Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1335  —  632. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni
um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra stuðla að því að markmið samgöngusáttmálans milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 varðandi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði uppfyllt?
    Samgöngusáttmálinn var undirritaður af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hönd ríkisins. Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer innviðaráðuneyti með mál sem varða samgöngur, svo sem samgönguáætlun og skipulag, uppbyggingu, viðhald og rekstur samgöngukerfisins. Þá fer innviðaráðuneytið einnig með sveitarstjórnarmál, svo sem stjórnsýslu og fjármál sveitarfélaga. Ráðuneytið telur það því ekki vera á ábyrgðarsviði dómsmálaráðherra að svara þessum tölulið fyrirspurnarinnar.

     2.      Stendur til að koma á átaki á vegum lögreglu til að fylgjast betur með umferð og koma í veg fyrir stöðubrot á gangstéttum og hjólastígum, hættubrot, ólöglegan framúrakstur ökutækja gagnvart hjólreiðafólki og annað sem dregur úr öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda? Stendur yfir vinna í ráðuneytinu í þessum efnum?
    Lögreglan sinnir umferðareftirliti á grundvelli umferðarlaga, nr. 77/2019. Umferðareftirlit er viðamikill hluti af starfsemi lögreglunnar og má sem dæmi nefna að sérstök umferðardeild er starfrækt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem kemur til viðbótar við lögreglustöðvarnar sem sinna einnig umferðareftirliti eftir því sem tilefni er til. Lögreglan fylgist eftir bestu getu með gangstétta- og hjólastígakerfi og beitir stöðubrotsgjöldum eftir því sem við á. Í því samhengi má nefna að samkvæmt málaskráningarkerfi lögreglu (LÖKE) beitti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 1.890 stöðubrotsgjöldum/sektum á árinu 2022 til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.