Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 7/153.

Þingskjal 1213  —  487. mál.


Þingsályktun

um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.

    
    Alþingi ályktar að eftirfarandi breytingar verði gerðar á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145:
     a.      1. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, varnir landsins og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins.
     b.      2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
     c.      1. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Lögð verði áhersla á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og að stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu hvert á sínu sviði.
     d.      2. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á hafsvæðinu umhverfis landið og á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
     e.      7. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum. Lögð verði áhersla á að tryggja skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði. Tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
     f.      Á eftir 7. tölul. 5. mgr. komi nýr töluliður, 8. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.
     g.      8. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að efla stafrænt fullveldi og auka net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum, áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og með samstarfi við önnur ríki.
     h.      9. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti, þar á meðal fjarskiptatengingar við útlönd, orkuöryggi og fjármála- og efnahagsöryggi.
     i.      11. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að þjóðaröryggisráð, er starfi á grundvelli sérstakra laga, meti ástand og horfur í þjóðaröryggismálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Samþykkt á Alþingi 28. febrúar 2023.