Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1010  —  459. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Högna Elfari Gylfasyni um losun kolefnis og landbúnað.


     1.      Mun ráðherra beita sér fyrir eflingu sauðfjárræktar í landinu og koma þannig í veg fyrir fyrirsjáanlegan skort á lambakjöti og frekara byggðahrun en þegar er orðið?
    Í búvörusamningum er kveðið á um stuðning ríkisins við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Samkvæmt fjárlögum ársins 2022 renna 5,5 milljarðar króna til sauðfjárræktar í gegnum samning um starfsskilyrði greinarinnar.
    Á árinu 2022 voru einnig ákvarðaðar sérstakar greiðslur til bænda að fjárhæð tæplega 2,5 milljarðar króna samkvæmt tillögum spretthóps sem ráðherra setti á laggirnar vegna alvarlegrar stöðu í landbúnaði, m.a. vegna áhrifa stríðsins í Úkraínu. Enn fremur var í fjárlögum 2022 sérstakt 700 millj. kr. framlag til að aðstoða bændur við að mæta miklum áburðarverðshækkunum sem komnar voru til áður en stríðið í Úkraínu hófst. Talsverður hluti af þessum fjármunum rann til sauðfjárbænda, m.a. í formi álags á gæðastýringargreiðslur. Framangreindar aðgerðir miða að því að styðja við og treysta landbúnaðarframleiðslu um land allt í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.
    Á árinu 2023 er fyrirhuguð seinni endurskoðun búvörusamninga, þar á meðal sauðfjársamnings, þar sem staða greinarinnar verður metin í heild. Við endurskoðun búvörusamninga verður lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því t.d að efla innlenda matvælaframleiðslu.

     2.      Hvaða útreikninga styðst íslenska ríkið við varðandi kolefnisspor landbúnaðar í kolefnisbókhaldi Íslands?
    Stuðst er við útreikninga Umhverfisstofnunar fyrir losunarbókhald Íslands. Verksvið Umhverfisstofnunar og losunarbókhald Íslands heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

     3.      Hvaða íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á losun kolefnis vegna framleiðslu kindakjöts?
    Losunarbókhald Umhverfisstofnunar byggir m.a. á gripafjölda en langstærsti hluti losunar er vegna iðragerjunar gripanna. Líkt og fram kemur í 2. tölul. fyrirspurnarinnar heyrir losunarbókhald Íslands undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar sem tengjast þessu efni. Ráðuneytið býr ekki yfir heildaryfirliti um þær. Rétt þykir þó að nefna sérstaklega tvær greiningar sem unnar voru fyrir stjórnvöld, annars vegar af Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2016 á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði og hins vegar greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá fimm býlum sem unnin var af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins árið 2018.

     4.      Hvernig er losun kolefnis reiknuð á hvert kíló framleidds kindakjöts á Íslandi?
    Losun á hvert kíló framleidds kindakjöts á Íslandi hefur ekki verið reiknað af opinberum aðilum. Ráðuneytinu er kunnugt um að kolefnissporið hafi verið áætlað m.a. fyrir Landssamtök sauðfjárbænda og birt af samtökunum í skýrslu frá árinu 2017.