Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1223  —  612. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Í gildi er stefna, forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi), frá 16. júní 2022. Markmiðið með stefnunni er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn EKKO á vinnustöðum. Eins og heiti reglugerðar og stefnunnar gefur til kynna gilda þær um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annars konar áreitni á vinnustöðum. Ekki er þar að finna skilgreiningu á orðunum „vanvirðandi framkoma“ sem vísað er til í fyrirspurninni. Samkvæmt reglugerðinni er bæði atvinnurekanda og starfsmönnum óheimilt að leggja starfsmenn í einelti á vinnustað, áreita þá kynferðislega, sem og á grundvelli kyns, eða beita þá ofbeldi.
    Samkvæmt EKKO-stefnu Stjórnarráðsins skal starfsumhverfi og menning í ráðuneytum vera þannig að starfsfólk sé öruggt og því líði vel. Í því sambandi er mikilvægt að stuðla að andlegri jafnt sem líkamlegri heilsu á vinnustað. Það er gert með markvissu forvarnastarfi, skýrum verkferlum og stuðningi. Samkvæmt stefnunni er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi undir engum kringumstæðum umborið og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. Þá skal í EKKO-tilvikum fylgja tiltekinni forvarna- og viðbragðsáætlun sem nánar er útfærð í stefnunni.
    Í viðbragðsáætlun stefnunnar segir m.a. að ef starfsmaður hafi orðið fyrir, orðið vitni að eða hafi rökstuddan grun um að tilvik tengt EKKO hafi átt sér stað skuli hann upplýsa sinn næsta yfirmann eða mannauðsstjóra (eða annan ábyrgðaraðila málaflokksins innan ráðuneytisins). Þá skuli ráðuneytin upplýsa á sínum innri vefjum ef gerður hefur verið samstarfssamningur við fagaðila, sem er starfsfólki ráðuneytis til aðstoðar og ráðgjafar í EKKO-málum, eða felur fagaðila að taka mál í ferli þegar um samskiptavanda eða formlega tilkynningu er að ræða. Fagaðili er skilgreindur sem sá sem hefur sérhæft sig í meðferð mála sem tilheyra þessum málaflokki (sálfræðistofa, ráðgjafarstofa o.s.frv.). Starfsfólk er hvatt til að láta vita af atvikum sem það telur að gætu varðað EKKO.
    Hlutverk stjórnenda og mannauðsstjóra (eða annars ábyrgðaraðila) er að bregðast við slíkum málum án tafar, meta í samráði við tilkynnanda í hvaða ferli mál þurfa að fara og tryggja að unnið sé eftir samþykktri viðbragðsáætlun. Á það sérstaklega við um samskipti milli starfsfólks, þ.m.t. við ráðuneytisstjóra og ráðherra, en einnig samskipti við aðra einstaklinga sem ekki starfa hjá ráðuneytinu en starfsfólk hefur samskipti við vegna starfstengdra mála.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur ekki gert samning vegna sálfræðiþjónustu við einn ákveðinn aðila en hefur nýtt sálfræðiþjónustu þar sem vilji og þarfir starfsfólks var haft í fyrirrúmi. Meginmarkmið með slíkum úrræðum er að gæta að líðan og heilsutengdum hagsmunum starfsfólks og lágmarka fjarvistir vegna veikinda og streitutengdra þátta. Fagaðilar sem leitað er til veita starfsfólki handleiðslu og ráðgjöf sem snýr að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur greitt útlagðan kostnað eða greitt kostnað vegna sálfélagslegs stuðnings vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað við starfsfólk síðastliðin fimm ár sem nemur 465.000 kr. á málefnasviði 17 umhverfismál.