Ferill 559. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 913  —  559. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Ekki stendur yfir formleg vinna við stofnanaskipulag ráðuneytisins. Stórar skipulagsbreytingar voru síðast gerðar árið 2014 með umfangsmiklum sameiningum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þá skal þess getið að lyfjagreiðslunefnd var lögð niður 1. janúar 2021. Ráðuneytið er þó alltaf vakandi fyrir möguleikum til skipulagsbreytinga með það að markmiði að auka hagræðingu og skilvirkni í starfsemi.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Í stjórnsýsluúttektinni kemur fram að Ríkisendurskoðun telji ekki ástæðu fyrir ráðuneytið að ráðast í margar sameiningar en engu að síður kunni að vera ástæða til að kanna fýsileika þess að sameina Geislavarnir ríkisins við stærri skipulagsheild. Hefur sú umræða áður átt sér stað en ekki hefur verið ráðist í slíka könnun frá útkomu skýrslunnar.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Stofnanir ráðuneytisins eru 15 talsins, þar af ein stjórnsýslunefnd.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Þrjár stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn: Geislavarnir ríkisins hafa 11 starfsmenn, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands 23 starfsmenn og Vísindasiðanefnd tíu starfsmenn, þar af sjö nefndarmenn. Aðrar stofnanir hafa frá um 70 til ríflega 6.500 starfsmenn.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Ekki er formlega til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins. Líkt og fram kemur í framangreindri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar hefur á undanförnum árum verið til skoðunar að flytja þá þjónustu sem nú er veitt á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands til annarra heilbrigðisstofnana og leggja stofnunina niður í núverandi mynd. Þeirri vinnu er ólokið og því liggur ekki fyrir niðurstaða um hvort af því verði.