Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 921  —  229. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum.     1.      Hver er staða vinnu ráðuneytisins á grundvelli tillagna sem eiga að stuðla að úrbótum í kynfræðslu og kynheilbrigði barna á Íslandi og komu fram í skýrslunni „Markviss kennsla um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum: Greinargerð og tillögur starfshóps“ og varða málefnasvið ráðherra? Hvenær er áætlað að vinnslu ráðuneytisins á tillögunum ljúki?
    Skýrslan „Markviss kennsla um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum: Greinargerð og tillögur starfshóps“ er afurð starfshóps sem þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í desember 2020 og var skilað í júní 2021. Þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra sendi bréf dags. 7. september 2021 til skóla og hagsmunaaðila skólasamfélagsins með hvatningu um að skýrslan yrði rædd og hún nýtt til að efla umræðu og aðgerðir í skólasamfélaginu.
    Ákveðið hefur verið setja vinnu af stað við að forgangsraða og kostnaðarmeta tillögur starfshópsins sem er á forræði mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur.
    Í skýrslunni eru tilgreindar ellefu tölusettar aðgerðir sem nýtast vel við að bæta umgjörð skólastarfs og kennslu í kynheilbrigði og ofbeldisforvörnum. Hjá ráðuneytinu og stofnunum er vinna langt komin eða vel á veg við eftirfarandi aðgerðir: 4. Starfsþróun fagstétta, 8. Aðgengi að námsefni og 9. Efnisþættir kynfræðslunnar. Þá er vinna hafin eða að hefjast við aðgerðir 5. Breytingar á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla, 6. Fyrirkomulag kynfræðslu, 7. Heildarsýn á efnistök kynfræðslu og 10. Viðbragðsáætlun við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi fyrir framhaldsskóla. Ráðuneytið er að skoða mögulega útfærslu á stöðukönnun á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum sem fjallað er um í aðgerð 1. Aðrar tillögur varða verkefni annarra ráðuneyta og stofnana þeirra.
    Þá er rétt að taka fram að mennta- og barnamálaráðuneytið og stofnanir þess vinna að fjölda verkefna sem varða kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í samræmi við þingsályktun nr. 35/149 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess 2019–2022, þingsályktun nr. 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025 og þingsályktun nr. 16/150 um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023.

     2.      Er skráð sérstaklega ef upp kemur grunur um kynferðisbrot í grunn- eða framhaldsskólum? Ef ekki, stendur til að breyta því?

    Samkvæmt upplýsingum sem mennta- og barnamálaráðuneytið aflaði frá skólameisturum framhaldsskóla er í langflestum tilfellum til staðar skráning um grun um kynferðisbrot í skólanum í málakerfi skólans samkvæmt ákveðnu verklagi. Fyrirkomulag skráningar og ferill er þó mismunandi. Í einhverjum skólanna gildir einu hvort tilkynning berist frá þolanda eða skólinn fái vitneskju eða ábendingar um brot frá öðrum. Í einhverjum skólanna er það hlutverk náms- og starfsráðgjafa að halda utan um slíka skráningu en í öðrum kemur það í hlut nemendaþjónustunnar eða sérstakra EKKO (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi) teyma að fara með umsjá. Þá hafa skólameistarar í þónokkrum skólum séð um skráningu slíkra mála.
    Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hefur umræða síðustu vikna leitt til þess að nokkrir skólar hafa gefið það út að þeir ætli sér að halda betur utan um skráningu málanna og breyta verklagi til að öðlast betri yfirsýn yfir fjölda og eðli mála. Ráðuneytið hefur jafnframt til skoðunar, samhliða öðrum aðgerðum og viðbrögðum sem fjallað er um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, með hvaða hætti unnt er að safna upplýsingum frá skólunum í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar í ráðuneytinu um skráningu þessara mála í grunnskólum en sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri almennra grunnskóla. Í ljósi athugunar ráðuneytisins á þessu málefni í framhaldsskólum kemur til greina að taka til skoðunar með hvaða hætti sveitarfélög haga slíkri skráningu.