Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 917  —  402. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um jafnréttis- og kynfræðslu.


     1.      Hvað líður þeim markmiðum sem sett eru fram í lið D.1. Heilsuefling í menntastefnu fyrir árin 2021–2030, sbr. þingsályktun nr. 16/151, að því er varðar jafnréttissjónarmið og kynfræðslu sem fjallað er um í greinargerð með þingsályktunartillögunni?
    Í lið D í menntastefnu fyrir árin 2021–2030, sbr. þingsályktun nr. 16/151, er fjallað um vellíðan í öndvegi. Þar kemur fram að lögð verði áhersla á fimm þætti sem eru heilsuefling, geðrækt, forvarnir, rödd nemenda og vellíðan allra. Í fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnunnar fyrir árin 2021–2024 hefur aðgerðum verið forgangsraðað. Þar er ekki fjallað sérstaklega um heilsueflingu en aðrir áhersluþættir dregnir fram, svo sem rödd nemenda í aðgerð 8 og geðrækt í aðgerð 1.
    Unnið er að fjölbreyttum verkefnum við heilsueflingu í framhaldsskólum að því er varðar jafnréttissjónarmið og kynfræðslu. Mennta- og barnamálaráðuneytið er að stíga mikilvæg skref til að styðja við bakið á framhaldsskólum við að innleiða viðbragðsáætlanir gegn ofbeldi í sínum skólum ásamt því að kynna bæði skammtíma- og langtímaforvarnar- og fræðsluaðgerðir. Lögð er áhersla á samstarf við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), skólameistara, sérfræðinga og aðra hagaðila. Ráðuneytið hefur einnig komið af stað tilraunaverkefni með tímabundnu fagráði sem er ætlað að aðstoða stjórnendur framhaldsskóla við að taka á erfiðum kynferðisbrotamálum sem upp kunna að koma ásamt afleiddum álitamálum. Þá hafa ráðuneytið og stofnanir unnið að því að efla kynfræðslu í skólum, m.a. með útgáfu rafræns fræðsluefnis sem er vistað á vef Menntamálastofnunar og hvatningu til að auka vægi hennar.
    Þá er rétt að taka fram að mennta- og barnamálaráðuneytið og stofnanir þess vinna að fjölda verkefna sem varða kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í samræmi við þingsályktun nr. 35/149, áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þingsályktun nr. 37/150, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, og þingsályktun nr. 16/150, um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023.

     2.      Hver er staðan á innleiðingu jafnréttis sem grunnstoðar á öllum skólastigum samkvæmt aðalnámskrám allra skólastiga frá 2011? Hefur sú innleiðing leitt til frekari jafnréttiskennslu óháð skólastigum?
    Jafnrétti er einn af sex grunnþáttum menntunar á öllum skólastigum í aðalnámskrám. Grunnþættirnir ná til starfshátta, inntaks og námsumhverfis og eiga að stuðla að samfellu í skólakerfinu. Komu þessir þættir fyrst fram í aðalnámskrám árið 2011 og gegna enn mjög mikilvægu hlutverki í íslensku skólastarfi.
    Grunnþátturinn jafnrétti er nánar útfærður í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá framhaldsskóla segir svo dæmi sé tekið um jafnrétti:
    „Markmið jafnréttismenntunar er að skapa öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi, jafnframt því að allir séu virkir þátttakendur í að skapa samfélag jafnræðis, jafnréttis og réttlætis. Menntun til jafnréttis fjallar um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Við undirbúning framtíðarstarfsvettvangs er mikilvægt að opna augun fyrir kynskiptum vinnumarkaði og stuðla að því að námsval kynjanna verði minna kynbundið en hingað til. Það varðar miklu að ekki halli á kynin í þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við heldur grundvallist þau á jafnræði og jafnrétti.“
    Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur ekki staðið fyrir könnun á innleiðingu grunnþátta aðalnámskráa. Þessi grunnþáttur hefur þó verið innleiddur á öll skólastig, bæði í menntun og einnig í starfsháttum skóla óháð skólastigum og hefur ráðuneytið stutt við innleiðingu þeirra, m.a. í gegnum Sprotasjóð og Þróunarsjóð námsgagna.
     Lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976, voru fyrstu jafnréttislögin sem samþykkt voru á Íslandi og voru þar ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum. Jafnréttisfræðsla hefur því verið lögbundin frá árinu 1976 og hefur jafnrétti kynja aukist á þeim tíma samkvæmt helstu mælikvörðum þótt enn sé verk að vinna.

     3.      Hver er staðan á innleiðingu tillagna starfshóps um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum?
    Skýrslan „Markviss kennsla um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum: Greinargerð og tillögur starfshóps“ er afurð starfshóps sem þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í desember 2020 og var skilað í júní 2021. Þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra sendi bréf dags. 7. september 2021 til skóla og hagsmunaaðila skólasamfélagsins með hvatningu um að skýrslan yrði rædd og hún nýtt til að efla umræðu og aðgerðir í skólasamfélaginu.
    Ákveðið hefur verið setja vinnu af stað við að forgangsraða og kostnaðarmeta tillögur starfshópsins sem eru á forræði mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur.
    Í skýrslunni eru tilgreindar ellefu tölusettar aðgerðir sem nýtast vel við að bæta umgjörð skólastarfs og kennslu í kynheilbrigði og ofbeldisforvörnum. Hjá ráðuneytinu og stofnunum er vinna langt komin eða vel á veg við eftirfarandi aðgerðir: 4. Starfsþróun fagstétta, 8. aðgengi að námsefni og 9. efnisþættir kynfræðslunnar. Þá er vinna hafin eða að hefjast við eftirfarandi aðgerðir: 5. breytingar á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla, 6. fyrirkomulag kynfræðslu, 7. heildarsýn á efnistök kynfræðslu og 10. viðbragðsáætlun við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi fyrir framhaldsskóla. Ráðuneytið er að skoða mögulega útfærslu á stöðukönnun á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum sem fjallað er um í aðgerð 1. Aðrar tillögur varða verkefni annarra ráðuneyta og stofnana þeirra.

     4.      Er áhersla á jafnréttis- og kynfræðslu sem og kynheilbrigði hluti af þeirri endurskoðun á stuðningi við skólastarf sem ráðherra hefur boðað?
    Innan ráðuneytis er nú unnið að innleiðingu laga nr. 86/2021, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem snerta á þessum málum með ýmsum hætti, m.a. með áherslu á stigskipta þjónustu og snemmtækan stuðning. Einnig hafa verið lögð fram áform um löggjöf um heildstæða skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun fyrir menntakerfið. Nú stendur yfir viðamikið og víðtækt samráð við skólasamfélagið, með aðkomu þingmannanefndar um málefni barna, um mótun laganna og nýrrar stofnunar. Meðal þess sem þar hefur verið rætt er aukið hlutverk nýrrar þjónustustofnunar við miðlægan stuðning við menntakerfið, þ.m.t. við útgáfu námsgagna, í tengslum við jafnréttis- og kynfræðslu.