Ferill 555. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 955  —  555. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Miklar breytingar hafa verið gerðar á stofnanaskipan ráðuneytisins undanfarinn áratug. Árið 2010 voru níu skattstjóraembætti lögð niður og starfsemi þeirra felld undir embætti ríkisskattstjóra. Umsýslu jarðeigna ríkisins var skipað með fasteignaumsýslu þegar Ríkiseignir voru settar á fót 2015. Árið 2019 var innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu færð frá tollstjóra til ríkisskattstjóra og í upphafi árs 2020 voru embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra sameinuð undir nafninu Skatturinn. Árið 2021 var svo embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins lagt niður og verkefni þess sameinuð Skattinum. Í byrjun árs 2021 sameinaðist Fjármálaeftirlitið Seðlabanka Íslands og haustið 2021 færðist umsýsla verkefna Ríkiseigna til Framkvæmdasýslu ríkisins og í framhaldi var heiti stofnunarinnar breytt í Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir (FSRE). Eftirtaldar stofnanir hafa verið lagðar niður með þessum sameiningum: Skattstofan í Reykjavík, Skattstofa Vesturlands, Skattstofa Vestfjarða, Skattstofa Norðurlands vestra, Skattstofa Norðurlands eystra, Skattstofa Austurlands, Skattstofa Suðurlands, Skattstofa Vestmannaeyja, Skattstofa Reykjaness, Skattrannsóknarstjóri ríkisins, Tollstjórinn í Reykjavík, Fasteignir ríkissjóðs og Fjármálaeftirlitið.
    Eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnanakerfi ríkisins þá þóttu svör ráðuneytis skýrt dæmi um að ráðuneyti vinni markvisst að hagræðingu meðal undirstofnana sinna, bæði með sameiningar og aukna samvinnu að markmiði. Þrátt fyrir að ráðuneytið sé ekki um þessar mundir með frekari sameiningu stofnana sem undir það heyra í skoðun þá leitar ráðuneytið ávallt leiða til að auka hagræðingu og skilvirkni í starfsemi sinni og hefur hvatt stofnanir sínar til samvinnu. Nýverið fluttu FSRE og Ríkiskaup í sameiginlegt húsnæði og er skrifstofa stofnananna fyrsta svokallaða deiglan, þar sem tvær eða fleiri ríkisstofnanir sameinast um aðstöðu. Þannig skapast hagræði og samlegð, auk þess sem aukin tækifæri skapast til þekkingarmiðlunar, samstarfs og nýsköpunar þvert á stofnanir. Á vormánuðum munu Skatturinn og Fjársýsla ríkisins flytja í sameiginlega byggingu og standa væntingar til þess að með því skapist aukið tækifæri fyrir samvinnu þessara tveggja stofnana. Þá sér ráðuneytið tækifæri í því að stofnanir þess sameini krafta sína í þjónustu og rekstri upplýsingatæknimála, m.a. með því að sam- og endurnýta þróun upplýsingatæknilausna. Samhliða er unnið að auknum gagnasamskiptum milli stofnana sem mun auðvelda sjálfvirknivæðingu ferla. Er undirbúningur að þessu samstarfi hafinn.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Ríkisendurskoðun birti í febrúar sl. skýrslu um stofnanakerfi ríkisins. Megintillaga þeirrar skýrslu er að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til framkominna tillagna um einföldun stofnanakerfisins á undanförnum áratug. Ber þar helst að nefna tillögur verkefnisstjórnar um breytingar á stofnanakerfi ríkisins frá 2015 sem skipuð var fulltrúum allra ráðuneyta. Í framhaldi af skýrslunni 2015 var ráðuneytinu falið að vinna að áframhaldandi útfærslu tillagna verkefnisstjórnarinnar. Hluti þeirra er þegar kominn til framkvæmda og má nefna að með lögum um opinber fjármál var skerpt á yfirstjórnunarhlutverki ráðuneyta gagnvart stofnunum.
    Í kjölfar ábendinga Ríkisendurskoðunar var skipaður starfshópur um einföldun á stofnanakerfi ríkisins á vegum ráðherranefndar um ríkisfjármál. Ráðuneytið leiðir vinnuna en í starfshópnum sitja einnig fulltrúar forsætisráðuneytis og innviðaráðuneytis. Starfshópnum var falið að vinna að undirbúningi á einföldun stofnanakerfis ríkisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara.
    Áherslur ráðuneytisins á sviði umbóta í ríkisrekstri hafa það að markmiði að auka gæði þjónustu, sveigjanleika og hagkvæmni með sameiginlegum innviðum, svo sem fjárhagskerfum, áætlanakerfum, eignaumsýslu, launa- og mannauðsþjónustu, sameiginlegum innkaupum og sameiginlegum stafrænum innviðum. Verkefnastofa um Stafrænt Ísland er hluti af ráðuneytinu. Stafrænt Ísland vinnur að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning og gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari. Öll verkefni sem unnin eru á vegum Stafræns Íslands miða að því að auka hagræði og skilvirkni hjá stofnunum ríkisins.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Átta stofnanir heyra undir ráðuneytið og tvær ráðuneytisstofnanir.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Færri en 50 starfsmenn starfa hjá fjórum af átta stofnunum ráðuneytisins.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Sjá svör við fyrri tölul. fyrirspurnar.