reglunum: „Ef ungmenni á aldrinum 16 eða 17 ára sækir um fjárhagsaðstoð og er með barn á framfæri sínu þurfa foreldrar/ forsjáraðilar að koma í viðtal og skrifa undir umsóknina ásamt umsækjanda. Starfsmenn skulu þá fyrst hafa samband við foreldra/forsjáraðila umsækjanda og tilkynna þeim um að ungmenni hafi leitað aðstoðar. Þá skulu starfsmenn gera umsækjanda grein fyrir því að framangreind leið verði farin. Kanna þarf fjárhagslega getu foreldra umsækjanda til að sjá fyrir umsækjanda og barni hans. Aðstoðin er skráð á foreldri/forsjáraðila umsækjanda en greidd inn á reikning umsækjanda.“

     3.      Fær móðirin sjálf þær stuðningsgreiðslur sem hún á rétt á með barninu eða renna þær til forráðamanna hennar?

    Mæður yngri en 18 ára fá sjálfar greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði uppfylli þær skilyrði þar um, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Foreldrar yngri en 16 ára fá ekki sjálfir úthlutað barnabótum heldur fá þeirra eigin framfærendur barnabætur. Þegar foreldrar barns hafa náð 16 ára aldri teljast þeir framfærendur barns síns og fá þá sjálfir úthlutað barnabótum eftir það.
    Ef fyrir liggur meðlagsákvörðun sem kveður á um meðlagsgreiðslur til móður yngri en 18 ára ber Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlagið til hennar ef hún óskar eftir að stofnunin annist milligöngu þess.