Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 992  —  629. mál.
Beiðni um skýrslu


frá mennta- og barnamálaráðherra um stöðu barna innan trúfélaga.

Frá Steinunni Þóru Árnadóttur, Orra Páli Jóhannssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Jódísi Skúladóttur, Bjarna Jónssyni, Guðbrandi Einarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Sigmari Guðmundssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Dagbjörtu Hákonardóttur og Gísla Rafni Ólafssyni.

    
    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á stöðu barna innan trú- og lífsskoðunarfélaga. Í skýrslunni verði fjallað um:
     1.      Stöðu barna innan trúfélaga með tilliti til trúfrelsis, sbr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
     2.      Áhrif þess að alast upp við afmarkaða menningu innan trú- eða lífsskoðunarfélags, sem getur takmarkað samfélagslega þátttöku vegna trúarlegra áherslna.
     3.      Þær félagslegu hindranir sem börn og ungmenni kunna að mæta óski þau að yfirgefa trú- eða lífsskoðunarfélög.
     4.      Hvort tilefni sé til að halda sérstaklega utan um kvartanir og tilkynningar vegna atvika sem eiga sér stað innan trú- og lífsskoðunarfélaga hjá umboðsmanni barna, sýslumanni, félags- og skólaþjónustunni og/eða öllum/öðrum þeim aðilum sem sjá um slíka vöktun.
     5.      Hvort ástæða sé til þess að haldið sé sérstaklega utan um eftirlit sem lýtur að æskulýðsstarfi innan trú- og lífsskoðunarfélaga með börnum og ungmennum.

Greinargerð.

    Þessi beiðni var lögð fram á síðasta þingi (þingskjal 739, 516. mál 152. löggjafarþings) og er nú endurflutt óbreytt.
    Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru 1. janúar 2021 78.316 börn undir 18 ára aldri skráð í trú- og lífsskoðunarfélög. Þar af voru 12.220 skráð í trú- og lífsskoðunarfélög sem höfðu fengið leyfi ráðherra önnur en Þjóðkirkjuna en 13.988 voru í óskráðum trú- eða lífsskoðunarfélögum. Utan trú- og lífsskoðunarfélaga stóðu 4.120. Yfirgnæfandi meiri hluti barna undir 18 ára aldri er því skráður í trú- og lífsskoðunarfélög. Á síðustu árum hefur fjöldi fyrrverandi meðlima ýmissa trú- og lífsskoðunarfélaga stigið fram og sagt sögu sína. Þar er dregin upp dökk mynd sem varðar misbeitingu valds innan trú- og lífsskoðunarfélaga. Í mörgum tilfellum er um börn og ungmenni að ræða. Tilefni þessarar skýrslubeiðni er því ærið. Mikilvægt er að trúfrelsi verði ekki að skálkaskjóli sem ógnar almennri velferð og öryggi barna. Hér er vísað til þeirrar almennu reglu að frelsisréttindi takmarkist af réttindum annarra manna. Rétt er að árétta að beiðni þessari er ekki beint að tilteknum trú- eða lífsskoðunarfélögum heldur er um að ræða ríka almannahagsmuni og hlutverk ríkisvaldsins með tilliti til velferðar og öryggis barna.
     1.      14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, kveður skýrt á um trúfrelsi barna. Á vef umboðsmanns barna hefur barnasáttmálinn svokallaði verið styttur og settur upp á einföldu máli. Þar segir um skoðana- og trúfrelsi: „Börn eiga rétt á frjálsri hugsun og að velja sér trúarbrögð og eigin hugmyndir, svo lengi sem það hindrar ekki aðra í að njóta réttinda sinna. Í uppeldi geta foreldrar leiðbeint börnum sínum um hvernig megi nýta þessi réttindi að fullu.“ Þrátt fyrir skýr lagaákvæði um trúfrelsi barna telja skýrslubeiðendur ástæðu til að kannað verði hvort til staðar séu hindranir sem skerði réttindi ungmenna og barna í þessu tilliti.
     2.      Mikilvægt er að kanna áhrif þess á börn að alast upp við afmarkaða menningu innan trú- og lífsskoðunarfélaga með tilliti til félagslegrar einangrunar og almennrar velferðar þeirra.
     3.      Umboðsmaður barna hefur bent á að skv. 1. mgr 8. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, geta einstaklingar 16 ára og eldri tekið ákvörðun um að ganga í eða segja sig úr trúfélagi. Þá skal leita álits barns sem hefur náð 12 ára aldri við breytingu á skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag, skv. 3. mgr. 8. gr. sömu laga. Þrátt fyrir þessar lagastoðir telja skýrslubeiðendur eðlilegt að kanna hvort félagslegar hindranir (svo sem ógnarstjórn og ótti við útskúfun) og sálfræðileg áhrif geti valdið því að börn skrái sig ekki úr trú- og lífsskoðunarfélögum.
     4.      Mikilvægt er að skoða hvort umgjörð, verkferlar og verkfæri yfirvalda nái utan um umfang kvartana, tilkynninga um brot eða misjafnt atferli innan trú- og lífsskoðunarfélaga til þess að varpa ljósi á umfang þess og áhrif á börn og ungmenni og hvort og þá hvernig bregðast þurfi við.
     5.      Þrátt fyrir að stór hluti þeirra sem skráð eru í trúfélög séu ekki reglulegir iðkendur eða þátttakendur í starfi trú- eða lífsskoðunarfélaga er umfang æskulýðsstarfs umtalsvert. Mikilvægt er að metið verði hvort þörf sé á að gera úttektir sem varða gæði starfsins og hvort eðlilegt sé að gera ríkari kröfur til æskulýðsstarfs sem byggist á andlegum grunni.