Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1003  —  517. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá innviðaráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.
    Skipað hefur verið í tvö embætti að undangenginni auglýsingu frá 28. nóvember 2021, embætti skrifstofustjóra sveitarfélaga- og byggðamála og embætti skrifstofustjóra húsnæðis- og skipulagsmála..
    Tengt breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta var þremur starfsmönnum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis boðið starf í ráðuneytinu með vísan til 4. mgr. 21. gr. laga nr. 115/2011. Auk þess færðist starfsmaður frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti varanlega til ráðuneytisins á grundvelli 2. mgr. 21. gr. laga nr. 115/2011 og starfsmaður Skipulagsstofnunar færðist tímabundið til ráðuneytisins á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Ákvæði um auglýsingu starfa á ekki við um ofangreind störf.
    Ráðið hefur verið í fimm störf hjá ráðuneytinu að undangenginni auglýsingu, þar af tvö tímabundin.
    Tveir sérfræðingar hafa verið ráðnir tímabundið til afleysinga vegna sumarleyfa, veikinda og fæðingarorlofs en ekki er skylt að auglýsa þau störf skv. 2. gr. reglna um auglýsingar lausra starfa.
    Ný störf í ráðuneytinu frá 28. nóvember 2021 tengjast nýjum málaflokkum húsnæðis- og skipulagsmála en málaflokkunum var áður sinnt í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í þeim skilningi er ekki um ný störf að ræða innan Stjórnarráðsins. Embætti skrifstofustjóra húsnæðis- og skipulagsmála er ný staða en auk þess hefur verið ráðið í þrjú störf sérfræðinga. Eitt þeirra er mannað með tímabundnum vistaskiptum frá Skipulagsstofnun, eitt með tilfærslu innan ráðuneytis og ráðið var í eitt starf að undangenginni auglýsingu.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Á tímabilinu frá 28. nóvember 2021 hafa tvö embætti verið auglýst og ráðið í fimm störf að undangenginni auglýsingu. Sundurliðun má sjá í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum innviðaráðuneytis samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
    Á málefnasviði samgangna hefur stöðugildum fjölgað um eitt frá árinu 2017. Á málefnasviði sveitarfélaga og byggðamála hafa stöðugildi staðið í stað.
    Hafa ber í huga að árið 2017 var innanríkisráðuneyti skipt upp í dómsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Þær og fleiri breytingar frá þeim tíma hafa haft áhrif á innra skipulag ráðuneytisins og umfang verkefna á málefnasviðum sem flækja samanburð sem þennan.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá innviðaráðuneyti á kjörtímabilinu?

    Með málaflokkum húsnæðis- og skipulagsmála færðust þrír starfsmenn til innviðaráðuneytisins en auk þess færðist fjárveiting fyrir 1,5 stöðugildi frá ráðuneytum sem fóru áður með málaflokkana. Gert er ráð fyrir að full mönnun þessara málaflokka telji sjö stöðugildi. Fjölgun starfsmanna á sviði húsnæðismála er 2,5 stöðugildi. Launakostnaður með launatengdum gjöldum er áætlaður 33,2 millj.kr. á ári eða 132,8 millj.kr. á fjögurra ára tímabili. Ekki er gert ráð fyrir viðbótarfjárheimild til að mæta þessum kostnaði.