Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 920  —  501. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um einstaklinga með tengslaröskun.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins þegar kemur að greiningum barna með tengslaröskun?
    Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur eftir þeirri stefnu sem kemur m.a. fram í 1. mgr. 1. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Greining, frumgreining og/eða annars konar mat á þörfum barna getur verið liður í því að veitt sé þjónusta eða annar stuðningur við hæfi.

     2.      Hversu mörg börn hafa verið greind með tengslaröskun á Íslandi sl. 20 ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og aldri barna við greiningu.
    Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafar- og greiningarstöð (RGR) hafa sex börn verið greind hjá RGR frá árinu 1997 (greiningarnúmer F94,1):

Ár greiningar Aldur við greiningu
Drengur 2005 17
Stúlka 2008 16
Drengur 2009 3
Drengur 2010 13
Drengur 2016 9
Stúlka 2020 10

    Börn eru jafnframt greind með tengslaröskun af þjónustuveitendum sem lúta yfirstjórn annarra ráðherra, einkum heilbrigðisráðherra.

     3.      Hafa einstaklingar sem greindir eru með tengslaröskun sömu réttindi og einstaklingar sem greindir eru með einhverfu? Ef ekki, er vinna í gangi hjá ráðuneytinu til að tryggja réttindi þeirra einstaklinga sem eru greindir með tengslaröskun?
    Í 1. mgr. 1. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, felst m.a. að öll börn fái stuðning í samræmi við stuðningsþarfir óháð því hvort eða hvaða greiningu barnið hefur fengið. Þarfir einstaklinga með tengslaröskun annars vegar og einstaklinga með einhverfu hins eru fjölbreyttar og ekki unnt að bera saman einstaklinga úr þessum hópum án þess að frekari upplýsingar liggi fyrir um stuðningsþarfir.