Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1087  —  712. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (EES-reglur).

Frá innviðaráðherra.1. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hafnir innan samevrópska flutninganetsins.

    Höfnum innan samevrópska flutninganetsins er skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Þær skulu jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi.
    Aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu getur verið háður lágmarkskröfum um veitingu hafnarþjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum.
    Ráðherra skal með reglugerð tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Jafnframt skal hann setja reglugerð þar sem nánar er mælt fyrir um veitingu hafnarþjónustu sem og gagnsæi í fjármálum hafna og sjálfstæði þeirra í fjármálum, þ.m.t. um samráð við notendur hafna um gjaldtöku.

2. gr.

    Við 3. mgr. 17. gr. laganna bætast þrír nýr málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að gjaldskrár taki mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni eða kolefnisnýtni siglinga. Afslættir eða álögur skulu samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismunar og samræmast samkeppnislögum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um afslætti eða álögur við gjaldtöku hafna.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að gjaldskrár taki mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni eða kolefnisnýtni siglinga. Afslættir eða álögur skulu samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismunar og samræmast samkeppnislögum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um afslætti eða álögur við gjaldtöku hafna.

4. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi eru jafnframt til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, sem vísað er til í tölul. 56z í V. kafla XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í innviðaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á hafnalögum til þess að unnt sé að innleiða reglugerð (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir í íslenskan rétt. Ákvæði frumvarpsins varða skyldur hafna sem eru innan samevrópska flutninganetsins, gjaldtöku sem tekur mið af umhverfissjónarmiðum og heimild fyrir ráðherra til að innleiða reglugerð (ESB) 2017/352 að fullu með reglugerð.
    Mælt var fyrir þessum ákvæðum í frumvarpi á 151. löggjafarþingi en það náði ekki fram að ganga (þskj. 855, 509. mál). Innviðaráðuneytið hefur ákveðið að skipta efni þess frumvarps í tvennt, í annars vegar þetta frumvarp, sem snýr eingöngu að reglum sem leiðir af EES-samningnum, og hins vegar frumvarp sem einnig verður lagt fram á 153. löggjafarþingi og hefur að geyma önnur ákvæði.
    Ákvæði þessa frumvarps eru óbreytt frá fyrra frumvarpi að undanskildum b-lið 7. gr. sem mælir fyrir um heimild um að gjaldskrár taki mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni eða kolefnisnýtni siglinga. Hefur orðalagi liðarins verið breytt þannig að um afslætti eða álögur geti verið að ræða.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Reglugerð (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019. Reglugerðin var sett með því markmiði að stuðla að nútímalegri hafnarþjónustu, skilvirkri notkun hafna og hagstæðu fjárfestingarumhverfi til að þróa hafnir í samræmi við kröfur varðandi flutninga og vörustjórnun. Með því að bæta aðgengi að hafnarþjónustu, innleiða gagnsæi í fjármálum og kveða á um sjálfstæði hafna er ætlað að gæði og skilvirkni þjónustu við hafnarnotendur muni aukast ásamt því að draga úr kostnaði fyrir flutningsþega og stuðla að eflingu flutninga á stuttum sjóleiðum og betri samþættingu sjóflutninga við aðra flutningsmáta.
    Veiting hafnarþjónustu hér á landi er að mörgu leyti ólík því sem gerist í öðrum höfnum í Evrópu. Hefðbundin starfsemi hafna á Íslandi hefur um áratugaskeið falist í því að byggja og reka hafnarmannvirki, útvega nauðsynlegt bakland hafna, annast hefðbundna þjónustu við skip sem koma til eða fara frá höfn (festarþjónusta, sala á vatni, móttaka á sorpi, rafmagnstengingar o.fl.), hafnsöguþjónustu og dráttarbátaþjónustu. Íslenskar hafnir hafa hins vegar aldrei annast losun og lestun skipa eða rekstur farmstöðva. Þau verkefni hafa nær alfarið verið á könnu skipafélaga og skipaeigenda. Sjálfstæðir aðilar í þeim verkefnum, eins og þekkist í erlendum höfnum, eru því ekki margir á Íslandi. Þó eru nokkur fyrirtæki sem taka að sér losun og er þá aðallega um að ræða losun á fiski en þau fyrirtæki starfa alfarið sem verktakar á vegum útgerðarfyrirtækja.
    Í reglugerðinni er ekki kveðið á um tiltekið líkan fyrir stjórnun hafna og hún hefur ekki nein áhrif á heimildir Íslands til að veita þjónustu í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga, t.d. aðgangs- og varnargrunnvirki. Hægt er að viðhafa mismunandi form hafnarstjórnar að því tilskildu að reglur þessar um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum séu virtar. Íslensk lög eru því þegar að miklu leyti í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Þó er þörf á því að gera lagabreytingar til að ákvæði laganna séu til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Er fyrirhugað að full innleiðing á ákvæðum gerðarinnar eigi sér síðan stað með reglugerð.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Reglugerð (ESB) 2017/352 nær samkvæmt gildissviði sínu eingöngu til hafna innan samevrópska flutninganetsins, sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1315/2013 um viðmiðunarreglur Sambandsins varðandi uppbyggingu samevrópska flutninganetsins og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 661/2010/ESB, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 280/2015, frá 30. október 2015. Samevrópska flutninganetið samanstendur af samgöngugrunnvirkjum og fjarvirknibúnaði ásamt ráðstöfunum sem stuðla að skilvirkri stjórnun og notkun slíkra grunnvirkja og gerir kleift að stofna og reka sjálfbæra og skilvirka flutningaþjónustu. Grunnvirki netsins nær til allra hliða samgangna, þ.m.t. járnbrauta, skipgengra vatnaleiða, vega, samgöngugrunnvirkja siglinga og hraðbrauta hafsins. Í síðastnefnda flokkinn falla meðal annars hafnir við sjó.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2016 frá 23. september 2016 var framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/758 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1315/2013 að því er varðar aðlögun III. viðauka við hana tekin upp í EES-samninginn. Reglugerð (ESB) 2016/758 gerir breytingu á III. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 1315/2013 þannig að samevrópska flutninganetið nær til Íslands og Noregs. Með þessari útvíkkun eru íslenskir vegir, flugvellir og hafnir færð inn á heildarkort yfir flutninganetið. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 segir að hvað EFTA-ríkin varðar skuli reglugerð (ESB) 2017/352 gilda um eftirfarandi íslenskar hafnir við sjó innan samevrópska flutninganetsins, sbr. framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/758: Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnina á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn Reyðarfirði, Höfnina í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Í 6. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 segir að aðildarríkin geti einnig ákveðið að þessi reglugerð gildi um aðrar hafnir. Ekki er farin sú leið með frumvarpi þessu að ganga lengra í innleiðingu en þörf krefur. Ákvæði reglugerðarinnar munu einungis gilda um hafnir innan samevrópska netsins, að undanskildum ákvæðum um gjaldtöku, sem taka mið af umhverfissjónarmiðum, og fjallað er um hér á eftir. Í 3. mgr. 1. gr. frumvarps þessa segir að ráðherra skuli tilgreina þær hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Verða þessar fimm hafnir því tilgreindar í reglugerð. Þykir fara betur á því að nefna þessar hafnir sérstaklega í stjórnvaldsfyrirmælum ef breyting verður á þeim höfnum sem íslenska ríkið telur til þessa nets. Verður þá hægt að gera viðhlítandi breytingar í stjórnvaldsfyrirmælum.
    Reglugerð (ESB) 2017/352 fjallar, eins og heiti hennar ber með sér, um tvo tiltekna þætti í starfsemi hafna, annars vegar veitingu hafnarþjónustu og hins vegar um gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði hafna. Ákvæði um veitingu hafnarþjónustu er að finna í II. kafla reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um skipulag hafnarþjónustu. Í 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps er innleiðing á þessu ákvæði, þ.e. um að aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu geti verið háður lágmarkskröfum um veitingu hafnarþjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir að aðildarríki geti ákveðið að engin þeirra skilyrða sem um getur í 1. mgr. gildi um einn eða fleiri flokka hafnarþjónustu. Í 3. mgr. 1. gr. þessa frumvarps er ráðherra veitt heimild til að mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu í reglugerð. Verður í þeirri reglugerð horft til heimildar í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 og einungis innleidd þau ákvæði sem þörf krefur.
    Í III. kafla reglugerðar (ESB) 2017/352 er fjallað um gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði. Ákvæði þessi hafa ekki að geyma undanþágur sambærilegar við þær sem er að finna í II. kafla. Hafnalög eru að mestu leyti í samræmi við ákvæðin sem er að finna í reglugerðinni hvað fjármál varðar. Þó er þörf á þeim breytingum sem finna má í 1. mgr. 1. gr. frumvarps þessa um gjaldtöku hafna. Er þar kveðið á um að höfnum, sem eru innan samevrópska flutninganetsins, sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Þær skuli jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi.
    Í 2. gr. og 3. gr. er mælt fyrir um breytingar á 17. gr. og 20. gr. hafnalaga en í þessum greinum laganna er fjallað um gjaldtöku hafna samkvæmt gjaldskrá. Í 13. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld. Þar segir að ríki skuli tryggja að lagt sé á hafnargrunnvirkjagjald. Þetta skuli ekki koma í veg fyrir að veitendur hafnarþjónustu, sem nýta sér grunnvirki hafnarinnar, leggi á hafnarþjónustugjöld. Nánar er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld í 3. mgr. ákvæðisins. Í 4. mgr. segir að hafnargrunnvirkjagjöld megi vera breytileg í samræmi við efnahagsáætlun hafnarinnar og stefnu hennar á sviði landnotkunarskipulags, m.a. í tengslum við tiltekna flokka notenda, eða í því skyni að stuðla að skilvirkari notkun hafnargrunnvirkja, flutningum á stuttum sjóleiðum eða miklum árangri í umhverfismálum, orkunýtni eða kolefnisnýtni flutningsaðgerða, sbr. þó 3. mgr. Viðmiðanir um slíkan breytileika skuli vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismununar sem og samrýmast samkeppnislögum, þ.m.t. reglum um ríkisaðstoð. Með hafnargrunnvirkjagjöldum sé heimilt að taka tillit til ytri kostnaðar og þau geti verið breytileg með hliðsjón af viðskiptaháttum.
    Talið er að ákvæði hafnalaga uppfylli þær kröfur sem reglugerð (ESB) 2017/352 gerir til hafnargjalda. Hins vegar er þar ekki ákvæði um að höfnum sé heimilt að veita afslætti eða leggja á álögur eins og 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar heimilar en í 2. mgr. 20. gr. hafnalaga segir að gjaldtaka skv. VI. kafla laganna skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt sé að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé. Samkvæmt gildandi lögum er höfnum því ekki heimilt að taka mið af umhverfisframmistöðu skipa nema sýnt sé fram á að kostnaður hækki eða lækki við þá þjónustu sem þær veita. Verður að gera breytingu á þessu ákvæði hafnalaga til að höfnum sé heimilt að miða gjöld við umhverfisframmistöðu skipa. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæðið verði ekki bundið við þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins heldur nái hún til allra þeirra hafna sem falla undir gildissvið hafnalaga. Lagt er til að ráðherra fái heimild til að mæla nánar fyrir um þessa þætti í reglugerð. Er ætlunin að ráðherra geti þar kveðið á um viðmið sem horft skuli til við ákvörðun afsláttar af þessu tagi. Í Evrópu er framkvæmdin þannig að horft er til alþjóðlegra vísitalna, eða staðla, um það hversu umhverfisvæn skip eru. Nota margar hafnir til að mynda skrá skipa út frá umhverfissjónarmiðum, Environmental Ship Index – ESI eða Environmental Port Index – EPI, en þar eru skip skráð og metin með tilliti til þess hve umhverfisvæn þau eru. Eru afslættir eða álögur síðan ákvörðuð eftir því skori sem skip fá á þessari skrá. Ráðuneytið mun útfæra nánar þessi viðmið í reglugerð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta er samið til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019.
    Frumvarp þetta felur í sér nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Það veitir ráðherra jafnframt heimild til að setja reglugerð sem mælir nánar fyrir um þessa þætti. Með setningu þeirrar reglugerðar verða kröfur á grundvelli gerðarinnar uppfylltar. Eins og rakið er í 3. kafla þessarar greinargerðar er í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 veitt svigrúm við innleiðingu reglugerðarinnar. Þar segir að aðildarríki geti ákveðið að engin þeirra skilyrða sem um getur í 1. mgr. 3. gr. gildi um einn eða fleiri flokka hafnarþjónustu. Verður horft til heimildar í 2. mgr. 3. gr. við setningu reglugerðar og einungis innleidd þau ákvæði sem þörf krefur.

5. Samráð.
    Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, var lagt fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi en varð ekki að lögum (þskj. 855, 509. mál). Fyrir 152. löggjafarþing voru áform um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 3. desember 2021 til 17. desember 2021 (mál nr. S-227/2021). Þrjár umsagnir bárust. Að samráði loknu voru fundir haldnir með ýmsum hagsmunaaðilum um fyrirhugað frumvarp. Drög að frumvarpi voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 8. mars til 21. mars 2022 (mál nr. S-59/2022) og bárust sex umsagnir. Að samráði loknu ákvað ráðuneytið að fresta framlagningu frumvarps til 153. löggjafarþings. Jafnframt var ákveðið, líkt og getið er í 1. kafla, að skipta efni frumvarpsins í tvö ný frumvörp.
    Drög að þessu frumvarpi voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 26. september til 9. október 2022 (mál nr. S-177/2022). Tvær umsagnir bárust, annars vegar frá Hafnasambandi Íslands og hins vegar sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu.
    Í umsögn Hafnasambands Íslands er bent á að þörf sé á breytingu á hugtakinu „sjóflutningum“ í 2. gr. og 3. gr. þar sem það þrengi gildissviðið og taki t.d. ekki til fiskiskipa. Brugðist hefur verið við athugasemdinni og er nú notast við hugtakið „siglingu“. Þá er lagt til að sett verði ákvæði sem geri landtengingu að skilyrði þar sem hún er í boði. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352. Kröfu um landtengingu leiðir ekki af þeirri reglugerð. Verður þessi tillaga tekin til umfjöllunar í öðru frumvarpi til breytinga á hafnalögum, nr. 61/2003, sem fyrirhugað er að leggja fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi.
    Þá segir í umsögninni að mikilvægt sé að innleiðingarreglugerð sé samin í samráði við viðkomandi hafnir innan samevrópska flutninganetsins þannig að útfærslan verði hagkvæm og einföld í framkvæmd. Þá sé mikilvægt að þar komi skýrt fram hvernig samráð verði útfært þannig að það verði ekki of íþyngjandi fyrir umræddar hafnir. Einnig þurfi að skilgreina skýrt í lögum og reglugerðum að samráðið skuli aðeins taka til þess hluta viðskiptavina sem tengjast því að höfn er skilgreind innan samevrópska flutninganetsins. Ráðuneytið er sammála ábendingu Hafnasambands Íslands um að við smíði reglugerðar sem útfærir nánar ákvæði um þjónustu hafna og gagnsæi í fjármálum þeirra sé mikilvægt að viðhafa ítarlegt samráð.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu er fjallað um gagnsæi í gjaldtöku. Segja samtökin að bæði þeim og aðildarfyrirtækjum þeirra hafi reynst nær ógerlegt að afla nægilegra upplýsinga um forsendur gjaldtöku frá höfnum. Er ákvæðum frumvarpsins sem snúa að þessum þáttum því fagnað. Hins vegar er bent á að ákvæði fyrri frumvarpsdraga, sem hafi kveðið á um að gjaldskrárákvarðanir yrðu kæranlegar til Samgöngustofu, hafi ekki ratað í þetta frumvarp og vonist samtökin til að það verði tekið fyrir í öðru frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Hitt frumvarpið er í undirbúningi og verður ábending samtakanna tekin til skoðunar í þeirri vinnu.
    Í báðum umsögnum er fjallað um þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Er lögð áhersla á að ekki sé gengið lengra í að tilnefna íslenskar hafnir en leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum. Hafnasamband Íslands bendir á að hafnir innan ESB séu mun stærri fyrirtæki en þær íslensku og hafi aðgang að innviðasjóðum sem Ísland sé ekki aðili að. Æskilegt sé því að endurmeta skylduna til að skrá hafnir í flutninganetið. Eins og fram kemur í greinargerð hér að framan hafa fimm íslenskar hafnir verið skráðar í samevrópska flutninganetið. Hefur það verið gert með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Reglugerð sem samin verður af ráðuneytinu þarf að taka mið af þessu. Til framtíðar litið er að mati ráðuneytisins rétt að meta þörfina á því að íslenskar hafnir séu innan samevrópska flutninganetsins og hvort ástæða sé til að fækka eða fjölga höfnum innan þess. Breytingar af því tagi kalla ekki á lagabreytingar ef frumvarp þetta er samþykkt óbreytt.
    Hafnasamband Íslands bendir einnig á að reglugerð (ESB) 2017/352 heimili ríkjum að ákveða að reglugerðin gildi ekki um hafnir við sjó sem staðsettar séu við ystu svæði skv. 349. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Telja samtökin að ákvæðið geti hugsanlega átt við um íslenskar hafnir. Að mati ráðuneytisins á þetta ákvæði ekki við. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019, sem felldi reglugerð (ESB) 2017/352 inn í EES-samninginn, er ekki gerð aðlögun þannig að þetta ákvæði nái til íslenskra hafna. Þá verður ekki séð að sjónarmiðið á bak við 349. gr. eigi við um Ísland en í ákvæðinu segir m.a.: „Með hliðsjón af atvinnu- og uppbyggingarskilyrðum og efnahagslegri og félagslegri stöðu á Gvadelúpeyjum, Frönsku Gvæjana, Martiník, Réunion, Sankti Bartolómeusar-eyjum, Sankti Martinseyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum, sem standa höllum fæti sökum þess að um er að ræða afskekkt eyjasamfélög sem einkennast af smæð, erfiðum staðháttum og veðurfari og efnahag sem reiðir sig á fáar framleiðsluvörur, en varanlegt eðli og samanlögð áhrif þessara þátta setja þróun þeirra miklar skorður, skal ráðið samþykkja, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið, sértækar ráðstafanir sem miða einkum að því að ákveða með hvaða skilyrðum ákvæðum sáttmálanna, m.a. sameiginlegum stefnum, skuli beitt gagnvart þessum svæðum.“

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta lýtur að innleiðingu reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Reglugerðin nær til hafnanna í Reykjavík, á Seyðisfirði og Reyðarfirði/Mjóeyrarhöfn, í Vestmannaeyjum og Landeyjum. Ekki er fyrirséð að frumvarpið hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð. Innleiðing reglugerðar (ESB) 2017/352 gæti leitt til einhvers kostnaðar fyrir þær hafnir sem reglugerðin tekur til. Hafnir munu geta mætt hinum auknu útgjöldum með gjaldtöku.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er að finna sérákvæði sem varðar einungis hafnir innan samevrópska flutninganetsins svokallaða. Í 1. mgr. er kveðið á um samráð við notendur hafna um gjaldtöku og að hafnir skuli veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á hafnargjaldi. Mælt er fyrir um þetta í 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352. Er ráðherra skylt að mæla nánar um þessa þætti, þ.e. gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði í fjármálum, í reglugerð skv. 3. mgr. þessarar greinar.
    Í 2. mgr. er að finna sérákvæði um að aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu geti verið háður lágmarkskröfum. Í II. kafla reglugerðar (ESB) 2017/352 er mælt fyrir um þessa þætti. Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um þessa þætti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli með reglugerð tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Þegar frumvarp þetta er samið hefur íslenska ríkið tilgreint fimm hafnir innan þessa nets eins og fjallað hefur verið um í 3. kafla greinargerðarinnar, þ.e. Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnina á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn Reyðarfirði, Höfnina í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Ekki er fyrirhugað að fjölga íslenskum höfnum á þessum lista en ef breytingar verða er talið æskilegt að hægt verði að gera breytingar til samræmis við það með stjórnvaldsfyrirmælum.
    Eins og rakið er í 3. kafla greinargerðarinnar er fyrirhugað að setja reglugerð til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352. Mun sú reglugerð byggjast á lagaheimild í 3. mgr.

Um 2. gr.

    Í ákvæði þessu eru gerðar breytingar sem veita þeim sem reka hafnir heimild til veita afslætti eða leggja á álögur með hliðsjón af umhverfisframmistöðu skipa en í 4. mgr. 13. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 er kveðið á um að höfnum skuli vera kleift að gera þetta. Ólíkt öðrum ákvæðum þessa frumvarps þar sem lagðar eru til breytingar til samræmis við þá reglugerð og gilda eingöngu um hafnir innan samevrópska flutninganetsins er lagt til að þetta ákvæði eigi við um allar hafnir í eigu sveitarfélaga. Hafnir í eigu sveitarfélaga geta verið með eða án hafnarstjórnar. Gerð er tillaga um breytingu á 17. gr. sem er að finna í V. kafla laganna um hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags. Ákvæði þetta nær hins vegar ekki einungis til slíkra hafna. Í 11. gr. laganna, sem er að finna í IV. kafla laganna um hafnir án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélaga, segir að höfn samkvæmt þeim kafla sé heimilt að innheimta gjöld skv. 17. gr.

Um 3. gr.

    Í greininni eru gerðar sambærilegar breytingar og í 2. gr. þessa frumvarps. Þörf er á sams konar breytingu á 20. gr. laganna þannig að heimildin gildi einnig að því er varðar hafnir sem teljast ekki til opinbers reksturs. Vísast til umfjöllunar um 2. gr. um inntak ákvæðisins.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 30. gr. laganna þess efnis að hafnalög, nr. 61/2003, séu til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Líkt og fjallað er um í 2. kafla greinargerðarinnar fela sum ákvæði þessa frumvarps í sér tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til að ákvæði laganna séu til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilt skv. 3. mgr. 9. gr. a, að mæla nánar í reglugerð fyrir um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði þeirra hafna sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Er fyrirhugað að full innleiðing á ákvæðum gerðarinnar eigi sér síðan stað með slíkri reglugerð, sem og birting reglugerðar (ESB) 2017/352.