Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 910  —  320. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur um samninga við einkaaðila vegna reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila.


     1.      Hvert er umfang samninga hins opinbera vegna yfirtöku Heilsuverndar á rekstri Vífilsstaða, þar með talið leiguhúsnæðis?
    Þjónustukaup Sjúkratrygginga Íslands á rekstri Vífilsstaða fyrir árið 2023 eru 854,8 millj. kr. á verðlagi ársins 2022. Innifalin eru öll gjöld og annar kostnaður verksala vegna þjónustunnar, þ.m.t. rekstur húsnæðisins.
    Fyrst um sinn er stefnt að því að Vífilsstaðir muni áfram styðja við Landspítalann og þá miklu þörf sem er í þjóðfélaginu fyrir tímabundin úrræði meðan beðið er varanlegrar búsetu á hjúkrunarheimili. Til að byrja með verður því óbreyttur fjöldi svokallaðra biðrýma á Vífilsstöðum.

     2.      Hvert er áætlað leigugjald Heilsuverndar vegna Vífilsstaða, hver er eigandi húsnæðisins og hver fær húsaleiguna?
    Leigugjald er áætlað 115,4 millj. kr. á ári og er ekki innifalið í þjónustukaupum SÍ. Ríkið er eigandi húsnæðisins og fær greidda leiguna.

     3.      Hvernig er rekstrarsamningum við dvalar- og hjúkrunarheimili almennt háttað með tilliti til leigu á húsnæði?
    Almennt fær ekkert hjúkrunarheimili greidda húsaleigu, sbr. 32. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, þar sem fram kemur að eignarhlutur ríkis og sveitarfélags skal vera í samræmi við kostnaðarhlutdeild (85% ríkið og 15% sveitarfélag) og skal hvorugur aðili eiga kröfu á hinn um leigu vegna eignar eða eignarhluta.
    Leiðir við byggingu hjúkrunarheimila hafa verið mismunandi í gegnum tíðina. Í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 var tekin ákvörðun um að fara svokallaða leiguleið við byggingu hjúkrunarheimila þar sem staða ríkissjóðs var slæm á þessum tíma. Í leiguleiðinni fólst að sveitarfélag tók að sér, á grundvelli samnings við velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, hönnun og byggingu hjúkrunarheimilis. Verkið var á ábyrgð sveitarfélags sem annaðist fjármögnun þess. Á móti greiðir ríkið mánaðarlega greiðslu til 40 ára til sveitarfélaganna sem svarar til 85% stofnkostnaðar en sveitarfélagið leggur til 15%. Hlutur ríkissjóðs er fjármagnaður úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
    Þegar ríkið hefur tekið þátt í stofnkostnaði nýrra hjúkrunarheimila, þ.e. séð um hönnun og byggingu heimilisins, eru þau byggð með hlutfallsskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga í hlutföllunum 85%/15%. Tekið er fram í 32. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, að hvorugur aðili eigi þá kröfu á hinn um leigu vegna eignar eða eignarhluta. Þá eru mörg hjúkrunarheimili sjálfseignarstofnanir sem byggðar voru með sjálfsaflafé á sínum tíma og jafnvel með framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

     4.      Hvert er umfang reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila sem rekin eru af einkaaðilum með samningum við Sjúkratryggingar Íslands? Eru dæmi um að slík þjónusta sé veitt án samninga við hið opinbera?
    Áætluð heildargreiðsla árið 2022 vegna reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila sem rekin eru af einkaaðilum 1 með samningum við Sjúkratryggingar Íslands er 24,8 milljarðar kr. Ekki eru dæmi um að slík þjónusta sé veitt án samninga við hið opinbera.

1    Ef hjúkrunarheimili eru rekin af sjálfseignarstofnun á samningi við sveitarfélag er ábyrgð á rekstrinum á sveitarfélaginu sem rekstraraðila þótt það hafi fengið þriðja aðila til rekstrarins.