Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 912  —  516. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá heilbrigðisráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

    Gerðir hafa verið tólf ráðningarsamningar frá 28. nóvember 2021:
                  a.      ein skipun í embætti skrifstofustjóra en annað ráðningar í störf,
                  b.      sjö tímabundnar ráðningar (verkefnatengd störf og afleysingar vegna veikinda) og fjórar ótímabundnar ráðningar,
                  c.      sex ný störf, þar af fjögur tímabundin.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Öll störfin sem ekki voru tímabundnar ráðningar voru auglýst, þ.e. laust embætti skrifstofustjóra og fjögur störf sérfræðinga.

     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá heilbrigðisráðuneyti við skipan nýrrar ríkisstjórnar í nóvember 2017 samanborið við fjölda stöðugilda í september 2022? Hafi orðið breyting á málefnasviði ráðuneytisins á þessum tíma er óskað eftir að tilgreind sé breyting á starfsmannafjölda með tilliti til þess.
    Mikil breyting hefur orðið á málefnasviði ráðuneytisins frá því í nóvember 2017. Þá var velferðarráðuneytið starfandi sem fór með málaflokka heilbrigðis- og félagsmála undir einu ráðuneyti og því varla samanburðarhæft. Fjöldi starfsmanna velferðarráðuneytisins var um 92 undir lok árs 2017. Þess skal getið að fjöldi starfsmanna heilbrigðisráðuneytisins við stofnun þess, 1. janúar 2019, var 56 í 53,65 stöðugildum. Fjöldi starfsmanna í ráðuneytinu í september 2022 var 63 í 57,7 stöðugildum.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá heilbrigðisráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Eins og fram kemur í svari við c-lið 1. tölul. fyrirspurnar er um sex ný störf að ræða frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum 28. nóvember 2021. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks á kjörtímabilinu til loka árs 2025 gæti numið allt að 150 millj. kr.