Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 923  —  473. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um auðlindagjald af vindorku.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er afstaða ráðherra til innheimtu auðlindagjalds af vindorku?

    Hinn 11. júlí 2022 skipaði ráðherra sérstakan þriggja manna starfshóp til að skoða og gera tillögur til ráðuneytisins um hvernig haga skuli lagaumhverfi vindorkumálefna hér á landi í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku. Umrædd vinna starfshópsins stendur nú yfir og er gert ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum til ráðuneytisins fyrir 1. febrúar 2023. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur m.a. fram að mikilvægt sé að tillögurnar byggi á því að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og að tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru auk þess sem starfshópurinn taki afstöðu til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu.
    Þar sem starfshópnum er í starfi sínu ætlað að taka almenna afstöðu til gjaldtöku fyrir vindorku og skila ráðherra tillögum um hana telur ráðherra ekki viðeigandi að hann geri sérstaka grein fyrir afstöðu sinni til einnar tegundar mögulegrar gjaldtöku fyrir hagnýtingu á vindorku umfram aðrar áður en tillögur starfshópsins liggja endanlega fyrir. Hins vegar hefur ráðherra margoft lýst þeirri skoðun sinni að vilji hans standi til þess að nærsamfélagið fái að njóta efnahagslegs ábata af orkumannvirkjum.