Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 959  —  570. mál.
Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um skráningu þyrlna.


     1.      Hversu margar þyrlur hafa verið skráðar í loftfaraskrá á Íslandi, að undanskildum opinberum loftförum, svo sem þyrlum Landhelgisgæslunnar, frá árinu 2015 til dagsins í dag?
    Átta þyrlur hafa verið skráðar í loftfaraskrá Samgöngustofu frá árinu 2015.

     2.      Hver er meðalafgreiðslutími vegna slíkra skráninga? Einnig er óskað upplýsinga um stysta og lengsta afgreiðslutíma á sama árabili.
    Afgreiðslutími skráninga í loftfaraskrá er yfirleitt nokkrar klukkustundir eftir að fullnægjandi gögnum hefur verið skilað inn. Auk þess þarf að liggja fyrir að loftfarið hafi verið afskráð í afskráningarríki. Mismunandi er hvort kalla þurfi eftir frekari gögnum eftir að umsókn hefur verið móttekin. Stysti tíminn sem það tók að skrá þyrlu í loftfaraskrá hér á landi á árunum 2015–2022 var einn dagur frá því að umsókn barst. Lengsti tíminn var um þrír mánuðir.

     3.      Hversu margar þyrlur eru skráðar erlendis en hafa starfsleyfi hér á landi?
    Til að stunda flugrekstur hér á landi þarf flugrekstrarleyfi, annaðhvort útgefið af Samgöngustofu eða flugmálayfirvaldi í öðru EES-ríki. Engar þyrlur skráðar í loftfaraskrá erlendis eru skráðar á íslenskt flugrekstrarleyfi. Þá eru þyrlur erlendra aðila ekki skráðar í loftfaraskrá hér á landi.
    Rétt er að geta þess að dæmi eru um að evrópskir flugrekstraraðilar komi hingað til lands með þyrlur skráðar á erlenda loftafaraskrá. Þær eru síðan notaðar hér í atvinnuskyni, t.d. við verkefni tengd þyrluskíðaflugi eða almennu útsýnisflugi. Flugrekandi sem hyggur á slíkt hér á landi þarf að sækja um svæðisbundna heimild til flugmálayfirvalds í sínu ríki. Kröfur til slíkrar starfrækslu eru byggðar á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða flugrekstur samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.
    Evrópskum flugrekendum sem nýta sér þennan möguleika ber hvorki skylda til að skrá slík loftför í íslenska loftfaraskrá né tilkynna starfrækslu þeirra til Samgöngustofu, nema í tilvikum þegar um er að ræða sértæka starfrækslu, sbr. nánari umfjöllun hér að aftan. Þá ber Samgöngustofu ekki að skrá erlenda flugrekstraraðila sem starfa hér á landi. Samgöngustofa kemur samkvæmt þessu ekki að starfrækslu evrópskra flugrekenda hér á landi nema í tilvikum þegar um er að ræða áhættubundna sértæka starfrækslu, t.d. skíðaflug. Í þeim tilvikum er um að ræða samráð milli Samgöngustofu og flugmálayfirvalds í viðkomandi skráningarríki.
    Engin dæmi eru um að flugrekendur utan aðildarríkja EES stundi flugrekstur hér á landi.

     4.      Er ráðherra kunnugt um þá umræðu að skráning þyrlna sé fljótlegri og hagkvæmari erlendis, þrátt fyrir að þær séu ætlaðar fyrir starfsemi innlendra fyrirtækja og einstaklinga innan íslenskrar lofthelgi? Kemur til álita af hálfu ráðherra að bregðast við því á einhvern hátt?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um að hagkvæmara og fljótlegra sé að skrá þyrlur í erlendar loftfaraskrár en þá íslensku. Skráning þyrlna í loftfaraskrár í Evrópu fer eftir reglum hvers ríkis fyrir sig og því má gera ráð fyrir að mismunandi kröfur séu gerðar og að mismunandi tíma taki að fá loftfarið skráð. Kostnaður fer eftir gjaldskrá hvers ríkis fyrir sig.
    Gjald fyrir skráningu loftfars í íslenska loftfaraskrá fer eftir gjaldskrá Samgöngustofu og fer heildarkostnaður að miklu leyti eftir gæðum umsóknar og þeirra gagna sem skilað er inn með umsókn og þar með hversu langan tíma tekur að afgreiða hana. Kæmi í ljós að dýrara og tímafrekara sé að skrá loftför hér á landi en í öðrum ríkjum Evrópu gæfi það tilefni til nánari skoðunar á því í hverju sá munur liggur og hvort tilefni sé til breytinga á skráningarferlinu hér á landi.