Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 945  —  545. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá René Biasone um ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins í Haag vegna hernáms Ísraels á landi Palestínu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun Íslands um að samþykkja ekki ályktun þess efnis að óska eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag vegna hernáms Ísraels á landi Palestínu eins og meiri hluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna gerði?

    Ályktun 77/247 um framgöngu Ísraels sem hefur áhrif á stöðu mannréttinda palestínsku þjóðarinnar á hernumdum svæðum Palestínu, þ.m.t. Austur-Jerúsalem, er ein þeirra ályktana sem reglulega er lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar. Í henni er m.a. farið fram á að ísraelsk stjórnvöld láti af ólögmætum aðgerðum sínum á hernumdu svæðunum sem brjóti í bága við Genfarsáttmálann um vernd almennra borgara í stríði og kallað eftir aðgerðum til að tryggja öryggi palestínskra borgara á svæðinu. Í ályktuninni er enn fremur farið fram á að ísraelsk stjórnvöld vinni með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og greiði fyrir eftirliti með stöðu mannréttinda á hernumdu svæðunum, þau láti af frekari landtöku í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og fari mannúðlega með fanga. Í ályktuninni er allt ofbeldi fordæmt, m.a. gegn fjölmiðlafólki og heilbrigðisstarfsfólki. Ísland hefur ávallt stutt þessa ályktun en sat hjá að þessu sinni vegna þeirra breytinga sem urðu á henni í ár. Skal því áréttað að hér er um að ræða breytingu á ályktun, sem taka þurfti afstöðu til, en ekki breytta grundvallarafstöðu Íslands til meginefnis ályktunarinnar.
    Í fyrsta lagi var sú breyting gerð á ályktuninni að sett var inn ákvæði þar sem óskað er eftir ráðgefandi áliti frá Alþjóðadómstólnum um lagalega stöðu hernumdu svæðanna og brot Ísraels á réttindum palestínsku þjóðarinnar. Eftir ítarlega skoðun og samráð við önnur ríki var það mat utanríkisráðuneytisins að beiðni um álit Alþjóðadómstólsins í Haag myndi ekki styrkja tilraunir til að endurvekja pólitískt samtal milli Ísraels og Palestínu, sem er forsenda þess að samið verði um tveggja ríkja lausn. Ákjósanlegra hefði verið að bera upp slíka beiðni í sjálfstæðri ályktun og efna til umræðu eingöngu á forsendum þess álitaefnis. Nokkrar slíkar beiðnir til dómstólsins hafa verið settar fram frá aldamótum og allar verið settar fram í sérstökum ályktunum en ekki skeytt inn í aðrar ályktanir.
    Í öðru lagi gróf það undan stuðningi við ályktunina að vísað sé til helgistaðarins al-Haram al-Sharif án þess að vísa líka til Musterishæðarinnar. Það síðarnefnda er heitið sem gyðingar og kristnir nota um staðinn sem á hvílir mikil helgi, ekki aðeins í íslam heldur líka í gyðingdómi og kristni. Fjölmörg ríki breyttu afstöðu sinni til ályktunar um Jerúsalem á síðasta allsherjarþingi vegna sams konar orðalags og er miður að ekki reyndist vilji til að breyta orðalaginu nú í samræmi við þessi sjónarmið heldur láta óbreytta tilvísun standa, sem felur í sér óþarfa ögrun og elur á sundrungu.
    Niðurstaða atkvæðagreiðslu um hina breyttu ályktun varð því sú að flest líkt þenkjandi ríki í Evrópu, þar á meðal Norðurlöndin, sátu hjá eða kusu gegn ályktuninni. Sem fyrr greinir sat Ísland hjá.
    Því má svo við bæta að Ísland var meðal 94 ríkja, þ.m.t. Norðurlandanna, sem tóku undir yfirlýsingu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 17. janúar 2023 sl. þar sem refsiaðgerðum ísraelskra stjórnvalda frá 6. janúar sl., í kjölfar samþykktar allsherjarþingsins, er harðlega mótmælt og hvatt til þess að aðgerðunum verði snúið við þegar í stað.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka svarið saman.