Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 936  —  465. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um dvalarleyfi fyrir hugsanleg fórnarlömb mansals og fórnarlömb mansals.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mörg dvalarleyfi hafa verið veitt á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, síðastliðin fimm ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum.

    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafa tvö dvalarleyfi verið veitt á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga síðastliðin fimm ár; eitt á grundvelli 75. gr. árið 2019 og annað á grundvelli 76. gr. árið 2022.
    Þess ber að geta að flest þeirra mála þar sem komið hefur til álita hvort veita eigi dvalarleyfi á fyrrnefndum grundvelli eru í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd. Áður en komið getur til skoðunar hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli þessara ákvæða ber Útlendingastofnun fyrst að skera úr um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 37. eða 39. gr. laganna fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar eða 74. gr. sömu laga fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafa umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem borin eru kennsl á sem hugsanleg fórnarlömb mansals eða fórnarlömb mansals, að jafnaði verið taldir uppfylla skilyrði fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar eða mannúðarleyfis. Er það ástæða þess hversu sjaldan komið hefur til álita hvort veita eiga dvalarleyfi á grundvelli 75. eða 76. gr. laga um útlendinga í slíkum málum.