Ferill 785. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1201  —  785. mál.
Beiðni um skýrslu


frá mennta- og barnamálaráðherra um læsi.

Frá Vilhjálmi Árnasyni, Haraldi Benediktssyni, Diljá Mist Einarsdóttur, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Óla Birni Kárasyni, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, Bryndísi Haraldsdóttur, Birgi Þórarinssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Eyjólfi Ármannssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni og Tómasi A. Tómassyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um læsi. Í skýrslunni verði fjallað um:
     a.      gögn um læsi á Íslandi og þróun læsis frá aldamótum hvað varðar almennan lesskilning og enn fremur hvað varðar læsi í stærðfræði og náttúruvísindum,
     b.      hvaða rannsóknir og kannanir hafi verið gerðar á stöðu læsis á Íslandi frá aldamótum og hverjar niðurstöður slíkra rannsókna og kannana hafi verið,
     c.      upplýsingar um þróun læsis á Íslandi samanborið við stöðuna annars staðar á Norðurlöndum,
     d.      hvaða úrræði standi þeim til boða sem eiga í lestrarerfiðleikum.Greinargerð.

    Leik- og grunnskólakerfið er ein mikilvægasta grunnstoð íslensks velferðarkerfis. Þrátt fyrir það skortir mælingar og rannsóknir á árangri þeirra kennsluaðferða sem stuðst er við innan leik- og grunnskóla hérlendis. Utan PISA-kannana hafa ekki verið framkvæmdar kannanir innan lands á læsi barna á grunnskólaaldri. Samkvæmt niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem lögð var fyrir nemendur vorið 2018 sem birtar voru í desember 2019 fengu íslenskir nemendur að meðaltali 474 stig fyrir lesskilning sem er um átta stigum minna en í könnuninni 2015. Niðurstöður könnunarinnar 2022 hafa ekki verið birtar. Aðeins sex OECD-ríki voru árið 2018 með marktækt færri stig að meðaltali en Ísland, fimm lönd fengu álíka mörg stig en 24 lönd voru með marktækt fleiri stig. Hlutfall nemenda sem ekki náði grunnhæfni í lesskilningi jókst úr 22% í 26% milli kannana. Hjá drengjum jókst þetta hlutfall úr 29% í 34%. Þá var læsi nemenda í náttúruvísindum undir meðaltali OECD, en frammistaða nemenda var marktækt betri í stærðfræði miðað við könnunina á undan.
    Mikilvægt er að brugðist verði við lökum árangri íslenskra nemenda í PISA-könnunum síðustu ára. Flutningsmenn beiðninnar telja eðlilegt fyrsta skref að tekin verði saman skýrsla um læsi og þróun læsis samanborið við önnur Norðurlönd til þess að greina megi hvort þörf sé á frekari könnunum sem miði sérstaklega að íslenskum nemendum og þeim kennsluaðferðum sem stuðst er við hér á landi, svo frekar megi greina stöðu íslenskra barna. Greinargóðar upplýsingar sem gagnast kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki grunn- og leikskóla í starfi sínu eru nauðsynlegar svo að ráðast megi í frekari aðgerðir til þess að bæta læsi barna á Íslandi.