Ferill 845. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1306  —  845. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sjóvarnargarð á Siglunesi.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að hefja undirbúning að uppbyggingu sjóvarnargarðs á Siglunesi í samstarfi við Fjallabyggð.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er flutt í annað sinn. Hún var áður flutt á 151. löggjafarþingi (763. mál), en náði ekki fram að ganga.
    Tillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að tryggja að höfnin á Siglufirði verði varin með því að byggja sjóvarnargarð á Siglunesi, sem liggur milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Mikið landbrot hefur verið á nesinu síðustu ár og áratugi og gróðurþekja minnkað mikið. Síðustu misseri hefur verið vakin athygli á málinu í fjölmiðlum, bæði hefur bæjarstjórinn í Fjallabyggð m.a. kannað leiðir til bjargar Siglunesi sem og hagsmunasamtökin Björgum Siglunesi. Fjallabyggð leitar nú leiða til þess að bjarga Siglunesi og hefur skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins lagt til að sótt verði um framlag til Vegagerðarinnar í samvinnu við landeigendur.
    Siglunes er nyrsta táin milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Þar var samnefndur bær og margbýlt fyrr á öldum og fram á miðja 20. öld. Byggð lagðist af á Siglunesi árið 1988. Siglunes er ekki í alfaraleið og þangað þarf að fara með bát frá Siglufirði. Talsvert landbrot hefur orðið undanfarna áratugi og gróður minnkað á landsvæðinu. Siglunes var töluvert stærra en það er nú og sagnir eru til um mikið landbrot af völdum sjávargangs, eins eru dæmi þess að landeyðing hafi orðið mikil í einstökum stórviðrum og grynningar og skerjaklasi út af nesinu bendir einnig til þess að sjór hafi haft þar mikil áhrif á landið. 1
    Bærinn Siglunes var landnámsjörð Þormóðs ramma að því er segir í Landnámabók og lengi höfuðból sveitarinnar, kirkjustaður og prestssetur, þrátt fyrir erfiðar samgöngur. Landleiðin frá Siglufirði út á Siglunes liggur um Siglunesskriður, illræmdar og hættulegar og farið um tæpar götur ofan við sjávarhamra.
    Nokkurt undirlendi er á Siglunesi og þar var allstórt tún. Þar var áður fyrr mikil hákarlaútgerð. Á nesinu er viti, Siglunesviti, reistur 1908. Skammt þar frá rak bandaríski herinn ratsjárstöð á árunum 1943–1945 og má enn sjá rústir hennar. Töluverðar verbúðarústir eru á Siglunesi. Talið er að þar hafi verið ein elsta verstöð á landinu og ef til vill einn fyrsti vísir að þéttbýlismyndun.
    Sumarið 2006 var gerð fornleifaskráning á nesinu. Þá voru skráðar margar áhugaverðar minjar, m.a. rústahólar niðri á nesinu sjálfu, sem taldar voru í bráðri hættu vegna sjávarrofs og mátti sjá berskjölduð mannvistarlög blasa við í sniðum á sunnanverðu nesinu á einum sex stöðum. Minjar á nesinu voru mældar upp sumarið 2008 og í sniði eins stærsta rústahólsins sást gjóskulag, sem talið er vera frá 1104, liggja yfir miklum öskuhaug og öðrum mannvistarleifum.
    Fornleifarannsóknir fóru fram á Siglunesi sumarið 2011 og voru hreinsuð fram snið í sex rústahólum sem lágu undir skemmdum af völdum sjávar. Komu þar í ljós minjar allt frá fyrstu öldum byggðar og fram yfir 1300, bæði leifar bygginga og gríðarlegir öskuhaugar með mikið af vel varðveittum dýrabeinum. Ljóst er að frekari rannsóknir á Siglunesi væru mikilvægt innlegg í rannsóknir á fiskveiðum til forna og þar með þáttum sem tengjast hagsögu og afkomu þjóðarinnar. 2
    Við uppgröftinn 2011 fannst m.a. fínlega útskorinn taflmaður úr ýsubeini, talinn frá 12. eða 13. öld. Taflmaðurinn er um margt líkur hinum fornu Ljóðhúsataflmönnum sem fundust á eynni Ljóðhúsum vestur af Skotlandi snemma á 19. öld og eru nú varðveittir á Breska þjóðminjasafninu sem þjóðargersemar. Fundurinn á Siglunesi styrkir þá kenningu, sem lengi hefur verið uppi, að Ljóðhúsataflmennirnir eigi sér íslenskan uppruna.
    Flutningsmenn telja að það beri að vernda þær mannvistarleifar sem enn eru órannsakaðar á Siglunesi fyrir niðurbroti sjávar. Þetta mál er varðar Siglunes er ekki nýtt af nálinni og er búið að vera í umræðunni í mörg ár. Flutningsmenn telja mikilvægt að uppbygging á sjóvarnargarði á Siglunesi hefjist sem fyrst, áður en það verður um seinan að bjarga sögulegu landsvæði og áður en hafnarmannvirki á Siglufirði verða fyrir óafturkræfum skemmdum af völdum sjávargangs.

1     www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/siglunes_skyrsla_minni.pdf
2     www.fornleif.is/wp-content/uploads/2018/01/FS480-11121-Siglunes-2011.pdf