Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 925  —  440. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir vegna mengunar af völdum skotelda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað hefur verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem lagðar voru til af starfshópi um mengun af völdum skotelda og birtar voru í janúar 2020? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og að bæði sé fjallað um þær tillögur sem starfshópurinn var einhuga um og þær sem ekki náðist full samstaða um.
     2.      Hvenær skipaði ráðherra starfshóp til að móta tillögur um varanlega fjármögnun björgunarsveita, sbr. svar á 151. löggjafarþingi (þskj. 912, 449. mál)? Hver eiga sæti í hópnum og hvenær er áformað að hann skili niðurstöðum sínum?


    Starfshópur ráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skilaði tillögum um hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Meginniðurstaða starfshópsins var að nauðsynlegt væri að takmarka sem mest mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá einstaklingum. Einnig þyrfti að hafa í huga óæskileg áhrif skotelda um áramót á atferli og líðan margra dýra. Jafnframt benti starfshópurinn á að huga þyrfti að loftmengun í víðu samhengi og draga úr mengun þar sem það er mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning. Rétt er að taka fram að sumar af þeim tillögum sem settar eru fram af hálfu starfshópsins eru ekki á ábyrgðarsviði ráðherra en í skýrslunni er tiltekið hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á hvaða tillögu.
    Ein tillaga starfshópsins laut að því að gera breytingar á reglugerð um skotelda nr. 414/2017 til að þrengja tímamörk um almenna notkun skotelda og fækka söludögum. Drög að reglugerðarbreytingu voru unnin í ráðuneytinu og birt í samráðsgátt 14. október 2020. Alls bárust 17 umsagnir og var unnið úr ábendingum og athugasemdum sem þar komu fram. Útgáfu reglugerðarinnar var hins vegar upphaflega frestað með vísan til aðstæðna í þjóðfélaginu sökum COVID-19 faraldursins, auk þess sem mikilvægt þótti að veita söluaðilum ráðrúm til að skipuleggja sig með nægum fyrirvara og skoða fleiri leiðir til fjáröflunar áður en slík breyting tæki gildi.
    Mikilvægt er að björgunarsveitir hafi fjárhagslega burði til að sinna sínu starfi en björgunarsveitir gegna bæði lögbundnum verkefnum og öðrum mikilvægum verkefnum. Sala skotelda er langstærsti hluti fjáröflunar björgunarsveita á Íslandi. Að mati ráðuneytisins þarf að eiga samráð við björgunarsveitir landsins áður en tekin er ákvörðun sem getur haft áhrif á fjármögnun þeirra og getu til að sinna verkefnum. Ein tillaga starfshópsins var að skipaður yrði starfshópur til að vinna tillögur um fjármögnun björgunarsveita og var upphaflega lagt upp með að slíkur hópur tæki til starfa og skilaði niðurstöðu áður en tekin yrði ákvörðun um að gera reglugerðabreytingu sem hefði m.a. í för með sér fækkun á söludögum flugelda. Ráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa ekki slíkan starfshóp en hann hyggst ræða þær tillögur sem settar voru fram af starfshóp um mengun af völdum skotelda við Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitir. Að mati ráðherra er mikilvægt að samráð eigi sér stað áður en teknar eru ákvarðanir um aðgerðir sem geta haft áhrif á getu þeirra til að sinna sínum verkefnum. Í framhaldi af samtali við björgunarsveitir verður tekin afstaða til þeirra tillagna sem lagðar voru fram af hálfu starfshópsins og eru á ábyrgð ráðuneytisins og tekin ákvörðun um næstu skref.