Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1084  —  327. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2021.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin fékk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þau Sigurð Helga Helgason, Kristin Hjört Jónasson og Elínu Guðjónsdóttur, auk Ingþórs Karls Eiríkssonar frá Fjársýslu ríkisins, til að kynna frumvarpið og svara spurningum nefndarmanna um efni þess. Einnig kynntu Guðmundur Björgvin Helgason, Hinrik Þór Harðarson, Ingi Kristinn Magnússon og Birgir Finnbogason frá Ríkisendurskoðun skýrslu stofnunarinnar um endurskoðun ríkisreiknings 2021 og svöruðu spurningum um efni hennar.
    
Efni frumvarpsins.
    Frumvarpið er einfalt og felur í sér að Alþingi staðfesti ríkisreikning ársins 2021. Frumvarpið byggist á 58. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, þar sem fram kemur að ráðherra skuli leggja fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar á ríkisreikningi. Í greinargerð frumvarpsins skal fjalla um niðurstöðutölur reikningsins og gera grein fyrir frávikum tekna, útgjalda og lánamála frá samþykktum heimildum Alþingis.

Áritun ríkisendurskoðanda.
    Ríkisendurskoðun hefur endurskoðað reikninginn samkvæmt lögnum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings, nr. 46/2016, og í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila (ISSAI). Ríkisendurskoðandi hefur áritað reikninginn án fyrirvara en með ábendingu um stöðu innleiðingar á IPSAS og að tímabært sé að huga að endurskoðun laga nr. 123/2015 vegna nokkurra atriða.
    Þá kemur fram að séryfirlit 1–16, sem koma fram í seinni hluta ríkisreiknings, séu ekki endurskoðuð.
    Samkvæmt heimild í 52. gr. laga nr. 123/2015 frestaði reikningsskilaráð ríkisins fyrir A-hluta innleiðingu nokkurra staðla, sbr. skýringu nr. 2 í ríkisreikningi 2021.
    Að áliti Ríkisendurskoðunar má bæta upplýsingar í ríkisreikningi með ítarlegri skýringum til að uppfylla betur ákvæði einstakra staðla sem hafa verið innleiddir.
    Frestað er innleiðingu á fimm stöðlum, sem er sama eins og var í ríkisreikningi árið áður. Um er að ræða:
    IPSAS 13 – um leigusamninga.
    IPSAS 35 – um samstæðureikningsskil.
    IPSAS 36 – um fjárfestingar í hlutdeildarfélögum og sameiginlegum verkefnum að hluta.
    IPSAS 37 – um samrekstur (e. joint arrangement).
    IPSAS 38 – um upplýsingagjöf um hagsmuni í öðrum einingum.

Niðurstöðutölur ríkisreiknings 2021.

    Afkoman reyndist neikvæð um tæpa 130 ma.kr. sem er heldur skárri afkoma en árið áður þegar hún reyndist neikvæð um 145 ma.kr. Árin þar á undan, þ.e. fyrir áhrif heimsfaraldursins, var afkoman jákvæð á hverju ári.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Matsbreyting eigna skýrist af því að eignarhlutir í Íslandsbanka og Landsbanka eru nú metnir á innra virði samkvæmt ársreikningi þeirra fyrir árið 2021 en voru í upphafi árs metnir á 80% af innra virði.

Reikningsskilareglur.
    Í greinargerð frumvarpsins er gerð grein fyrir mismunandi reikningsskilareglum þar sem 1. gr. fjárlaga er sett fram á alþjóðlegum hagskýrslustaðli (GFS) og er því ekki sambærileg við afkomu ríkisreiknings sem byggist á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IPSAS). Gerð er grein fyrir helstu frávikum og birt tafla þar sem fram kemur að heildarafkoman samkvæmt GFS-staðli er neikvæð um 224,9 ma.kr. árið 2021. Það er um 100 ma.kr. betri afkoma en áætlað var í fjárlögum ársins, sem skýrist einkum af hærri skatttekjum en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.

Eftirfylgni nefndarinnar vegna endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Fjárlaganefnd hefur yfirfarið endurskoðunarskýrsluna og unnið úr henni fjölmargar spurningar sem verða lagðar fyrir Ríkisendurskoðun, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Fjársýslu ríkisins, Hagstofuna og Vegagerðina. Væntanleg svör við þeim nýtast við ítarlegri greiningar á upplýsingum og fjárhagsstærðum sem fram koma í ríkisreikningi, en einnig til að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar sem og ábendingum sem hafa orðið til hjá fjárlaganefnd Alþingis og munu nýtast við frekari vinnu nefndarinnar. Markmiðið er að styrkja innra eftirlit ríkisins og tryggja að framkvæmdarvaldið bregðist við ábendingunum og það leiði til hagkvæmari, skilvirkari og markvissari reksturs ríkisins.

Skýringar og frávik við einstaka liði.
    Í greinargerðinni er greint frá helstu frávikum frá áætlunum bæði tekna, gjalda og þróunar skulda. Nefndin mun kalla eftir ítarlegri skýringum í nokkrum tilvikum. Það á t.d. við um þróun skulda sem eru 50,5 ma.kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
    Einnig er ástæða til að greina betur skýringar vegna afskriftar skattkrafna, sérstaklega vegna tekjuskatts einstaklinga að fjárhæð 12,7 ma.kr. auk nokkurra frávika málefnasviða, svo sem vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu.
    Þá kemur fram að mikið vantar upp á að fjárfestingarheimildir hafi verið nýttar að fullu. Ekki koma fram skýringar á einstökum frávikum fjárfestinga í töflu 5 í greinargerðinni og mun nefndin kalla eftir ítarlegri skýringum.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ritar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 6. febrúar 2023.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Stefán Vagn Stefánsson. Vilhjálmur Árnason.