Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 944  —  515. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.
    Við stofnun nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar voru flutt til ráðuneytisins samtals 30,7 stöðugildi úr fyrri ráðuneytum, þ.e. 18 frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, 6,7 frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fimm frá samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneyti og eitt frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Við það bætast tvö stöðugildi frá forsætisráðuneyti með flutningi verkefna fyrir Vísinda- og tækniráð og er annað þeirra fjármagnað en hitt ekki. Þegar stofnun nýrra ráðuneyta var ákveðin var jafnframt samþykkt að nýjum ráðuneytum fylgdu fimm ný stöðugildi, þ.e. staða ráðuneytisstjóra, ritara ráðherra og þriggja almennra starfsmanna. Inni í þessum tölum eru ekki ráðherra, aðstoðarmenn og bílstjóri þar sem launakostnaður þeirra fellur utan ráðuneytisins. Með meiri hluta stöðugildanna fylgdu einstaklingar úr fyrri ráðuneytum en jafnt og þétt hefur verið ráðið í þau stöðugildi sem fluttust án starfsmanna.
    Samtals eru því 36,7 stöðugildi fjármögnuð í ráðuneytinu, 31,7 með flutningi og fimm með nýrri fjárveitingu. Á þessum grunni byggist áætlun ráðuneytisins í launakostnaði.
    Svör miðast við stöðuna 30. nóvember 2022 en þá störfuðu hjá ráðuneytinu alls 32 einstaklingar í 32 stöðugildum. Verið er að ráða í tvö stöðugildi í viðbót sem beðið hefur verið með ráðningu í svo að uppbygging teymisins og þjálfun þess eigi sér stað í áföngum. Vegna þessa er launakostnaður ráðuneytisins verulega undir áætlun ársins 2022. Gert er ráð fyrir að búið verði að manna í allar þær stöður sem færðust til nýs ráðuneytis í byrjun ársins 2023.
    Svör við undirliðum:
     a.      Skipaðir hafa verið þrír embættismenn í nýju ráðuneyti, ráðuneytisstjóri og tveir skrifstofustjórar. Ráðnir hafa verið tólf starfsmenn.
     b.      Engin af núverandi skipunum er tímabundin en frá 1.2–30.4 2022 var ráðuneytisstjóri tímabundið skipaður. Af tólf ráðningum eða tilfærslum á milli ráðuneyta eru sjö tímabundnar og þar af þrjú sem voru fengin að „láni“ tímabundið frá öðrum ráðuneytum á meðan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti byggðist upp.
     c.      Ráðuneytið hefur ekki sett nein ný stöðugildi á fót. Eina viðbótin við stöðugildi í fyrri ráðuneytum er sú sem fylgdi stofnunni, þ.e. þau fimm stöðugildi sem gerðu ráð fyrir ráðuneytisstjóra, ritara ráðherra og þremur almennum starfsmönnum.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Auglýsingar um embætti:
                   Einn ráðuneytisstjóri, febrúar 2022.
                   Tveir skrifstofustjórar, febrúar 2022.
    Auglýsingar um störf:
                   Upplýsingafulltrúi á skrifstofu ráðuneytisstjóra og rekstrar, febrúar 2022 (ráðning).
                   Snillingur í nýsköpun á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni, júní 2022 (ráðning).
                   Talnaspekingur á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni, júní 2022 (ráðning).
                   Spekingur á sviði háskóla og vísinda á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni, júní 2022 (ráðning).
                   Lögfræðingur á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni, september 2022 (ráðning).
                   Viltu vera númer á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni? september 2022 (ráðning).
                   Sérfræðingur í net-og upplýsingaöryggi á skrifstofu stefnumörkunar, október 2022 (í lokaferli).
                   Sérfræðingur á sviði nýsköpunar á skrifstofu stefnumörkunar, október 2022 (í lokaferli).
                   Frumkvöðull á sviði nýsköpunar á skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni, október 2022 (í lokaferli).
                   Vertu í bandi, lögfræðingur á skrifstofu stefnumörkunar, desember 2022 (í auglýsingaferli)
                   12 stig, Evrópusérfræðingur á stafrænni vegferð, desember 2022 (í auglýsingaferli).

     3.      Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
    Líkt og fram kemur í inngangi eru stöðugildi í nýju ráðuneyti nú 32. Fyrri ráðuneyti fluttu 31,7 stöðugildi til nýs ráðuneytis. Þar að auki fylgdi fjárveiting fyrir fimm nýjum stöðugildum sem smám saman er verið að ráða í og verður að mestu lokið í byrjun árs 2023. Launakostnaður árið 2022 er því umtalsvert undir rekstraráætlun.
    Ráðuneytið hefur ekki aðgang að gögnum fyrri ráðuneyta og getur ekki svarað því hver var fjöldi stöðugilda þar í nóvember 2017.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti á kjörtímabilinu?

    Áætlaður kostnaður vegna fjölgunar starfsfólks í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu mun verða í samræmi við upphaflega áætlun sem fjármálaráðherra kynnti Alþingi þegar upplýst var að árlegur viðbótarlaunakostnaður nýs ráðuneytis yrði 147,4 millj. kr. Líkt og kemur fram hér að framan hefur sú fjárheimild enn ekki verið fullnýtt.