Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1059  —  232. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna hjá Stjórnarráði Íslands.


    Hér er lagður sá skilningur í fyrirspurnina að hún snúi að störfum á aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fremur en öllum stofnunum ráðuneytisins. Einnig er rétt að nefna að með hugtakinu stöðugildi er átt við ígildi fullra starfa í dagvinnu í viðkomandi mánuði, þ.e. tvö 50% störf teljast sem eitt stöðugildi, og með því teljast ekki starfsmenn í launalausu leyfi eða fæðingarorlofi sem ekki eru á launum.

     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

    Ráðið hefur verið í sjö störf á aðalskrifstofunni frá því að núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir tók til starfa. Þar af er um að ræða eina skipun tímabundið í fimm ár í embætti skrifstofustjóra Kjara- og mannauðssýslu ríkisins sem starfrækt er sem hluti af aðalskrifstofu ráðuneytisins. Þá eru fjögur starfanna ótímabundnar fastráðningar en tvö tímabundin. Ekki er um ný störf að ræða heldur hafa jafn margir starfsmenn látið af störfum.
    Auk þess er rétt að geta þess að á vegum ráðuneytisins starfar Verkefnastofa um Stafrænt Ísland sem annast um ráðgjöf og innleiðingu á stafrænum tæknilausnum fyrir stofnanir allra ráðuneyta. Hjá verkefnastofunni var ráðið í þrjú tímabundin störf á tímabilinu og var ekki heldur um ný störf að ræða. Af þessu leiðir að ekki hefur verið ráðið í nein ný störf hjá ráðuneytinu frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum 28. nóvember 2021.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Fjögur störf hjá aðalskrifstofunni voru auglýst á tímabilinu, þar af eitt embættisstarf. Einn starfsmaður fluttist milli ráðuneyta án auglýsingar og ráðið var tímabundið í tvær stöður vegna forfalla.

     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti við skipan nýrrar ríkisstjórnar í nóvember 2017 samanborið við fjölda stöðugilda í september 2022? Hafi orðið breyting á málefnasviði ráðuneytisins á þessum tíma er óskað eftir að tilgreind sé breyting á starfsmannafjölda með tilliti til þess.
    Stöðugildi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Kjara- og mannauðssýslu ríkisins voru 86 talsins í nóvember 2017. Í september 2022 hafði stöðugildunum fækkað í 83,4.
    Í þessu sambandi má einnig nefna að Verkefnastofa um Stafrænt Ísland tók til starfa á vegum ráðuneytisins á árinu 2018, sem starfar að sameiginlegum stafrænum lausnum í þjónustu á vegum allra ráðuneytanna, og eru núna 12 stöðugildi hjá verkefnastofunni.
    Breytingar á málaflokkum sem heyra undir ráðuneytið hafa ekki haft bein áhrif á fjölda starfsmanna á tímabilinu. Hins vegar skal þess látið getið að akstursþjónusta við ráðherra var á tímabilinu flutt til Umbru, þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, og við það færðust ígildi tveggja stöðugilda í nóvember 2017 frá aðalskrifstofunni.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Ekki hefur átt sér stað fjölgun starfsfólks hjá aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tímabilinu frá nóvember 2017 til september 2022 heldur hefur störfum fækkað um þrjú, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar, og hefur launakostnaður því ekki hækkað af þeim sökum.