Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1014  —  564. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Síðastliðið sumar kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, verkefni sem felst í að greina tækifæri við endurskipulagningu á stofnanakerfi ráðuneytisins.
    Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Vinna við að greina tækifæri til endurskipulagningar eða sameiningar stofnana ráðuneytisins hófst síðastliðið sumar og lauk með greinargerð og tillögum stýrihóps (frumathugun) til ráðherra í desember 2022. Gagnaöflun og undirbúningur tillagna er byggður á vinnufundum, umræðum og þróun verkefnisins með þéttri aðkomu forstöðumanna allra stofnana ráðuneytisins, öðrum stjórnendum, sérfræðingum stofnana og starfsfólki ráðuneytisins.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Stofnanir ráðuneytisins eru 13 talsins með um 530 ársverk á ríflega 40 starfsstöðvum víða um land. Um 61% starfanna eru á höfuðborgarsvæðinu.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Tíu af stofnunum ráðuneytisins erum með færri en 50 starfsmenn en þær stofnanir sem eru með fleiri en 50 starfsmenn eru Veðurstofa Íslands, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Já.