Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 943  —  561. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Eins og fram kemur í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um stærðarhagkvæmni stofnana ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem birt var með skýrslu embættisins í febrúar 2022, hefur forsætisráðuneytið í sögulegu samhengi ekki haft margar stofnanir á sínu málefnasviði. Í skýrslunni er m.a. vísað til sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem unnið var að 2018–2019 og kom til framkvæmda í ársbyrjun 2020. Þá tók Ríkisendurskoðun undir það sjónarmið forsætisráðuneytisins að langsótt væri að stuðla að frekari sameiningu stofnana ráðuneytisins miðað við núverandi samsetningu þeirra.
    Í úttektinni eru settar fram fjórar tillögur til úrbóta. Í fyrsta lagi telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til framkominna tillagna um einföldun stofnanakerfisins á undanförnum áratug. Í öðru lagi að fækka þurfi stofnunum á sviði mennta- og menningarmála. Í þriðja lagi að líta þurfi til sóknarfæra sem felast í aukinni samvinnu stofnana og var fjármála- og efnahagsráðuneytinu falið að leiða þá vinnu, m.a. með því að efla aðgengi að miðlægri stoðþjónustu. Loks er á það bent að tryggja þurfi að ráðuneytin hafi á hverjum tíma góða yfirsýn yfir stofnanir sínar, ekki síst til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni. Í samræmi við framangreindar ábendingar skipaði fjármála- og efnahagsráðherra 12. ágúst 2022 starfshóp um einföldun á stofnanakerfi ríkisins undir forystu ráðherranefndar um ríkisfjármál og á forsætisráðuneytið þar tvo fulltrúa. Starfshópurinn vinnur nú að undirbúningi tillagna um einföldun á stofnanakerfi ríkisins með það að markmiði að það verði samhæfðara, sveigjanlegra og hagkvæmara.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Samkvæmt núgildandi forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands heyra eftirfarandi stofnanir stjórnarfarslega undir forsætisráðuneytið: 1) Seðlabanki Íslands, 2) Hagstofa Íslands, 3) Jafnréttisstofa, 4) embætti ríkislögmanns, 5) óbyggðanefnd og 6) umboðsmaður barna.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Jafnréttisstofa, embætti ríkislögmanns, óbyggðanefnd og umboðsmaður barna eru allar með færri en 50 starfsmenn.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?

    Með hliðsjón af takmarkörkuðum fjölda stofnana ráðuneytisins og eðlisólíkum hlutverkum þeirra er ekki til skoðunar að fara í frekari sameiningar að svo stöddu.