Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 924  —  420. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um brottvísanir umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Ráðuneytið áréttar að á grundvelli 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga er umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hljóta synjun almennt frávísað frá landinu. Neðangreind svör taka því mið af ákvörðunum á fyrsta stjórnsýslustigi um frávísanir en ekki brottvísanir.

     1.      Hversu mörgum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd frá upphafi árs 2020 til dagsins í dag?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur 303 umsóknum um alþjóðlega vernd verið synjað að undangenginni efnislegri meðferð á fyrsta stjórnsýslustigi á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til 22. nóvember 2022, þar af 117 árið 2020, 110 árið 2021 og 76 árið 2022.

     2.      Hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið synjað um efnismeðferð frá upphafi árs 2020 til dagsins í dag?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur 606 umsóknum um alþjóðlega vernd verið synjað um efnislega meðferð á fyrsta stjórnsýslustigi á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til 22. nóvember 2022, þar af 140 árið 2020, 264 árið 2021 og 202 árið 2022. Þess skal getið að 42 þessara ákvarðana voru afturkallaðar af Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála árið 2020 vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust við upphaf Covid-19 heimsfaraldursins.

     3.      Hversu margar umsóknir hafa verið metnar bersýnilega tilhæfulausar frá upphafi árs 2020 til dagsins í dag?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur 32 umsóknum verið synjað að undangenginni forgangsmeðferð sem bersýnilega tilhæfulausum á fyrsta stjórnsýslustigi á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til 22. nóvember 2022, þar af níu árið 2020, 14 árið 2021 og níu árið 2022.

     4.      Hversu margir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa yfirgefið landið eftir synjun á umsókn frá upphafi árs 2021 til dagsins í dag?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun yfirgáfu 179 umsækjendur um alþjóðlega vernd landið sjálfviljugir eða með aðkomu lögreglu á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 22. nóvember 2022 í kjölfar synjunar um vernd eða synjunar um efnislega meðferð. Á sama tímabili yfirgáfu 68 til viðbótar landið eftir að hafa dregið umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka.

     5.      Hversu margar brottvísanir hafa farið fram með lögreglufylgd frá upphafi árs 2021 til dagsins í dag, tilgreint eftir heimaríki/viðtökuríki, og hversu margar þeirra fóru fram með lögreglufylgd:
                  a.      alla leið til heimaríkis/viðtökuríkis,
                  b.      hluta af leið til heimaríkis/viðtökuríkis?

    Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur 128 einstaklingum, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi, verið fylgt úr landi í fylgd lögreglu á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 21. desember 2022, þar af 86 alla leið til heima- eða viðtökuríkis og 42 hluta af leið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Tafla 1. Fjöldi flutninga í fylgd lögreglu á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 21. desember 2022 miðað við heima- og viðtökuríki viðkomandi og hvort fylgd hafi átt sér stað alla eða hluta af leið.


     6.      Hversu margar brottvísanir til Grikklands hafa verið framkvæmdar árið 2022?
    Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur 31 einstaklingur, sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi, verið frávísað til Grikklands á árinu 2022, þar af 26 með fylgd lögreglu alla leið og fimm án fylgdar.

     7.      Hversu margar brottvísanir til Ungverjalands hafa verið framkvæmdar frá upphafi árs 2021 til dagsins í dag?
    Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur sex einstaklingum, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi, verið frávísað til Ungverjalands á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 21. desember 2022, þar af fjórir hluta af leið og tveir án fylgdar lögreglu.

     8.      Hversu mörgum börnum hefur Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að vísa til Ítalíu á grundvelli 36. gr. útlendingalaga, nr. 80/2016, frá upphafi árs 2021?
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var 25 umsóknum barna um alþjóðlega vernd synjað um efnislega meðferð á fyrsta stjórnsýslustigi á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 22. nóvember 2022 með ákvörðun um frávísun og þar með endursendingu til Ítalíu.

     9.      Hver er heildarkostnaður lögreglu vegna brottvísana og fylgdar úr landi frá upphafi árs 2021 til dagsins í dag að kostnaði vegna aðgerða innan lands meðtöldum?
    Í skriflegu svari dómsmálaráðherra frá 25. apríl 2022 við fyrirspurn þingmanns um kostnað við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi, sbr. þskj. 391, 127. mál, má finna ítarlega samantekt um heildarkostnað lögreglu vegna flutninga í fylgd úr landi á árunum 2019, 2020 og 2021. Að þessu virtu og með hliðsjón af umfangi þess að taka saman slíkar upplýsingar hverju sinni, auk þess sem fjárhagsárið 2022 liggur ekki fyrir, vísar ráðuneytið til þeirra upplýsinga sem þar koma fram.