Ferill 743. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1326  —  743. mál.
Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ingveldi Önnu Sigurðardóttur um hagræðingarkröfu búvörusamninga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur hagræðingarkrafa gildandi búvörusamninga upp á 0,5% fyrstu fimm ár samningstímans en 1% næstu fimm ár á eftir komið til framkvæmda frá gildistöku samninganna?

    Í búvörusamningum er kveðið á um stuðning hins opinbera við landbúnað og framlög til einstakra stuðningsaðgerða út gildistíma samninganna. Búvörusamningar eru fjórir talsins. Rammasamningur fjallar um almenn starfsskilyrði í landbúnaði og auk hans eru sérstakir samningar um starfsskilyrði í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt. Samningarnir tóku gildi í ársbyrjun 2017 og gilda út árið 2026. Framlög taka breytingum milli ára í samræmi við viðauka I við hvern samning og er hagræðing því innbyggð í samningana. Til viðbótar var samið um tímabundin framlög til ákveðinna verkefna, utan hagræðingarkröfunnar. Í viðaukum við samningana er þannig útfært hvernig greiðslur breytast á milli ára í hverjum styrkjaflokki. Í eftirfarandi töflu má sjá samanlagðar fjárhæðir allra samninga og breytingar fjárhæða á föstu verðlagi miðað við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016.

Fjárhæðir á föstu verðlagi 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024 2025 2026
Samtals búvörusamningar 13.776 13.634 13.592 13.405 13.314 13.160 13.032 12.906 12.781 12.656
Breyting milli ára -1,0% -0,3% -1,4% -0,7% -1,2% -1,0% -1,0% -1,0% -1,0%

    Í öllum samningum er ákvæði sem snýr að árlegum breytingum á samningsbundnum framlögum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Samkvæmt fjárlögum ársins 2023 eru því 17,3 milljarðar kr. til ráðstöfunar vegna búvörusamninga. Þá er einnig kveðið á um endurskoðun samninganna tvisvar á samningstímanum, árið 2019 og árið 2023. Við fyrri endurskoðun voru sett markmið um aukna garðyrkju og framlög til samningsins aukin um 200 millj. kr. frá og með árinu 2020. Því liggur fyrir að hagræðing verður minni en gert var ráð fyrir í upphafi. Ekki var hreyft við heildarframlögum í öðrum samningum, en rétt er að geta þess að við fyrri endurskoðun rammasamnings voru framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins tekin út úr þeim samningi og sameinuð framlögum til nýs Matvælasjóðs. Þá er rétt að geta þess að á samningstímanum hefur ríkissjóður greitt sérstakar greiðslur til bænda utan búvörusamninga þar sem stuðst hefur verið við greiðsluflokka og greiðslukerfi samninganna við útdeilingu fjármuna. Má þar nefna sérstakan stuðning til sauðfjárbænda árið 2018, sérstakar greiðslur vegna áhrifa Covid19 til sauðfjár- og nautgripabænda árið 2020, greiðslur til bænda vegna mikilla hækkana á áburðarverði árið 2022 og greiðslur til bænda vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu vegna innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022.