Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 915  —  460. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um börn á flótta.


     1.      Hversu mörg börn hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi á árinu 2022? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um fylgdarlaus börn er að ræða eða börn umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sóttu 873 börn um alþjóðlega vernd hér á landi á tímabilinu frá 1. janúar til 19. nóvember 2022, þar af 458 drengir og 415 stúlkur. Af þessum 873 börnum er 31 barn skráð fylgdarlaust, þar af 21 drengur og tíu stúlkur.

     2.      Hve mörg þeirra hafa fengið vernd?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafa 616 af umræddum 873 börnum fengið vernd af einhverju tagi í málsmeðferð á fyrsta stjórnsýslustigi. Af þessum 616 börnum fengu tvö alþjóðlega vernd, 144 viðbótarvernd, 463 dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sjö vernd vegna fjölskyldutengsla.

     3.      Hve mörgum hefur verið vísað frá?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun fékk 31 af umræddum 873 börnum ákvörðun um frávísun á fyrsta stjórnsýslustigi, þar af 14 í kjölfar efnislegrar meðferðar, sjö vegna ákvörðunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og tíu vegna ákvörðunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli verndar í öðru ríki. Stærstur hluti þeirra mála er enn til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.
    Þau 226 af umræddum 873 málum sem út af standa voru ýmist enn í vinnslu hjá Útlendingastofnun 19. nóvember 2022 (190 mál) eða höfðu fengið önnur lok (36 mál), svo sem vegna þess að umsækjendur höfðu dregið til baka umsóknir sínar eða horfið.

     4.      Hve mörg hafa verið flutt úr landi og til hvaða landa?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur fjórum börnum, sem sóttu um vernd á árinu 2022 og fengu synjun, verið fylgt til baka til síns heimaríkis, Albaníu. Þá hafa 12 börn til viðbótar, sem sóttu um vernd á árinu 2022, yfirgefið landið sjálfviljug í kjölfar þess að umsóknir þeirra voru dregnar til baka, þar af fóru tíu til Grikklands, eitt til Ítalíu og eitt til Póllands.

     5.      Hver eru upprunalönd barna sem hafa fengið alþjóðlega vernd á árinu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun eru upprunalönd þeirra barna sem hafa sótt um og fengið vernd það sem af er þessu ári Afganistan, Hondúras, Kólumbía, Palestína, Panama, Perú, Rússland, Sýrland, Úkraína og Venesúela.


     6.      Hver eru upprunalönd barna sem hefur verið synjað um vernd?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun eru upprunalönd þeirra barna sem hafa sótt um og verið synjað um vernd það sem af er þessu ári Albanía, Chile, Kólumbía og Nígería.

     7.      Hver eru upprunalönd barna sem hafa verið flutt úr landi?
    Eins og nánar greinir í svari við 4. tölul. fyrirspurnar er það Albanía.