Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1232  —  613. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn mennta- og barnamálaráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Mennta- og barnamálaráðuneytið er með samning við Auðnast ehf. sem býður upp á heilsumiðaða þjónustu. Í samningnum felst meðal annars aðgangur að EKKO-tilkynningaveitu (vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni, ofbeldis) þar sem starfsfólk getur átt trúnaðarsamtal við ráðgjafa telji það sig verða fyrir vanvirðandi framkomu innan ráðuneytisins, svo sem einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi. Starfsfólk ráðuneytisins getur jafnframt leitað til stjórnenda og mannauðsstjóra til að fá stuðning í slíkum málum.
    Starfsfólk er hvatt til að láta vita af atvikum sem það telur að gæti varðað EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi). Nánar er fjallað um tilkynningar og málsmeðferð vegna EKKO-mála og samskiptavanda í forvarna- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi), frá 16. júní 2022.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Samningur mennta- og barnamálaráðuneytis, áður mennta- og menningarmálaráðuneytis, og Auðnast hefur verið í gildi frá árinu 2020. Samningurinn felur í sér heildstæða heilsumiðaða þjónustu þar sem skimað er fyrir ákveðnum þáttum sem varða vellíðan starfsfólks. Þjónustan felur meðal annars í sér forgang að sálfræðiþjónustu/handleiðslu fyrir starfsfólk og aðgengi mannauðs og stjórnenda að starfsfólki Auðnast. Markmið og tilefni samningsins er að tryggja starfsfólki ráðuneytisins aðgang að heildstæðri þjónustu á sviði heilsu- og vinnuverndar með það að leiðarljósi að huga vel að heilsu starfsfólks.
    Ráðuneytið greiðir Auðnast 100.000 kr. á mánuði á grundvelli samningsins. Út frá fjölda stöðugilda á málefnasviði dreifist mánaðarlegur kostnaður þessi ár um það bil með eftirfarandi hætti:
          2020–2021: Stoðskrifstofa/aðalskrifstofa/fjármálaskrifstofa tæplega 50%, menningarmál um 15%, háskólamál um 9% og málefni sem falla undir núverandi málaflokka mennta- og barnamálaráðuneytis (að undanskildum barnamálum) um 30%.
          2022: Stoðskrifstofa/aðalskrifstofa/fjármálaskrifstofa um 45%, barna- og fjölskyldumál um 17%, framhaldsskólamál um 15% og skóla-, íþrótta- og æskulýðsmál um 23%.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Starfsfólki mennta- og barnamálaráðuneytis sem upplifir vanlíðan og/eða álag á vinnustað eða í einkalífi stendur til boða sálfélagslegur stuðningur. Ráðuneytið miðar almennt við að starfsfólki standi til boða 1–3 tímar hjá sálfræðingi eða sérhæfðum ráðgjafa.
    Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu fyrir starfsfólk mennta- og barnamálaráðuneytis, áður mennta- og menningarmálaráðuneytis, var 1.192.500 kr. árið 2022, 869.000 kr. vegna ársins 2021, 806.500 kr. vegna ársins 2020, 337.500 kr. vegna ársins 2019 og 89.000 kr. vegna ársins 2018. Þjónustan er veitt nafnlaust og hefur ekki verið flokkuð eftir málefnasviðum.