Ferill 603. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1311  —  603. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um samkeppnismat.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið brugðist við tillögum sem gerðar voru í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar og ef svo er, hvernig?
     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að frekar verði brugðist við tillögunum og ef svo er, hvernig?


    Árið 2019 gerðu íslensk stjórnvöld samning við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á regluverki íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Í framhaldi var ráðist í verkefni í samvinnu nokkurra ráðuneyta og stofnana, undir forystu þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem leiddi meðal annars í ljós að draga mætti úr óþarfa reglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og breyta regluverki í þeim tilgangi að regluverkið styðji betur við virka samkeppni innan umræddra geira. Niðurstaða samkeppnismats OECD var kynnt í nóvember 2020 í skýrslu um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Í skýrslunni lagði OECD fram 438 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum sem snúa að ferðaþjónustu og byggingariðnaði til að auka samkeppnishæfni greinanna. Snúa þessar tillögur að málefnasviðum innan menningar- og viðskiptaráðuneytis, innviðaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.
    Með lögum nr. 90/2021, um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja (leyfisveitingar o.fl.), voru gerðar ýmsar breytingar sem byggðu á fyrrnefndum tillögum OECD á því málefnasviði sem heyrir undir ráðuneytið. Voru lögin samþykkt í júní 2021 og var um bandorm að ræða, sérmerktur innleiðingu á skýrslu OECD. Í kjölfar umræddra lagabreytinga voru gerðar margar breytingar á reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem m.a. voru afnumin nákvæm forskriftarákvæði í stöðlum um gististaði, í samræmi við tillögur skýrslu OECD.
    Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, sem lagt var fram á Alþingi í febrúar 2023, lauk vinnu ráðuneytisins hvað varðar útistandandi tillögur skýrslu OECD um lagabreytingar á sviði ferðamála sem eru á málefnasviði ráðuneytisins. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að afnumið verði skilyrðið um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð. Samhliða frumvarpinu eru áformaðar reglugerðarbreytingar til að ljúka við afmarkaðar tillögur skýrslunnar á sviði ferðaþjónustu, svo sem hvað varðar þjálfun dyravarða og einföldun við útgáfu rekstrarleyfa vegna veitinga- og gististaða.
    Að frumkvæði ráðherra verða, auk framangreinds, gerðar tvær breytingar á reglugerð um leigu skráningarskyldra ökutækja í þeim tilgangi að halda áfram að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu enn frekar. Annars vegar verða gerðar auknar kröfur á ökutækjaleigur hvað varðar miðlun upplýsinga til leigutaka um hættur sem geta skapast á íslenskum vegum. Hins vegar verður heimilað að samningsgerð vegna leigu ökutækja fari alfarið fram með rafrænum hætti.
    Í einni af tillögum OECD er lagt til að aðkoma sveitarfélaga að útgáfu leyfa til reksturs ökutækjaleigu verði skert. Tillagan varðar skipulagsvald sveitarfélaga, nánar tiltekið heimild sveitarfélags til að samþykkja eða synja staðsetningu nýrrar ökutækjaleigu. Það atriði hefur verið rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga en að svo stöddu hefur ekki verið brugðist við þeirri tillögu.
    Að svo stöddu eru ekki áformaðar frekari aðgerðir til að bregðast við tillögum skýrslunnar að því er varðar málefnasvið ráðuneytisins.
    Rétt er að geta þess að tillögur skýrslu OECD sem snúa að málefnasviðum annarra ráðuneyta, svo sem varðandi byggingariðnað, flugumferð eða leigubifreiðar, eru ýmist til skoðunar eða úrvinnslu í þeim ráðuneytum og stofnunum sem hafa forræði á þeim málaflokkum samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.