Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 951  —  166. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um greiðslureikninga.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Jónu Björk Guðnadóttur og Margréti Arnheiði Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni barst umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um greiðslureikninga öðlist gildi sem innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda vegna greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að greiðslureikningum með grunneiginleika. Að auki kveður frumvarpið á um breytingar á lögum um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021.

Umfjöllun nefndarinnar.
Bann við mismunun og réttur til aðgangs að almennum greiðslureikningi (13. og 14. gr.).
    Í umsögn sinni leggja Samtök fjármálafyrirtækja áherslu á að samhliða lögfestingu frumvarpsins verði lögfest breyting á 18. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, sem tryggja ætti að flóttamenn, sem eru án viðurkenndra persónuskilríkja hér á landi, geti fengið greiðslureikning. Þá telja samtökin að vandi geti skapast við framkvæmd laganna vegna þeirra sem teljast óstaðsettir í hús og óska eftir að stofna greiðslureikning.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er bent á að með breytingalögum nr. 62/2022 voru gerðar breytingar á 18. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og bætt við „m.a.“ á undan upptalningu á þeim skilríkjum sem teljast til viðurkenndra persónuskilríkja í skilningi laganna. Ákvæðið hefur því ekki að geyma tæmandi talningu á skilríkjum sem teljast til viðurkenndra persónuskilríkja og því ættu lánastofnanir að hafa nægjanlegt svigrúm til að líta á skráningarskírteini umsækjanda, sem og dvalarleyfisskírteini, sem ígildi persónuskilríkja.
    Varðandi þá sem teljast óstaðsettir í hús bendir ráðuneytið á að 13. og 14. gr. frumvarpsins byggjast á 2. mgr. 16. gr. tilskipunar 2014/92/ESB. Samkvæmt ákvæðinu ber aðildarríkjum að tryggja að neytendur með lögmæta búsetu á innri markaðnum eigi rétt á að stofna og nota almennan greiðslureikning. Sá réttur gildir einnig fyrir neytendur án fasts heimilisfangs, umsækjendur um alþjóðlega vernd og neytendur sem hefur ekki verið veitt dvalarleyfi en sem ekki er hægt að vísa brott. Jafnframt ber aðildarríkjum að tryggja að ekki sé of erfitt eða íþyngjandi fyrir neytendur að neyta þessa réttar. Í 15. tölul. 2. gr. frumvarpsins er lögmæt búseta á Evrópska efnahagssvæðinu skilgreind til samræmis við tilskipunina. Í aðfaraorðum tilskipunarinnar er áréttað að ekki beri að túlka skilyrði um lögmæta búsetu þröngt í ljósi meginreglu tilskipunarinnar um tryggt aðgengi að almennum greiðslureikningum á innri markaðnum án tillits til stöðu neytenda. Ef búseta neytanda er skráð hjá Þjóðskrá sem ótilgreind ættu lánastofnanir að geta gengið að því vísu að viðkomandi hafi samt sem áður lögmæta búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Með vísan til framangreinds telur meiri hlutinn athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja ekki gefa tilefni til breytinga á frumvarpinu.

Uppsögn rammasamnings.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um frumvarpið eru reifuð þau sjónarmið að heimildir til þess að rifta rammasamningi um almennan greiðslureikning séu ekki nægjanlegar í frumvarpinu. Leggja samtökin því til breytingu á frumvarpinu. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram að heimild til að bæta við viðbótartilvikum við einhliða uppsögn rammasamnings er bundin við það að tilvikið varði atvik þegar neytandi misnotar rétt sinn til að stofna og nota almennan greiðslureikning. Í aðfaraorðum tilskipunarinnar kemur fram að undir slík tilvik falli meðal annars afbrot á borð við alvarleg svik gagnvart lánastofnunum með það fyrir augum að koma í veg fyrir að slík afbrot endurtaki sig. Með hliðsjón af einu af meginmarkmiðum tilskipunarinnar, um að tryggja neytendum innan EES aðgengi að almennum greiðslureikningi, verður ekki séð að öll hegningarlagabrot geti réttlætt að lánastofnun synji neytanda um aðgang að greiðslureikningi, þar að auki þegar brot hefur ekki verið sannað. Varðandi heimild til uppsagnar almenns greiðslureiknings vegna varna gegn peningaþvætti bendir ráðuneyti á að 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins nær yfir þau tilvik, en samkvæmt ákvæðinu er lánastofnun heimilt að segja upp rammasamningi ef neytandi hefur notað greiðslureikning í ólögmætum tilgangi af ásettu ráði. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið ráðuneytisins.

Breytingartillaga.
Gildistaka frumvarpsins (29. gr.).
    Í 29. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja var lagt til að gildistöku laganna yrði frestað til 1. mars 2023, svo að greiðsluþjónustuveitendur hefðu hæfilegt svigrúm til þess að innleiða lögin og reglur Seðlabanka Íslands sem settar yrðu á grundvelli þeirra. Samkvæmt frumvarpinu skal Seðlabanki Íslands birta reglur með hugtakalista yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningi. Greiðsluþjónustuveitendum ber síðan að útfæra og birta gjaldskrá sem skal vera í samræmi við hugtakalistann. Samtökin gera ráð fyrir að reglur Seðlabankans verði í fyrsta lagi birtar skömmu eftir að lögin taka gildi. Greiðsluþjónustuveitendur þurfi ráðrúm til þess að útfæra gjaldskrár greiðslureikninga en það kalli á drjúga tæknilega vinnu. Leggja samtökin því til að lögin öðlist gildi 1. mars 2023. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er bent á að frumvarp til laga um greiðslureikninga hafi verið í smíðum með hléum frá því síðla árs 2015 og hafi Samtök fjármálafyrirtækja haft aðkomu að þeirri vinnu. Frumvarp þetta sé nú endurflutt að mestu óbreytt frá 152. löggjafarþingi. Seðlabanki Íslands hafi nú þegar birt á vefsíðu sinni umræðuskjal og drög að reglum um staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlit og gjaldskrá og staðlaða hugtakanotkun yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum og rann umsagnarfrestur út 9. desember sl. Samkvæmt fjármála- og efnahagsráðuneytinu er fyrirhugað að reglurnar verði settar og taki gildi frá sama tíma og lög um greiðslureikninga. Að mati ráðuneytisins var því ekki þörf á að fresta gildistöku laganna og allir hagaðilar ættu að geta þegar hafið undirbúning innleiðingar þeirra.
    Í ljósi þess að ekki náðist að ljúka þinglegri meðferð málsins fyrir 1. janúar 2023 er óhjákvæmilegt að leggja til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Þótt meiri hlutinn taki að vissu leyti undir með ráðuneytinu að svigrúm greiðsluþjónustuveitenda til þess að undirbúa innleiðingu nýrra reglna hafi verið töluvert telur meiri hlutinn að veita verði lágmarkssvigrúm til innleiðingar nýrra reglna frá samþykkt laganna og þar til þau öðlast gildi. Leggur meiri hlutinn því til að lögin taki gildi 1. mars 2023.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „1. janúar 2023“ í 29. gr. komi: 1. mars 2023.

    Guðbrandur Einarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. janúar 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Kristrún Frostadóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.