Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 922  —  376. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um framkvæmd laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að ekki hefur verið unnt að tilnefna tengilið í mæðra- og ungbarnavernd við Heilbrigðisstofnun Vesturlands eins og skylt er skv. 17. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021? Hvernig hyggst ráðherra tryggja að nægilegt fjármagn verði veitt í þessa þjónustu?
     2.      Hvenær geta börn og foreldrar á Vesturlandi átt von á því að fá tengilið frá sinni heilsugæslu?

    Í greinargerð með frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er gert ráð fyrir þriggja ára innleiðingartímabili laganna. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um frumvarpið er innleiðingartímabilið skilgreint sem allt að fimm ára tímabil en gert ráð fyrir endurmati að liðnum þremur árum frá gildistöku þeirra. Gert er ráð fyrir að lögin verði komin í fulla framkvæmd við lok innleiðingartímabilsins.
    Frá gildistöku laganna 1. janúar 2022 hafa þjónustuveitendur sveitarfélaga og ríkisins með stuðningi Barna- og fjölskyldustofu og mennta- og barnamálaráðuneytisins unnið að innleiðingu laganna. Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu eru 55 sveitarfélög komin af stað í vinnu við að innleiða lögin og 21 þeirra hefur tilnefnt tengiliði í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Innleiðing er komin skemur á veg í framhaldsskólum og heilsugæslum og hafa fæstar heilbrigðisstofnanir tilnefnt tengiliði fyrir sína starfsemi.
    Viðbrögð mennta- og barnamálaráðuneytisins við þessari stöðu eru að halda áfram að styðja við sveitarfélög og stofnanir ríkisins við innleiðingu laganna út innleiðingartímabilið. Reiknað er með því að þjónustuveitendur sem ekki hafa þegar tilnefnt tengiliði muni á næstu mánuðum tilnefna sína tengiliði. Í þessu sambandi er bent á að reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 1180/2022, tók gildi 11. október sl. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að í hverjum leik-, grunn- og framhaldsskóla og á hverri heilsugæslustöð skuli í það minnsta einn starfsmaður fara með hlutverk tengiliðar. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir jafnframt að sá sem stýrir viðkomandi skóla eða heilsugæslustöð skuli tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það hver og/eða hverjir gegni hlutverki tengiliðar.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022, 2023 og 2024 er gert ráð fyrir 1,8 milljörðum kr. vegna laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar af fer 1,1 milljarður kr. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og um 700 millj. kr. verður varið í að fjármagna innleiðingu laganna í þjónustukerfum á vegum ríkisins, þ.m.t. til heilbrigðisstofnana. Hluti framhaldsskóla hefur jafnframt fengið vilyrði fyrir úthlutun fjármagns og verið er að vinna í útfærslu á því hvernig fjármagn verði veitt til annarra framhaldsskóla og heilbrigðisstofnana.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja aukið fjármagn til heilbrigðisstofnana til þess að fjölga úrræðum og fagaðilum sem geta unnið í málum sem eru á öðru stigi samþættingar í þágu farsældar barna, þ.e. með einstaklingsbundnum stuðningi með það að markmiði að styðja við farsæld barns?
     4.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja ákveðið fjármagn til sveitarfélaganna til þess að fjölga úrræðum og fagaðilum sem geta unnið í málum sem eru á fyrsta og öðru stigi samþættingar í þágu farsældar barna, sbr. 19. gr. fyrrnefndra laga?
     5.      Stendur til að samræma á milli sveitarfélaga þjónustu á fyrsta stigi með því að auka þjónustuna þar sem það á við í ljósi þess að mikill munur er á milli sveitarfélaga hversu mikil þjónusta á fyrsta stigi er veitt?

    Í samræmi við sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er gert ráð fyrir því að úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur verði endurskipulögð á kjörtímabilinu í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Jafnframt verði tryggt að börn og barnafjölskyldur fái nauðsynlega þjónustu innan tiltekins ásættanlegs biðtíma.
    Í mennta- og barnamálaráðuneytinu er unnið að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast endurskipulagningu úrræða sem styðja við farsæld barns í samvinnu við önnur ráðuneyti, þ.m.t. heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélög.
    Sem dæmi má nefna að í mars 2022 áttu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra samstarf um aðgerðir til að bæta aðgengi að þjónustu fyrir börn. Ráðherrarnir voru sammála um að til að markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna gætu náð fram að ganga væri ljóst að tryggja þyrfti að börn hefðu aðgang að viðeigandi úrræðum í stigskiptri þjónustu þegar þeirra væri þörf. Lögð var áhersla á að bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum getur haft veruleg áhrif á farsæld barns og velsæld fjölskyldna. Fullnægjandi og greiður aðgangur að árangursríkri þjónustu stuðlar að aukinni farsæld, m.a. bættu geðheilbrigði, og dregur úr líkum á þyngri vanda síðar meir.
    Ákveðið var að skipaður yrði sérstakur stýrihópur um aðgengi að þjónustu fyrir börn auk þess sem lagt var til að huga sérstaklega að viðkvæmum hópi barna, t.d. börnum með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir.
    Mennta- og barnamálaráðherra skipaði stýrihóp um aðgengi að þjónustu fyrir börn þann 11. nóvember 2022. Verkefni stýrihópsins er að kortleggja stigskipta heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu fyrir börn og fjölskyldur um land allt, greina styrkleika og veikleika þjónustunnar og leggja fram tillögur til þess að styrkja heildstæða, samhæfða og árangursríka velferðarþjónustu við börn og fjölskyldur sem veitt er af til bæru fagfólki á réttum tíma og á réttu þjónustustigi. Skal stýrihópurinn skila tillögum til ráðherra ekki síðar en 31. maí 2023.
    Að því er varðar þjónustu sveitarfélaga á fyrsta og öðru stigi hefur mennta- og barnamálaráðherra kynnt áform um að setja nýja heildstæða löggjöf um skólaþjónustu. Áformin byggja á þrepaskiptum stuðningi fyrir öll skólastig. Meðal markmiða nýrra heildarlaga er að jafna aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks að skólaþjónustu og tryggja lágmarksþjónustu óháð búsetu. Samhliða voru kynnt áform um nýja stofnun á sviði menntamála. Hún verður fagleg þekkingarmiðstöð skólaþróunar og skólaþjónustu sem styður við ofangreinda innleiðingu í samvinnu við sveitarfélög og skóla.
    Unnið er að frumvarpinu í víðtæku samráði við framhaldsskóla, grunnskóla, leikskóla, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra og annað starfsfólk í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi. Meðal þess sem verður útfært nánar í samráði er verka- og kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga.