Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1338  —  326. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (gjaldmiðlaáhætta og upplýsingagjöf til sjóðfélaga).

(Eftir 2. umræðu, 15. mars.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skal nema“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skal að meðaltali nema.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1. og 3. málsl. 1. mgr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 1. og 2. málsl. 1. mgr.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Lífeyrissjóði sem ráðstafar lífeyrisiðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skv. 2. mgr. 3. gr. er heimilt að veita sjóðfélaga sömu lágmarkstryggingavernd og skv. 3. málsl. 2. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt ber lífeyrissjóði að veita nýjum sjóðfélaga upplýsingar um helstu réttindi sem ávinnast við greiðslu iðgjalda ásamt upplýsingum um skipulag og stefnu lífeyrissjóðsins.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Lífeyrissjóðum er heimilt að birta yfirlit og upplýsingar skv. 2. og 3. mgr. á rafrænan hátt þar sem rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga er krafist. Við rafræna birtingu upplýsinga skv. 2. mgr. sem teljast almenns eðlis þarf þó ekki að krefjast rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. skal sjóðfélagi sem eftir því óskar fá gögn og upplýsingar á pappírsformi sér að kostnaðarlausu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. b laganna:
     a.      Við 3. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að virði afleiðna skv. a-lið 6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a sé neikvætt um allt að 10% heildareigna.
     b.      Við 1. málsl. 5. mgr. bætist: og skilmálar samningsins vera í samræmi við rammasamning Alþjóðasamtaka um skiptasamninga og afleiður.
     c.      Orðin „og skal tryggt að unnt sé að selja, gera upp eða loka slíkum samningum samdægurs á raunvirði hverju sinni“ í 2. málsl. 5. mgr. falla brott.

4. gr.

    Við 1. mgr. 36. gr. c laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mat á hlutfalli afleiðna skv. 1. og 2. málsl. skal hrein neikvæð staða metin á sama hátt og hrein jákvæð staða.

5. gr.

    36. gr. d laganna orðast svo:
    Lífeyrissjóður skal takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að að lágmarki 35% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal lífeyrissjóður fram til ársins 2024 tryggja að að lágmarki 50% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans. Hinn 1. janúar 2024 lækkar það lágmark í 48,5% og um 1,5 prósentustig 1. janúar ár hvert til 1. janúar 2027. Eftir það lækkar lágmarkið um eitt prósentustig 1. janúar ár hvert þar til það nær 35% 1. janúar 2036, sbr. 1. mgr.
    Lífeyrissjóður skal, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., eiga eignir í sama gjaldmiðli og skuldbindingar sem jafngilda væntum lífeyrisgreiðslum sameignarhluta hans til næstu þriggja ára.
    Eigi síðar en árið 2027 skal ráðherra leggja mat á það hvort tilefni er til að leggja til aðrar breytingar á hlutföllum lágmarksins en þær sem koma fram í 2. mgr.
    Lífeyrissjóði er heimilt að fullnægja skilyrði 1. og 2. mgr. með afleiðum sem takmarka gjaldmiðlaáhættu á sambærilegan hátt.

6. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef breytingar á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkanir á erlendum eignamörkuðum leiða til þess að gjaldmiðlaáhætta lífeyrissjóða fer fram úr leyfilegum mörkum, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. d, á ákvæði 1. mgr. ekki við nema að því leyti að tilkynningarskylda til Fjármálaeftirlitsins helst óbreytt. Meðan svo stendur á er lífeyrissjóði óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. d með kaupum á eignum í öðrum gjaldmiðli en skuldbindingar hans eru í þar til leyfilegum mörkum um gjaldmiðlaáhættu er náð.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal a-liður 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. apríl 2023.