Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1179  —  614. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn menningar- og viðskiptaráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Starfsfólk menningar- og viðskiptaráðuneytisins getur leitað til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra eða annars stjórnanda sem það treystir við hvers konar samskiptavanda sem tengist EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi). Formlegt ferli er við lýði sem gefið hefur verið út af Stjórnarráðinu og er í innleiðingu í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Aðgangur að fagaðila utanhúss stendur starfsmönnum einnig til boða milliliðalaust til samtals og/eða ráðgjafar. Samkvæmt jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins skal halda námskeið fyrir það starfsfólk sem samkvæmt stefnu og aðgerðaáætlun á að taka á móti tilkynningum vegna EKKO.
    Engin tilvik hafa komið upp á fyrsta starfsári menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem urðu til þess að starfsmenn hafi leitað til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra eða annars stjórnanda vegna samskiptavanda sem tengist EKKO.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Ráðuneyti menningar og viðskipta hefur gert samning við þjónustuaðila um alhliða heilsuvernd, fyrirbyggjandi fræðslu og eftirlit ásamt aðgengi að sálfræðiþjónustu. Tilefni samnings eru fjölþætt, áður upptalin, en lúta ekki að einstöku atviki eða uppákomu. Kostnaður af samningnum er 109.000 kr. á mánuði.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Ráðuneyti menningar og viðskipta er eins árs. Á þeim tíma hefur auk mánaðarlegs gjalds samkvæmt svari við 2. tölul. aukalega verið greitt fyrir heilsufarsskoðun starfsmanna og bólusetningu haustið 2022 379.350 kr. og fyrir viðtöl við starfsmenn sem óskað hafa eftir aðstoð vegna ótilgreindra þátta 117.500 kr.