Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1012  —  328. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um peningamarkaðssjóði.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Jónu Björk Guðnadóttur og Birgi Ottó Hillers frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Frumvarpið var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi (570. mál) og barst þá umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um peningamarkaðssjóði. Felur það í sér innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 frá 14. júní 2017, um peningamarkaðssjóði, í íslenskan rétt. Meginefni frumvarpsins er því lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, um eftirlitsheimildir lögbærra yfirvalda, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, o.fl. Einnig er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261 frá 15. desember 2021 sem breytir tilskipun 2009/65/EB að því er varðar notkun rekstrarfélaga á lykilupplýsingaskjölum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja við umfjöllun málsins á 152. löggjafarþingi komu fram athugasemdir þess efnis að engir sjóðir væru reknir hér á landi sem gætu fallið undir skilgreiningu frumvarpsins og reglugerðarinnar á peningamarkaðssjóðum og að nánast ómögulegt sé að slíkir sjóðir verði stofnaðir í íslenskum krónum. Athugasemdirnar voru ítrekaðar af hálfu samtakanna í umsögn þeirra við umfjöllun málsins á yfirstandandi löggjafarþingi. Í umsögn Seðlabanka Íslands er aftur á móti bent á að hér á landi séu starfræktir sjóðir sem kunni að falla undir skilgreininguna, telur Seðlabankinn því mikilvægt að rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða meti vandlega hvort sjóðir í þeirra rekstri kunni að falla undir reglugerðina.
    Við framlagningu frumvarpsins á yfirstandandi löggjafarþingi var áhrifamat í greinargerð þess uppfært og bætt við umfjöllun um hugsanleg áhrif á aðila sem reka sjóði sem kunna að falla undir skilgreininguna. Fram kemur að þau áhrif séu afar takmörkuð til lengri tíma litið.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261 (1. og 2. tölul. 17. gr.).
    Hinn 14. desember 2022 lagði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, fjöldatakmörk vistvænna ökutækja o.fl.) (579. mál) þar sem lagðar voru til ákveðnar breytingar á lögum sem nauðsynlegt þótti að öðluðust gildi 1. janúar 2023. Meðal þess sem var lagt til voru breytingar á lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, sem eru samhljóða þeim breytingum sem lagðar eru til í a-lið 1. tölul. og 2. tölul. 17. gr. frumvarpsins. Frumvarpið var samþykkt sem lög (sbr. lög nr. 128/2022) og fela 7. og 8. gr. þeirra í sér innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/2261. Því leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að a-liður 1. tölul. og 2. tölul. 17. gr. frumvarpsins falli brott.
    Að auki leggur meiri hlutinn til breytingu sem er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 7. mgr. 2. gr. bætist: 970/2021.
     2.      Í stað orðanna „stofnuninni“ í 1. málsl. 2. mgr. og „stofnunin“ í 1. málsl. 4. mgr. 14. gr. komi: því; og: það.
     3.      3. mgr. 16. gr. falli brott.
     4.      A-liður 1. tölul. og 2. tölul. 17. gr. falli brott.

Alþingi, 26. janúar 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Kristrún Frostadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.