Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 988  —  625. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996 (heimild til nafnabreytinga).

Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Halldór Auðar Svansson, Halldóra Mogensen.


1. gr.

    Í stað orðanna „einu sinni nema sérstaklega standi á“ í 17. gr. laganna kemur: sé meira en eitt ár liðið frá síðustu nafnabreytingu.

2. gr.

    Í stað orðanna „aðeins fengið slíka breytingu gerða einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi“ í 20. gr. laganna kemur: fengið slíka breytingu gerða sé meira en eitt ár liðið frá síðustu nafnabreytingu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lög um mannanöfn hérlendis hafa frá upphafi markast af íhaldssemi. Fólk getur haft ýmsar ástæður fyrir því að vilja breyta eiginnafni, millinafni eða kenninafni sínu. Það skilyrði að aðeins einu sinni sé hægt að breyta nafni á lífsleiðinni, nema sérstaklega standi á að mati stjórnvalda, getur verið afar íþyngjandi. Forsendur til breytingar á nafni gætu hafa breyst frá því að breytingin var gerð.
    Með frumvarpi þessu er m.a. komið til móts við þann sífellt stækkandi hóps fólks sem hefur fengið kynskráningu sína leiðrétta í Þjóðskrá og fær þannig rýmri möguleika til að aðlaga nafn sitt að kynvitund sinni. Vel má sjá fyrir sér að fólk fresti breytingunni vitandi það að slíkt megi einungis gera einu sinni. Jafnframt er það sjálfsagður réttur borgara í frjálsu samfélagi að ráða eigin nafni, án þess að það sé háð mati stjórnvalda hvort sérstök ástæða sé til að breyta því.
    Helstu rökin fyrir því að nafnabreytingar séu háðar svo ströngum skilyrðum eru að forðast rugling eða misskilning. Hins vegar lifum við á tækniöld þar sem breytingar sem slíkar ganga yfirleitt hratt og auðveldlega fyrir sig í helstu kerfum. Þar að auki eru allir íbúar landsins einkenndir með kennitölu sem héldist óbreytt. Til að tryggja hæfilegt svigrúm til breytinga í kerfum leggja flutningsmenn til að það þurfi að líða a.m.k. eitt ár á milli nafnabreytinga ef fólki snýst hugur. Ólíklegt er að mikið verði um það að fólk skipti um nafn oftar en einu sinni, en í sumum tilvikum getur það valdið miklum ama að annaðhvort geta ekki breytt nafni sínu eða þurfa að bíða eftir breytingu í lengri tíma. Því er það mat flutningsmanna að þessi breyting sé besta lendingin með tilliti til allra þátta.